Sláandi myndir af ástandi vega í og við Grindavík voru birtar á Facebook-síðu Vegagerðarinnar, eftir vettvangsferð til að kanna ástand vegakerfisins. Sprunga gengur í gegnum bæinn, vegir eru víða rofnir og holur hafa myndast.
Vegagerðin ítrekar um leið að allir vegir til bæjarins séu lokaðir, enda sé ekki öruggt að vera þar á ferð, hvorki vegna skjálftavirkni, hættu á eldgosi né ástandi vega, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Heimildin ræddi í nótt við breska ferðamenn sem lýstu því hvernig grjóthrun á veginum varð til þess að dekkið fór af bílnum og hann skemmdist. Þeim var bjargað af íslenskri fjölskyldu á gistiheimili í Grindavík en enduðu í fjöldahjálparmiðstöð, þegar öllum var gert að yfirgefa svæðið.
„Loksins,“ sagði íbúi bæjarins þegar ákvörðun var tekin um að rýma bæinn seint í gærkvöldi, en í athugasemdum við fréttir Víkurfrétta og færslu Lögreglunnar á Suðurnesjum höfðu margir kallað eftir rýmingu á svæðinu. Dvalarheimili aldraðra hafði þá þegar orðið fyrir alvarlegum skemmdum og búið var að loka Grindavíkurvegi eftir að sprunga myndaðist á veginum.
Síðar um kvöldið kom í ljós að undir bænum lá kvikugangur. Svæðið er enn lokað og engum verður hleypt inn fyrr en almannavarnir meta ástandið öruggt. Búið að kalla alla viðbragðsaðila úr bænum, en samkvæmt nýjustu gögnum vísindamanna og almannavarna hafa líkur á gosi aukist.
Athugasemdir