Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) studdi kaup Vátryggingafélags Íslands (VÍS) á fjárfestingarbankanum Fossum og greiddi atkvæði með viðskiptunum á hluthafafundi VÍS á miðvikudaginn. Þetta kemur fram í svörum frá Hörpu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra LSR, við spurningum Heimildarinnar um málið. LSR er stærsti einstaki hluthafi VÍS með samtals 11,34 prósenta hlut í gegnum A- og B deildir sjóðsins. „LSR kaus með tillögu stjórnar,“ segir í svarinu.
Heimildin fjallaði um atkvæði ellefu lífeyrissjóða, eða deilda innan sjóðanna, sem eru meðal 20 stærstu hluthafa VÍS, í blaðinu sem kom út í dag. LSR svaraði ekki spurningum blaðsins um kaupin á Fossum fyrr en í morgun. Með svörum LSR liggur fyrir að 8 sjóðir af 11 á listanum yfir 20 stærstu hluthafana greiddu atkvæði með kaupum VÍS á Fossum. Þrír sjóðir kusu gegn tillögunni um kaupin.
„LSR telur að mat stjórnar sé unnið af fullum heilindum og með hagsmuni hluthafa í forgrunni.“
Treystir mati stjórnar VÍS
Í svörum Hörpu, fyrir hönd LSR, kemur fram að sjóðurinn hafi treyst mati stjórnar VÍS sem lá til grundvallar í viðskiptunum. „Stjórn VÍS hefur stefnt að því að útvíkka starfsemi félagsins og bæta við fjármálatengdum tekjueiningum síðastliðin misseri. Hagsmunamat stjórnar ræður því hvenær og hvaða leið er farin til að ná settu markmiði. Mat stjórnar er að í nánustu framtíð séu breytingar á fjármálamarkaði sem gefa nýjum fjárfestingarbanka tækifæri til að sækja sér hlutdeild og vaxa hraðar en ella. LSR telur að mat stjórnar sé unnið af fullum heilindum og með hagsmuni hluthafa í forgrunni.“
Harpa segir að almenna reglan í rekstri lífeyrissjóðsins sé að fylgja mati og tillögum stjórna þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfestir í. „Samkvæmt eigendastefnu LSR er almenna reglan að kosið sé með tillögum réttkjörinna stjórna félaga sem eiga að tryggja hagsmuni hluthafa til lengri tíma. Að sama skapi er áhersla á virkt samtal við hluthafa og að rökstuðningur eigi sér stað í aðdraganda hluthafafunda.“ Þetta hafi líka verið gert núna.
Athygli vekur að þrír lífeyrissjóðir komust að annarri niðurstöðu en LSR og hinir lífeyrissjóðir sjö. Rökstuðningur þeirra fyrir að styðja ekki kaupin voru annars vegar hátt verð á Fossum - 4,2 milljarðar króna- og svo ófullnægjandi upplýsingagjöf um viðskiptin.
LSR er hins vegar á þeirri skoðun að ákvörðun sjóðsins um að styðja kaupin séu vel ígrunduð, sem felur í sér að sjóðurinn er sáttur við forsendurnar sem hún byggir á, öfugt við þrjá af sjóðunum. „Ákvörðun LSR er vel ígrunduð og forsendur sem lagðar hafa verið fram af stjórn VÍS hafa verið metnar með eigin áhættumati líkt og aðrar sambærilegar ákvarðanir sem teknar eru hjá sjóðnum. Fjárfestingarákvarðanir byggja á væntingum um framtíðarrekstur viðkomandi félaga og þróun á ytri aðstæðum. Í tilfelli kaupa VÍS á Fossum fjárfestingarbanka var áhættubil viðskiptanna metið innan marka og ákveðið að fylgja hagsmunamati stjórnar VÍS.“
Ragnar rasandi
Viðskipti VÍS með Fossa vöktu hins vegar hörð viðbrögð úti í samfélaginu á sumum bæjum. Til dæmis var Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, gagnrýnin á þau og sagði á Facebook að verið væri að misnota lífeyrissjóði landsmanna.
Orðrétt sagði hann: „Hér má sjá einfalda skýringu á því hvernig lífeyrissjóðirnir okkar eru notaðir til að færa gríðarlegt fjármagn í eigu almennings yfir á fáar hendur. Snúningarnir eru ekki flóknir. Það eina sem þarf er lítill en ráðandi eignahlutur í stóru hlutafélagi, þar sem lífeyrissjóðirnir eru stórir eigendur en passívir og afskiptalausir. Í krafti mikils minnihluta hafa þjóðþekktir einstaklingar úr bankahruninu hreiðrað um sig í stærstu fyrirtækjunum og sýna gamalkunna takta og leika sér með eftirlaunasjóðina okkar. Og hagnast ævintýralega.“
Þessi orð Ragnar Þórs voru meðal annars áhugaverð fyrir þær sakir að VR skipar fjóra af átta stjórnarmönnum Lífeyrissjóðs verslunarmanna sem greiddi atkvæði með kaupunum á VÍS. Í þessu felst að formaður stéttarfélagsins sem er með helming stjórnarmanna í einum lífeyrissjóðnum sem ákvað kaupin á Fossum er á móti. Tekið skal fram að fjárfestingin í Fossum fór ekki fyrir stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna áður en ákveðið var að styðja fjárfestinguna en mat Ragnars sýnir að viðskiptin eru umdeild.
Á meðan lífeyrissjóðir almennings eru undir stjórn atvinnurekanda þá verða þeir mjólkaðir þar til almenningur segir : stopp.
Það er ótrúlegt hvað alþingismenn sem eiga að gæta hagsmuna almennings eru heimskir eða spilltir.