Guðni Th. Jóhannesson forseti hefur sent frá sér skilaboð til þjóðarinnar vegna skjálftahrinunnar á Reykjanesi, sem er líklegast sú harðasta á síðari árum á svæðinu og með miðju aðeins um þremur kílómetrum norðaustur af Grindavík. Samkvæmt nýjum upplýsingum frá Almannavörnum eru skýr merki um að kvikugangur sé að brjóta sér leið til yfirborðs norður af Grindavík.
Margir íbúar Grindavíkur hafa yfirgefið bæinn. Rýmingarleiðin til norðurs, um Grindavíkurveg, lokaðist við einn skjálftann, þar sem sprunga klauf veginn. Í kvöld höfðu Almannavarnir enn ekki ákveðið að boða til rýmingar. Ástæðan var að skjálftavirkni var á rúmlega þriggja kílómetra dýpi og að hraunflæðilíkan benti til þess að hraun myndi ekki renna að Grindavík, heldur til vesturs og suðausturs.
Boðskapur Guðna forseta er að Íslendingar mæti ástandinu með sínu lagi.
„Jörð skelfur nú á Reykjanesi sem aldrei fyrr á þessu ári. Hættustigi hefur verið lýst yfir og eldgos gæti verið í vændum nærri Grindavík, jafnvel á næstu sólarhringum. Ég hugsa hlýtt til allra íbúa þar og þeirra sem nú sinna almannavörnum og hjálp í viðlögum. Við stjórnum ekki náttúrunni en þegar vanda og vá ber að höndum stöndum við Íslendingar saman. Höldum ró okkar og hjálpumst að,“ skrifar Guðni á Facebook-síðu forsetaembættisins.
Athugasemdir