„Við erum ennþá að spyrja félagið spurninga um málið af því við höfum verulegar efasemdir um að þetta sé ásættanlegt verð sem verið er að greiða fyrir hlutinn. Við eigum von á svörum mjög fljótlega til að geta lagt endanlegt mat á hver okkar afstaða verður á hluthafafundinum. Að óbreyttu þá sé ég ekki fyrir mér að við munum samþykkja þessa tillögu um kaup á Fossum,“ segir Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar lífeyrissjóðsins Gildis, aðspurður um afstöðu sjóðsins til fyrirhugaðra kaupa tryggingafélagsins VÍS á Fossum. Til stendur að VÍS greiði um 4,2 milljarða króna fyrir félagið, miðað við markasverð VÍS um þessar mundir, og að hluthafar Fossa fái greitt með nýjum hlutabréfum í VÍS. Gildi er 3. stærsti hluthafi VÍS með 9,23 prósenta hlut.
„Þetta kom okkur svolítið á óvart að sjá þennan verðmiða.“
Íslenskir lífeyrissjóðir eiga meirihluta hlutafjár í VÍS. Meðal annars Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Gildi, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Stapi og Birta. Stærstu einkafjárfestarnir eru svo fjárfestingarfélagið Skel, þar sem Jón Ásgeir Jóhannesson er stór hluthafi, og fjárfestingarfélag Bjarna Ármannssonar, Sjávarsýn. Lífeyrissjóðirnir, og þar með sjóðsfélagar þeirra sem eru iðgjaldagreiðendurnir, eiga hins vegar meirihluta í félaginu. Af 20 stærstu hluthöfum VÍS eru 11 lífeyrissjóðir sem eiga samtals 58,33 prósent í félaginu.
Fossar er í grunninn verðbréfafyrirtæki sem fékk fjárfestingarbankaleyfi frá Fjármálaeftirlitinu í fyrra. Eftir sameininguna, gangi hún eftir, mun verða rekið sérstakt fjárfestingarbankasvið innan VÍS auk eignastýringardeildar og tryggingarekstrar. Ársverk Fossa í fyrra voru tæplega 24. Fyrirtækið hefur verið nokkuð til umfjöllunar í fjölmiðlum vegna þess að það kom að því að selja hlutabréf ríkisins í Íslandsbanka í fyrra.
Hluthafafundur Vátryggingafélags Íslands mun taka sameininguna við Fossa fyrir á hluthafafundi sínum á miðvikudaginn.
VÍS: Verðmatið byggir á framtíðarvæntingum
Heimildin sendi spurningar um hvernig verðmat Fossa væri unnið til vátryggingafélagsins VÍS.
Svar VÍS er á þá leið að verðmatið byggi á „væntingum“ og „arðsemi til framtíðar“: „Mikil fjárfesting átti sér stað í innviðum og leyfum hjá Fossum fjárfestingarbanka á síðasta ári og verðmatið byggi m.a. á þeim áætlunum og verkefnum sem eru á borði Fossa. Verðmat Fossa fjárfestingabanka byggir því á væntingum um framtíðartekjur og arðsemi til framtíðar.“
Í svarinu felst því að verðmiði Fossa byggi á því sem ætlað er að verði frekar en einhverju sem er handbært í rekstri félagsins í dag.
Davíð: Tekjur félagsins fyrst og fremst miðlunartekjur
Orð Davíðs Rúdólfssonar um að virði Fossa sé ofmetið í fyrirhuguðum viðskiptum við vátryggingafélagið VÍS eiga sér líka stoð í þeim forsendum sem notaðar eru til að reikna út verð slíkra fyrirtækja hjá fjárfestingarbankanum Goldman Sachs.
Davíð segir að efasemdir Gildis byggi fyrst og fremst á því að meginrekstur Fossa snúist um miðlunartekjur. Það er að segja tekjur sem starfsmenn Fossa fá fyrir að vera milliliðir í hlutabréfa- og verðbréfaviðskiptum. „Meginrekstur félagsins snýst um miðlunartekjur og þar byrja menn á hverjum degi upp á nýtt ef svo má segja. Þetta eru hverfular tekjur sem byggja fyrst og fremst á viðkomandi starfsmönnum og þeirra tengslaneti og svo framvegis. Þannig að það að nota margfaldara til að verðmeta félag sem er með tekjur af þessu eðli er það sem við setjum meðal annars spurningamerki við,“ segir Davíð og bætir við: „Við eigum því erfitt með að reikna okkur niður á þetta verð. Þetta kom okkur svolítið á óvart að sjá þennan verðmiða.“
Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Birtu, segir við Heimildina að hann geti ekki tjáð sig um mat sjóðsins á verðmatinu á Fossum og þessi fyrirhuguðu viðskipti. Hann segir að Birta hafi það sem reglu að gera slíkt ekki það sem geti haft áhrif á ákvarðanatökuna í málinu. Hann segir að starfsfólk Birtu muni hitta VÍS á morgun og ræða við það um viðskiptin með Fossa og verðmiðann á fyrirtækinu. Hann segir að sjóðurinn muni taka ákvörðun um framhaldið í kjölfarið.
Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins, tekur í sama streng og Ólafur Sigurðsson og segir að hann geti ekki tjáð sig um verðmatið að svo stöddu. Hann segir að stjórn Frjálsa muni taka ákvörðun um hvort sjóðurinn styðji kaupin á stjórnarfundi á miðvikudagsmorgun.
Verðmæti Fossa talið 4,2 milljarðar
Komið hefur fram að viðskiptin muni fara þannig fram að hluthafar Fossa muni eignast samtals 12,62* prósenta hlut í VÍS við sameininguna eða 245 milljón hluti.
Samkvæmt virði hlutabréfa í VÍS föstudaginn 9. júní er það 17,30 á hlut þannig að verðmæti Fossa ætti að vera 4.239 milljónir króna miðað við þetta.
Samkvæmt frétt um virði fyrirtækisins sem birt var í febrúar, þegar hlutabréfaverð í VÍS var 19,25 voru Fossar fimm milljarða króna virði.
Í byrjun júní birti ráðgjafafyrirtækið Jakobsson Capital verðmat á VÍS þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að það væri 31,5 milljarðs króna virði. Miðað við verðmat Jakobsson Capital er áætlaður hlutur eigenda Fossa í VÍS tæplega 4,2 milljarða virði.
Miðað við þessar tölur er verðmæti Fossa á bilinu 4 til 5 milljarðar króna, miðað við verð hlutabréfa VÍS á markaði síðustu mánuði og umrætt verðmat sem liggur fyrir. Talan sem miðað verður við í viðskiptunum er markaðsverð VÍS á hlutabréfamarkaði þannig að 4,5 milljarðar er talan sem eðlilegast er að miða við.
600 milljóna króna sveifla
Þegar fréttir voru birtar um virði Fossa í febrúar var vísað í rekstrarniðurstöðu ársins 2021. Þetta var þann 15. febrúar eða sama dag og ákveðið var að félögin myndu hefja viðræður um kaup VÍS á öllu hlutafé í Fossum. Árið 2021 voru tekjur Fossa rúmlega 1.500 milljónir króna og hagnaðurinn rúmlega 500 milljónir.
Þann 17. febrúar samþykkti stjórn Fossa ársreikning fyrir 2022 þar sem staðan hafði breyst umtalsvert. Tekjurnar höfðu dregist saman um rúmlega 400 milljónir króna, eða um nærri 1/3 og hagnaðurinn hafði farið niður í 77 milljóna króna tap. Því var um að ræða breytingu til hins verra upp á 600 milljónir króna á milli ára.
Miðað við þessar tölur, frá því í fyrra, standa Fossar ekki undir því verðmati að félagið sé 4,5 milljarða króna virði. En þetta er verðið sem tryggingafélag, sem er að meirihluta í eigu lífeyrissjóða, er að fara að greiða fyrir þetta fyrirtæki sem nýlega fékk fjárfestingarbankaleyfi.
Hagnaður þyrfti að vera um 570 milljónir króna
Samkvæmt nýlegri greiningu frá bandaríska fjárfestingarbankanum Goldman Sachs standa Fossar ekki undir þessu 4,2 milljarða króna verðmati sem liggur undir í viðskiptunum. Samkvæmt svokölluðu P/E-mati – verði fjármálafyrirtækja út frá hagnaði – hefðu Fossar þurft að hagnast um tæplega 570 milljónir króna í fyrra til að standa undir þessu verði. Fyrirtækin sem Goldman Sachs byggir greiningu sína á eru allt fjármálafyrirtæki sem skráð eru á markað í Bandaríkjunum og eru því burðugri en Fossar.
Verðmatið á Fossum, og þau hlutabréf í VÍS sem hluthafar þess félags koma til með að fá í VÍS í skiptum fyrir sín bréf, er því ansi hátt miðað við þetta. Þetta verðmat er rökréttara þegar horft er að rekstrarniðurstöðu Fossa árið 2021 þegar hagnaðurinn var rúmlega 500 milljónir en í fyrra.
Svar VÍS um verðmatið á Fossum er svo heldur ekki beint í mótsögn við þetta þar sem þar kemur fram að verðmiðinn á fyrirtækinu byggi alls ekki á rekstri Fossa eins og hann hefur verið heldur væntingum um það hvernig hann muni mögulega verða.
*Upphaflega stóð í fréttinni að hluthafar Fossa myndu fá greitt fyrir sinn hlut með 260 milljón hlutum í VÍS eða 13,3 prósenta hlut. Þetta var upphaflega hugmyndin í febrúar 2023. Síðan þá hefur væntanlegt söluverð verið lækkað í 245 milljón hluti eða 12,62 prósenta hlut í VÍS.
Athugasemdir (1)