Laxeldisfyrirtækið Fiskeldi Austfjarða, sem stundar laxeldi á Austfjörðum og hyggur á stórfellt laxeldi í Seyðisfirði, gaf 6 til 8 milljónir króna til sveitarfélagsins Múlaþings nýlega. Gjöfin var til að vinna að mengunarvörnum í Seyðisfirði vegna olíuleka frá skipinu El Grilló. Þetta kemur fram í fundargerð frá Umhverfis- og framkvæmdanefnd Múlaþings frá því á mánudaginn.
Ætla að fá íbúana í lið með sér
Fiskeldi Austfjarða hyggur nú á laxeldi í Seyðisfirði en fyrir stundar fyrirtækið sjókvíaeldi í nokkrum öðrum fjörðum á Austurlandi. Áform fyrirtækisins hafa vakið hörð viðbrögð hjá hluta íbúa og eru skiptar skoðanir um eldið. Jens Garðar Helgason, framkvæmdstjóri Laxeldis Austfjarða, hefur gefið það út að fyrirtækið muni vinna í því að reyna að fá íbúa í Múlaþingi í lið með sér með kynningar- og fræðslustarfi um laxeldið.
Fyrr á árinu sagði Jens Garðar um þetta: „Ég lít á það þannig að nú er það í okkar höndum að upplýsa íbúana ennþá betur. Hluti af þessu er að það hefur skort á upplýsingagjöf frá okkur í umræðunni varðandi ýmis álitamál. Þetta er til dæmis um Farice-strenginn, ofanflóð, umhverfismál og siglingaleiðir.“
„Ábyrgð fylgjandi því að gefa og þiggja“
Efni, verkfæri og vinna frá laxeldisfyrirtækinu
Fram kemur í fundargerðinni, undir liðnum „ábyrgð fylgjandi því að gefa og þiggja“ að fulltrúar minnihlutans spyrji sig spurninga um gjöfina frá laxeldisfyrirtækinu. „Við, fulltrúar V-lista og M-lista, köllum eftir því að settar verði skýrar reglur um gjafir til sveitarfélagsins í ljósi umræðna á fundinum.“
Á fundinum kom fram að eðli gjafarinnar hafi verið efni, verkfæri og vinna við mengunarvarnir í firðinum. Í fundargerðinni segir: „Fulltrúar V-lista og M-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:Á 92. fundi Umhverfis- og framkvæmdaráðs 28.08. 2023 kom það fram undir umræðu við 1. dagskrárlið; Málefni hafna í Múlaþingi, að nýverið hefði höfnin á Seyðisfirði (eign Múlaþings) þegið gjöf af Fiskeldi Austfjarða í formi efnis, verkfæra og vinnu tengt því mikilvæga verkefni að vinna gegn olíuleka úr El Grilló. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu á fundinum var verðmæti umræddrar gjafar talið nema a.m.k. 6 - 8 milljónir króna.“
Ef af laxeldi Fiskeldis Austfjarða í Seyðisfirði verður munu siglingar skipa um fjörðinn, meðal annars Norrænu, geta skipt verulegu máli fyrir laxeldisfyrirtækið þar sem öldugangur og annað rask getur haft áhrif á rekstur sjókvíanna. Nokkru máli getur skipt fyrir laxeldisfyrirtækið að tryggja sína hagsmuni í góðu samstarfi við sveitarfélagið ef af eldinu verður. Eitt atriði getur meðal annars verið að stuðla að því að siglingahraði Norrænu um Seyðisfjörð verði lækkaður.
Athugasemdir (4)