Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á útlendingalögum. Tilgangur laganna er að breyta reglum sem gilda um skipun nefndarmanna í kærunefnd útlendingamála (KNU). Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til þess að skipun hluta nefndarmanna á grundvelli núgildandi útlendingalaga fari fram m.a. með þeim hætti að Mannréttindaskrifstofa Íslands (MRSÍ) tilnefni þá til starfsins. Þá er vísað til þess að hluti þeirra samtaka sem eigi aðild að MRSÍ hafi haft sig frammi í málflutningi þess efnis að umsækjendur um alþjóðlega vernd sem hefur verið synjað um hæli „fái engu að síður áfram fulla og óskerta þjónustu hins opinbera, andstætt ákvæðum laga um útlendinga.“
Tilgangur þessa pistils er ekki að fjalla um þá stöðu sem komin er upp í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd sem hafa fengið lokasynjun á máli sínu og hefur nú mörgum verið hent á götuna í kjölfar breytinga á Útlendingalögum. Þó skal því haldið til haga að framangreind útlistun í frumvarpinu á viðbragði frjálsra félagasamtaka sem láta sig mannréttindi varða á því ástandi sem komið er upp í málum þessa hóps felur í sér mikla einföldun á annars eðlilegum áhyggjum samtakanna af stöðu hóps sem er í mikilli neyð og er í mörgum tilfellum ómögulegt að snúa aftur til upprunalanda sinna. Það dregur ekki úr trúverðugleika og hlutleysi MRSÍ eða þeirra samtaka sem að baki henni standa að samtökin hafi lagst á eitt í þeirri viðleitni að tryggja að fólk yrði ekki gert heimilis- og réttindalaust.
En aftur að frumvarpinu. Þar er því haldið fram að misbrestur hafi orðið á því að nefndarmenn í KNU fari að lögum og er því haldið algjörlega röklaust fram að KNU hafi túlkað hugtakið „flóttamaður“ rýmra en vilji Alþingis stóð til. Ég tel óhætt að fullyrða að flestir sem vinna með réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd og hafa raunverulega hugmynd um hvernig hugtakið flóttamaður er túlkað í framkvæmd séu ósammála þessari fullyrðingu um rúma túlkun KNU á hugtakinu flóttamaður.
Það er enginn vafi um það að ástæða þess að þetta frumvarp er lagt fram er sú að KNU hefur endurtekið úrskurðað um að umsækjendur um alþjóðlega vernd frá Venesúela eigi rétt á viðbótarvernd, þvert á tilraunir Útlendingastofnunar til að komast að öndverðri niðurstöðu. Það liggur í augum uppi að meint rúm túlkun KNU á hugtakinu flóttamaður sem vísað er til í frumvarpinu er í raun túlkun KNU á hugtakinu viðbótarvernd í skilningi útlendingalaga í málum umsækjenda frá Venesúela.
Það er erfitt fyrir almenning að gera sér grein fyrir því hver uppfyllir skilyrði þess að teljast flóttamaður. Fólk leggur því traust sitt á raddir sérfræðinga og ráðamanna þegar slík málefni eru rædd. Ráðamenn móta að miklu leyti almenningsálitið og er því ábyrgð þeirra mikil. Þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa margir lagt sig fram við það að sannfæra almenning um að hér á landi sé mikill hluti umsækjenda um alþjóðlega vernd ekki raunverulega flóttafólk. Fyrrum dómsmálaráðherra gerðist m.a. gjarnan sekur um rangfærslur þegar hann tjáði sig um þessi málefni. Spjótin hafa oft beinst að umsækjendum frá Venesúela, sem hafa verið kallaðir „efnahagsflóttamenn“.
Það er ekki lítið verk að fjalla um þau margvíslegu mannréttindabrot sem tíðkast í Venesúela, en í stuttu máli þá ræður þar ríkjum alræðisstjórn sem þverbrýtur mannréttindi ríkisborgara sinna á hverjum degi. Stjórnvöld standa fyrir því að lögregla og aðrar öryggissveitir beita handahófskenndu ofbeldi, handtökum og morðum sem oft beinast gegn almennum borgurum. Þá starfa tilteknir glæpahópar beinlínis á vegum stjórnvalda sem hafa það hlutverk m.a. að berja niður mótmæli og önnur áköll um umbætur í landinu. Þar að auki ríða önnur glæpagengi röftum í landinu og beita almenning ofsóknum án þess að vilji eða geta sé af hálfu yfirvalda til að aðstoða almenning. Þeim sem eru ekki stuðningsmenn alræðisstjórnarinnar er meinað um grunnþjónustu af hálfu hins opinbera. Öryggi almennings er ekkert og enginn er óhultur. Þetta er helsta ástæða þess að fólk flýr hingað til lands frá Venesúela.
