„Ég heiti Arnar Margeirsson og við erum í Aðalstræti. Ég er 59 ára gamall og bý í Breiðholtinu. Ég er að afgreiða þvott á Hótel Center. Þetta geri ég á hverjum degi, að ferja þvott frá Þvottahúsinu Fönn. Ég hef verið að gera þetta alltof lengi, eða í 36 ár. Ég gæti ímyndað mér að ég sé einn af þeim reynslumestu í þessu.
Þegar ég segi alltof lengi á ég við að, ég veit það ekki, maður hefði kannski átt að gera eitthvað annað. Þetta starf er samt ekki slæmt. Hvað myndi ég gera ef ég gæti snúið til baka og byrjað upp á nýtt? Það væri þá einhver iðn, einhver bílatengd iðn, bílaviðgerðir eða eitthvað í þá áttina. En ég er bara í fínni vinnu og ég er búinn að vera svo lengi í þessu að ég nenni ekki að skipta núna.
Ég kann að gera við bíla, ég geri það stundum. Ég hef bara lært það af reynslunni. Ég veit ekki um neitt eitt augnablik sem hefur breytt farvegi lífs míns og kannast ekki við neitt eitt stórt augnablik sem hefur mótað mig. Það má segja að líf mitt séu mörg lítil augnablik. Það er ekkert eitt sem hefur verið mér efst á huga, bara vinnan.
Fyrir utan að gera við bíla fer ég svolítið á fjöll. Síðast fór ég á Helgafell. Ég er ekki týpan sem þarf að sigrast á fjallinu, ég vil bara vera úti í náttúrunni að slaka á. Ég þarf ekkert að fara á hæsta fjallið. Mér liggur ekkert á. Ég myndi aldrei nenna upp á Everest, ég fer ekki í neinar hættulegar fjallgöngur.“
Arnar bítur ekki á agnið. "Ég veit ekki um neitt eitt augnablik sem hefur breytt farvegi lífs míns og kannast ekki við neitt eitt stórt augnablik sem hefur mótað mig. Það má segja að líf mitt séu mörg lítil augnablik." Mig grunar að það sama eigi við um okkur flest.