Guðrún Ásta Tryggvadóttir, kennari í Seyðisfjarðarskóla, fylgist vel með veðurspánni og fyllist óöryggi þegar hún sér að það er rigning í kortunum. „Það verður stutt í kvikuna,“ útskýrir hún og bætir við:
„Eftir það sem á undan er gengið.“ Guðrún á við þegar stærsta aurskriða sem fallið hefur á byggð á Íslandi féll í heimabæ hennar, Seyðisfirði, í desember 2020. Síðustu daga hefur verið mikil rigning í kortunum og Guðrún hefur ekki sofið eins vært og hún er vön. Á þriðjudagsmorgun, þann 19. september, vaknaði hún klukkan fimm að morgni, eftir að hafa séð lækina ofan við húsið sitt „fossa niður í Botnstjörn“ þar sem enn „skín í skriðusárin frá því fyrir þremur árum“ , og hugsaði með sér:
„Nei, andskotinn hafi það, ég ætla að flytja, ég get þetta ekki, ég vil ekki búa við þetta.“ Daginn áður hafði ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi, lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna mikilla rigninga á Austfjörðum. Hún segir síðustu daga hafa verið „erfiða og óþægilega“ en að vissu leyti séu bæjarbúar sömuleiðis orðnir „sjóaðir í þessu“.
Hún segir það „skrýtinn veruleika“ að vera orðin sjóuð í því að vera á varðbergi fyrir aurskriðum en Guðrún er aðflutt, upprunalega frá Reykjavík, og bjóst aldrei við því að þetta yrði að hversdegi hennar, áhyggjur af því að aurskriður myndu taka með sér húsið hennar, heimili fjölskyldu hennar. Guðrún býr á því svæði á Seyðisfirði sem er metið hættulegast hvað aurskriður varðar, en þetta vissi hún ekki þegar hún flutti þangað árið 2018.
Hafði ekki hugmyndaflug að spyrja út í auskriður
„Ég spurði út í snjóflóðahættu þegar ég keypti húsið og flutti hingað en ég hafði ekki hugmyndaflug í að spyrja út í hættu sem stafaði af aurskriðum.“ Guðrúnu var talin trú um að það fylgdi því engin hætta að búa þar sem hún keypti sér hús, í Botnshlíð. Ári síðar var gert nýtt hættumat fyrir Seyðisfjörð og húsið hennar sett inn á skilgreint C-svæði, eða hættulegasta svæðið. „Þá fékk ég áfall,“ útskýrir hún. Aftur var henni tilkynnt, eins og hún orðar það, að skilgreina svæðið svona væri einungis formsatriði og verkferlar væru skýrir ef eitthvað kæmi fyrir, engin hætta væri á ferðinni. „Ekki vera að panikka“ voru skilaboðin sem hún fékk.
„Ég spurði út í snjóflóðahættu þegar ég keypti húsið og flutti hingað en ég hafði ekki hugmyndaflug í að spyrja út í hættu sem stafaði af aurskriðum.“
„Svo var reynslan í desember árið 2020 að allt brást og enginn vissi rassgat, afsakið orðbragðið. Ég upplifði það þannig og það var rosalega óþægilegt.“ Hún tekur þó fram að nú sé búið að heila það sár sem varð til þegar verkferlar voru óskýrir og óskýrt var hver bar ábyrgð á hverju þegar áfallið skall á. „Það er búið að skýra hver ber ábyrgð á hverju og við höfum fengið fræðslu og skýringar á því hvað er að gerast hverju sinni og hvaða varnir hafa verið settar upp. Nú eru til að mynda komnar bráðabirgðavarnir.“ Hún segir opinbera aðila hafa viðurkennt „klúður“ af þeirra hálfu og lagfært það sem lagfæra þurfti, að mestu. „Þetta mjakast,“ segir hún.
Seyðfirðingar eru seigir
Guðrún segir samheldnina í Seyðfirðingum mikla, hún upplifir bæjarfélagið eins og „stóra fjölskyldu“ þar sem allir standa „þétt saman“. Hún segir mikilvægt að halda því til haga að „Seyðfirðingar eru mjög seigir, samheldnir og æðrulausir“.
Hún segir hugarfar sitt gagnvart hættunni í heimabænum tvenns konar: Annars vegar finnst henni að lífinu almennt fylgi ákveðin hætta sem hver og einn þurfi að sætta sig við. Byggi hún í stórborg myndi hún til dæmis frekar óttast bíla og bílslys en „hér er það þetta“. Hins vegar finnst henni ekki ásættanlegt að búa við áhyggjur af árlegum atburðum sem væri hægt að verja byggðina betur fyrir. „Við setjum beltin á í bílum og auðvitað þarf að setja hér varnir til frambúðar,“ segir hún. Þrátt fyrir að hægt sé að rýma hús eins og hennar þá sé húsið heimilið hennar og fjölskyldunnar, hús sé kannski „dauður hlutur“ eins og hún hefur heyrt fólk orða það, en heimili sé það ekki.
Athugasemdir (2)