Öll kerfi og opinber þjónusta í landinu eru þó einnig vissulega lömuð og er því aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu, vatni, mat, rafmagni og öðrum nauðsynjum verulega takmarkað. Ef að þessi myrki efnahagslegi veruleiki væri helsta eða eina ástæða flótta fólks hingað til lands þá væri e.t.v. eðlilegt að spyrja sig hvort að umsækjendur væru í raun „efnahagsflóttamenn“, en ég endurtek að það er ekki raunveruleiki þessa fólks.
Í starfi mínu sem talsmaður í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd hef ég sinnt málum ótal einstaklinga frá Venesúela. Þetta fólk nefnir vissulega erfiðar aðstæður í landinu sem kalla mætti „efnahagslegar“ yfirleitt til sögunnar sem ástæðu flótta síns, enda eru viðtöl Útlendingastofnunar gagngert hönnuð á þann hátt að umsækjendur eru spurðir með beinum hætti út í slík atriði. En það sem fólk nefnir iðulega sem helstu ástæðu flóttans er að það hefur þegar orðið fyrir ofsóknum af hálfu yfirvalda eða annarra eða á raunverulega hættu á að verða fyrir ofsóknum. Fólk upplifir því gríðarlegt óöryggi.
Flóttamenn sem uppfylla skilyrði viðbótarverndar í skilningi útlendingalaga eru m.a. þeir sem eiga á hættu að sæta „pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu“ í heimalandi sínu. Ég hvet lesendur til að kynna sér opinberar skýrslur og skýrslur mannréttindasamtaka um stöðu mannréttindamála í Venesúela. Mín stutta yfirferð um stöðuna í Venesúela hér að ofan byggir á slíkum skýrslum. Það hlýtur að vera augljóst fyrir hverjum þeim sem hefur einhvern áhuga á því að vita það að allur almenningur í Venesúela á svo sannarlega hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.
En hversu trúverðugir eru þeir þingmenn sem að frumvarpinu standa? Að frumvarpinu standa m.a. Óli Björn Kárason og Diljá Mist Einarsdóttir. Það er mjög áhugavert að rifja upp greinaskrif þeirra frá árunum 2018 – 2020 sem birtust m.a. í Morgunblaðinu. Í skrifum sínum fjölluðu þingmennirnir um hryllilegar aðstæður í landinu. Í grein Diljár Mistar, sem birtist í Deiglunni 17. september 2020 og ber titilinn Glæpur gegn mannkyni af hálfu sósíalista í Venesúela segir m.a.:
Á vettvangi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna var í kjölfarið ákveðið að skipa nefnd til að rannsaka stjórnarhætti sósíalista í Venesúela. Niðurstöður nefndarinnar voru birtar í gær og þær eru sláandi. Þar er leitt í ljós að alvarlegir glæpir gegn stjórnarandstæðingum voru framdir með vitund og vilja æðstu valdhafa, oft beinlínis að þeirra undirlagi, með kerfisbundnum hætti. Frelsissvipting, pyntingar, nauðganir og morð eru meðal þeirra glæpa sem tilgreindir eru í skýrslunni. Sannað þykir að sérstakar dauðasveitir yfirvalda hafi myrt 413 manns á umliðnum árum. Mörg fórnarlambanna voru skotin í höfuðið af stuttu færi, m.ö.o. aftökur án dóms og laga.
Það er gott til þess að vita að Ísland var í hópi þeirra ríkja sem stigu fram fyrir skjöldu á síðasta ári til að gagnrýna ástand mála í Venesúela. Utanríkisráðherra hafði forystu um málið og ríkisstjórnin stóð að baki þeirri ákvörðun að lýsa yfir stuðningi við Guaidó. Sú afstaða var síður en svo sjálfgefin og raunar ekki óumdeild.
Tvær greinar birtust eftir Óla Björn sem fjölluðu um ástandið í Venesúela. Í Morgunblaðinu 27. júní 2018 birtist greinin Martröð í sæluríki sósíalista, en þar kom m.a. fram:
Venesúela er í rúst – efnahagslega og pólitískt. Samfélagslegir innviðir hafa verið brotnir niður. Mannréttindi eru fótum troðin og hundruð þúsunda hafa flúið land. Nicolás Maduro, lærisveinn og eftirmaður Chavez á forsetastóli, heldur hins vegar ótrauður áfram við að breyta auðugasta landi Suður-Ameríku í það fátækasta.
Í Morgunblaðinu 30. janúar 2019 birtist grein eftir Óla Björn, þar sem segir m.a.:
Nicolás Maduro tók við forsetaembættinu árið 2013, eftir að Chavez féll frá. Hann hélt embættinu eftir sýndarkosningar á síðasta ári. Í skjóli hæstaréttar og hersins stjórnar Maduro landinu með forsetatilskipunum. Spilling er landlæg á öllum stigum stjórnkerfisins.
Frá 2014 hafa yfir 13 þúsund manns verið handtekin í mótmælum gegn stjórnvöldum. Um 7.500 hafa verið leyst úr haldi en eiga enn yfir höfði sér saksókn. Þvert á alþjóðalög hafa 800 óbreyttir borgarar verið dregnir fyrir herdómstól frá 2017. Í liðinni viku féllu 26 manns í mótmælum og Sameinuðu þjóðirnar vara við því að ástandið verði stjórnlaust.
