Feðgarnir Arnar Kárason og Kári Guðmundsson voru í hópi fólks sem komst loks inn í Grindavík í gær til að sækja hross sem þar höfðu orðið eftir er rýmingin mikla var framkvæmd fyrir helgi. Í leiðangrinum var öllum hestum bæjarins, 22 talsins, bjargað. En það sem blasti við feðgunum er þeir komu að hrossum á Stað, eyðibýli vestan við Grindavík, var óhugnanlegt enda sigdældina miklu sem myndast hefur einmitt þar að finna.
„Við erum sem sagt úti á Stað, sem er á móti golfskálanum í Grindavík,“ útskýrir Arnar. „Og þessi sprunga var þarna við fjárhúsið sem er þar. Hún var ekkert rosalega breið og það var svona 10 sentímetra þykkt lag [af malbiki] sem hékk bara yfir henni. Við sáum svo þessa holu, annars hefðum við örugglega bara labbað yfir sprunguna. Ég ákvað að stappa þarna niður fótum til að sjá hvað væri undir. Og þegar það brotnar niður þá sé ég aðeins betur hvað er þarna og sé að það eru einhverjir þrír, fjórir metrar niður á efnið sem hafði fallið. Svo sá ég einhver þrjú fimmtíu sentímetra breið göng sem fóru bara ofan í eitthvað algjört hyldýpi. Ég tók smástein og kastaði ofan í og ég heyri bara: Klonk, klonk, klonk, klonk! Þannig að göngin voru í það minnsta 10 til fimmtán metra djúp.“
Arnar segir sprunguna neðan holunnar greinilega vera framhald af sprungunni eða sigdældinni sem hefur myndast á golfvellinum. Hún nái svo líklega alveg að Sýlingafelli í norðri. Hann viðurkennir að sér hafi brugðið við að sjá hversu djúp holan var. „Ég tók alveg tvö, þrjú skref aftur á bak, áður en ég kíkti ofan í hana aftur.“
Jörðin bara hættir ekki að skjálfa
Staður er eyðibýli og forn kirkjustaður vestan við Grindavíkurbæ. Bæinn sem Arnar býr í og þurfti að yfirgefa á föstudagskvöldið líkt og allir aðrir Grindvíkingar. Að koma aftur á þessar slóðir „og sjá hvað náttúruöflin eru búin að gera við bæinn ... það er svolítið svakalegt“. Hann segist í kjölfarið hafa farið að hugsa um ástand húsa í bænum enda liggi sprungur í gegnum alla Grindavík.
Fjölskylda Arnars á 14 hesta samtals. Í síðustu viku var hún búin að ákveða að fara með fylfullar merar og folöld af svæðinu, „svo þau væru ekki að upplifa jarðskjálftana og allt sem tengist þeim,“ rifjar Arnar upp. „Á föstudaginn, þegar ég var búinn að vinna, hringdi pabbi í mig og sagði: Heyrðu, þú verður að drífa þig til baka [til Grindavíkur], það er allt að skjálfa. Jörðin bara hættir ekki að skjálfa“.
„Ég tók smástein og kastaði ofan í og ég heyri bara: Klonk, klonk, klonk, klonk! Þannig að göngin voru í það minnsta 10 til fimmtán metra djúp.“
Komu öllum sínum hestum í skjól
Þeir feðgar fóru svo að vitja hrossanna sem voru á beit á túni við Stað og ákváðu þá þegar að flytja þá alla í burtu. „Pabbi fór á Eyrarbakka eina ferð með fullan bíl. Svo kemur hann til baka seinna um kvöldið og þegar við erum að hlaða hestum á seinni kerruna þá heyrum við að það sé verið að rýma bæinn. En við náðum að koma öllum okkar hrossum í burtu.“
Eftir að síðustu hrossin voru komin í hestakerruna hafði Arnar örstuttan tíma til að skjótast heim til sín „og skella nærbuxum, sokkum og tannbursta í tösku og koma mér út úr bænum“.
Ekki allir hestaeigendur voru ekki jafn heppnir. Einhverjir voru erlendis og aðrir ekki í aðstöðu til að sækja hrossin þetta kvöld. Þess vegna varð hópur þeirra eftir við Stað. „Við vildum fara og bjarga þeim, vegna þess að við vorum í aðstöðu til þess,“ segir Arnar um leiðangurinn í gær.
