Vonir standa til hægt verði að hleypa Grindvíkingum stutta stund heim til sín til að sækja nauðsynjar og huga að dýrum sínum, sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í morgun. Slíkt yrði gert samkvæmt nákvæmu skipulagi sem verður kynnt betur þegar nýtt hættumat á svæðinu liggur fyrir. Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði hins vegar að ekkert hefði verið ákveðið í þessum efnum og að „það ágæta fólk sem býr í Grindavík“ þurfi að sýna þolinmæði. „Ef það er yfirvofandi hætta í Grindavík þá sé ég ekki alveg fyrir að við hleypum fólki þar inn,“ sagði hann við RÚV.
Rólegt hefur að mestu verið yfir skjálftasvæðinu síðustu klukkustundir, það er að segja, fáir skjálftar yfir 3 að stærð. Rétt eftir klukkan 8 í morgun varð þó 3,7 stiga skjálfti um sex kílómetrum suður af Reykjanestá. Sá er talinn hafa verið svokallaður gikkskjálfti.
Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að enn sé þó stöðug skjálftavirkni, langmest við kvikuganginn. „Við höfum séð það í fyrri gosum að skjálftavirknin hefur minnkað jafnvel talsvert áður en kvikan kemur upp á yfirborðið.“

Veðurstofan hefur varað við því að vegna mikillar spennulosunar á svæðinu sé ekki hægt að gera ráð fyrir að gosórói mælist áður en eldgos hefst. Líkön sýna 15 kílómetra kvikugang sem liggur rétt norðvestan Grindavíkur. Hann liggur allt frá Kálffellsheiði í norðri og út í sjó suður af Grindavík.
Stöðufundur sérfræðinga fór fram í morgun og í kjölfar hans stóð til að funda með með helstu viðbragðsaðilum. Í kjölfar hans munu mál vonandi skýrast, hvort og hvenær íbúum verður leyft að fara örstutt heim til sín.
Athugasemdir