Eins og oft áður hafa óbreyttir borgarar tekið til fótanna til að komast burt úr draumaríki sósíalismans sem einkennist af hungri, lyfjaskorti, atvinnuleysi og vaxandi ofbeldi. Á fjórðu milljón íbúa hafa flúið land á síðustu árum.
Ef til vill voru markmið þessara skrifa þingmannanna að koma fram ódýru höggi gegn sósíalistum og öðrum vinstrisinnuðum, en það er óneitanlega nokkuð hlægilegt að sömu aðilar hafi staðið að þessum skrifum sem nú vilja breyta lögum um útlendinga augljóslega til að bregðast við því að fólk frá Venesúela hefur fengið viðbótarvernd hér á landi vegna þess að KNU „fer ekki að lögum“ og túlkar hugtakið flóttamaður „með rúmum hætti“. Ég endurtek, kynnið ykkur aðgengilegar heimildir um stöðu mannréttindamála í Venesúela, þær benda síst til þess að mál hafi skánað frá því að þingmennirnir skrifuðu þessi orð fyrir 3 – 5 árum, reyndar þvert á móti.
Með lagafrumvarpinu er vegið að MRSÍ á óvæginn hátt. Það er síður en svo löstur á Útlendingalögum að óháðum aðilum sem hafa mannréttindi að leiðarljósi sé fengið hlutverk við skipun faglegrar nefndar á sviði Útlendingamála. Þá ber að hafa í huga að nefndin er skipuð sjö nefndarmönnum en einungis tveir þeirra eru tilnefndir af MRSÍ og því fer fjarri að niðurstöður nefndarinnar fylgi því sem umræddir nefndarmenn telja lagalega rétta niðurstöðu.
Að lokum verður ekki hjá því komist að benda á að í frumvarpinu er því haldið fram að „túlkun kærunefndarinnar hafi síðan haft í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir ríkissjóð“. En er umræddur kostnaður virkilega sök KNU? Útlendingastofnun hefur endurtekið reynt að snúa mati sínu á því hvort að umsækjendur frá Venesúela uppfylli skilyrði viðbótarverndar. Umsækjendur frá Venesúela hafa eðlilega kært þessar ákvarðanir til KNU sem hefur m.a. það hlutverk að taka til skoðunar hvort að mat Útlendingastofnunar hafi staðist lög. Faglegt mat KNU hefur verið það að umsækjendur frá Venesúela uppfylli skilyrði viðbótarverndar og því hefur KNU ítrekað úrskurðað með þeim hætti. Í kjölfarið hafa umsækjendur frá Venesúela svo fengið fljóta afgreiðslu mála sinna og hefur hið opinbera þurft að standa fyrir mjög litlum kostnaði af því þegar málin ganga smurt og fá hraða afgreiðslu. Útlendingastofnun, sem er ekki sjálfstæð ríkisstofnun heldur lítur yfirstjórn dómsmálaráðuneytisins og dómsmálaráðherra, heldur hins vegar áfram að berja höfðinu við steininn og hefur ítrekað reynt að illa ígrunduðu máli að komast aftur að sömu röngu niðurstöðunni.
Sú ákvörðun að þrjóskast endalaust við það að veita þessum hópi þá vernd sem hann á rétt á verður svo til þess að umsækjendur festast í löngu kæruferli svo mörgum mánuðum skiptir og á meðan því stendur er umsækjendum ýmist alfarið meinað eða að lágmarki gert erfitt fyrir að vinna. Rétt er að nefna að það liggur fyrir samkvæmt opinberri tölfræði að atvinnuþáttaka flóttafólks frá Venesúela er mjög há, umtalsvert hærri en atvinnuþáttaka hins almenna borgara. Því eru umsækjendur í þeirri óheppilegu stöðu að vera óhjákvæmilegur fjárhagslegur baggi á samfélaginu á meðan mál þeirra eru í kæruferli. Það er eitthvað verulega skakkt við það að halda því fram að sá aðili sem ber ábyrgð á þeim kostnaði sé KNU, það liggur raunar alveg í augum uppi hvar ábyrgðin liggur í raun og veru.
Höfundur er lögfræðingur og formaður FTA, félags talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Allt í boði Bjarna Ben er það ekki?
Samfélagið er ekki aflögufært vegna …. Bjarna við ….
Svo lausnin er, látum bæjarfélögin leysa málið.
Þetta fólk er hvort er er ekki á ábyrgð samfélagsins lengur, heldur eftir pennastrik frá Bjarnabandinu, utan samfélagsins og því skal það bæjarfélag sem viðkomandi er sagður staddur er pennastrikið var ritað, sjá um málið.
Erum við ekki stolt af stjórn okkar samfélags!?!?!?!?