„Við gerum ráð fyrir því versta en vonum það besta,“ segir Arnar Már Magnússon, framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs Play, um undirbúning flugfélagsins fyrir mögulegt eldgos á Reykjanesskaga. Samkvæmt nýjustu tíðindum hafa líkur á eldgosi aukist og er sprengigos á hafsbotni mögulegt. Kvikugangurinn sem myndast hefur er nú talinn vera um 15 kílómetra langur og nær hann frá Kálffellsheiði í norðri og út á sjó sunnan við Grindavík. Þótt gos á hafsbotni með tilheyrandi öskufalli sé ekki líklegasta sviðsmyndin er hún engu að síður inni í myndinni.
Arnar segir að fjöldi starfsmanna Play fylgist vel og rækilega með þróun mála, sé í nánum samskiptum við Veðurstofuna, flugmálayfirvöld og fleiri aðila. „Verði aska í gosinu erum við með tiltækar spár um hvernig hún muni dreifast á næstu klukkustundum, komi til goss á einhverjum tímapunkti.“
Að auki er eldsneytisstaða vélanna höfð eins góð og mögulegt er svo hægt sé að fljúga þeim til flugvalla inni á meginlandi Evrópu, komi til öskugoss, og ekki hægt að lenda á Keflavíkurflugvelli. Skilgreindir hafa verið nokkrir varaflugvellir í þessu sambandi.
Skemmst er að minnast áhrifa gossins í Eyjafjallajökli á flugumferð árið 2010. Þau náðu langt út fyrir landsteinana og stöðvaðist flugumferð víða. Arnar segir ekki mikið hafa breyst hvað varðar möguleika flugvéla til að fljúga í slíkum aðstæðum. „Aska er ennþá aska og það er ennþá varasamt að fljúga í henni og því ekki gert.“
Hvað varðar vélar á Keflavíkurflugvelli ef öskugos yrði raunin er hægt að grípa til þess ráðs að setja ábreiður fyrir bæði hreyfla og allar aðrar leiðir sem askan kæmist inn um. „Þannig að vélin er í raun innsigluð, tryggt að það komist ekki aska neins staðar inn fyrir,“ segir Arnar. Þegar hefur slíkt verið gert við að minnsta kosti eina vél Play sem var á Keflavíkurflugvelli í kvöld.
Varúðarráðstafanir snúast að sögn Arnars alltaf fyrst og fremst um að tryggja öryggi farþega og starfsmanna. „Vonandi fer þetta allt saman á besta veg og verður okkur öllum í hag. Þó að þetta líti ekkert sérstaklega skemmtilega út í augnablikinu.“
Athugasemdir