Yfirvöldum skítsama um dýrin
Björgunarhópurinn hafði reyndar freistað þess að komast til að sækja hrossin á laugardaginn. „En okkur var þverneitað að fara inn á svæðið,“ segir hann. Hins vegar hafi starfsmönnum fyrirtækis verið hleypt inn til að bjarga verðmætum, m.a. vörubílum og öðrum tækjum. Arnar hefur haft fregnir af tveimur slíkum leiðöngrum utan þess tíma sem íbúum í Þórkötlustaðahverfi var gefinn í gær til að skjótast heim í nokkrar mínútur. „Mér finnst það svolítið súrt að almannavarnir hleypi fólki að sækja dauða hluti en virðist ekki umhugað um velferð dýra.“
Hann hrósar hins vegar lögreglumönnunum sem manna lokunarpóstana. Þeir hafi verið allir af vilja gerðir en réðu því ekki hverjir fengu að fara inn fyrir póstana og hverjir ekki. Þeir sem valdið hafa virðist hins vegar „skítsama“ um dýrin, segir Arnar. Hann skilur vissulega að yfirvöld vilji ekki stofna fólki í hættu en þegar til standi að sækja tug milljóna verðmæti fyrirtækja þá virðist það vera í lagi. „Það er bara fáránlegt.“
Höfðu samband við alla sem vildu hlusta
Eftir að hópurinn sem ætlaði að bjarga hestunum á laugardag varð frá að hverfa hófu þeir að hafa samband við „alla sem vildu hlusta á okkur,“ útskýrir Arnar. Haft var samband við almannavarnir, lögregluna, héraðsdýralækni, Matvælastofnun og fleiri aðila. „Eftir það hefur eitthvað farið af stað.“
Í gærmorgun hafi þeir fengið hringingu um að mögulega yrði þeim hleypt inn á svæðið svo þeir drifu sig af stað. Þeir fengu svo skilaboð rétt eftir hádegi um að þeir mættu fara að sækja hrossin við Stað. Hann er þó hvergi nálægt Þórkötlustaðahverfi heldur hinum megin við þéttbýlið, vestan þess.
Hópurinn fékk fylgd með björgunarsveit á vettvang. Hluti hans fór austur við Grindavík að sækja hross sem þar voru en feðgarnir að Stað við annan mann til að sækja þá hesta sem þar voru. Aðgerðin gekk ljómandi vel. „Þannig að við náðum að koma öllum hestum í Grindavík út úr bænum,“ segir Arnar, öllum 22 sem voru þar enn eftir rýminguna fyrir helgi.
Gáfu kindum og hleyptu út
Á Stað er einnig fjárhús og inni í því var fjárhópur lokaður og aðrar kindur á túni sem höfðu ekkert að drekka er björgunarleiðangurinn bar að garði í gær. „Við gátum ekki tekið féð með okkur en við gátum að minnsta kosti gefið því að drekka og hleypt því sem var innilokað út á tún.“
Arnar segir hesta hafa sýnt streitumerki í jarðskjálftunum undanfarið. „Þeir sýna merki um að vera svolítið taugaveiklaðir og hræddir.“ Þegar komið var að Stað í gær og mennirnir fóru út úr bílnum þá hlupu hrossin í burtu frá þeim, þrátt fyrir að þeir væru með brauð til að lokka þá til sín. „Við þurftum að hlaupa upp allt túnið og smala þeim til að ná þeim.“
Þegar Heimildin ræddi við Arnar í gærkvöldi var hann staddur á Sólvangi utan við Eyrarbakka, þangað sem hestar fjölskyldunnar voru fluttir. „Við erum þar í gestahúsinu hjá fólkinu á Sólvangi og höfum fengið alveg konunglegar móttökur.“
Hann segist ekkert vita um ástand íbúðarhúss síns í Grindavík. Húsið sé nýlegt og hafi mögulega staðið af sér stærstu skjálftana. „En ég veit af öðrum húsum sem hafa klofnað og brotnað, þar sem mögulega hafa orðið vatnsleki og fleira þótt ég geti ekkert fullyrt um það.“
Fyrir þá sem ekki þurftu að yfirgefa heimili sín í Grindavík getur verið næsta ómögulegt að átta sig á líðan þeirra sem það þurftu að gera. „Óvissan er í sjálfu sér það sem er erfiðast,“ útskýrir Arnar. „Það er ekki hægt að ákveða neitt, hvað tekur við. Fáum við að fara aftur heim eftir tvær vikur? Er lífið að fara að halda áfram í Grindavík eða er þetta allt að fara undir hraun? Þurfum við að flytja eitthvað annað? Það er þessi óvissa, hún er alveg að fara með mann. Ég held að margir Grindvíkingar vilji bara að þetta gos fari að koma upp svo þeir sjái hvað er framundan.“
Athugasemdir