Að minnsta kosti fjögur útgerðartengd félög á Íslandi hafa fjárfest í laxeldisfyrirtækjum hér á landi á síðustu árum. Þessi þróun, að rótgróin útgerðarfélög sem veiða villtan fisk í sjó, kaupi sig inn í laxeldisfyrirtækin á Íslandi er orðin það áberandi að hún er byrjuð að vekja athygli erlendra fjölmiðla.
Einn þessara fjölmiðla er fagtímaritið Intrafish sem fjallar um kaup Ísfélagsins í Vestmannaeyjum á hlutabréfum í laxeldisfyrirtækinu Ice Fish Farm í gær undir fyrirsögninni: „Annað íslenskt útgerðarfélag fer inn í laxeldisgeirann með 60 millljón dollara viðskiptum í Ice Fish Farm.“
Vöxturinn ástæða kaupanna
Ísfélagið mun eiga 16 prósenta hlut í Ice Fish Farm og verður næst stærsti hluthafinn á eftir norska laxeldisfyrirtækinu Masoval Ejendom. Fjárfesting Ísfélagsins, sem er í meirihlutaeigu Guðbjargar Matthíasdóttur, er upp á 8,6 milljarða króna.
„Við höfum í gegnum árin fylgst með þeim mikla vexti sem verið hefur í íslensku laxeldi“
Í svörum Ísfélagsins um af hverju fyrirtækið ákveður að fjárfesta í laxeldi í sjókvíum núna kemur fram að fyrirtækið hafi fylgst með því hvernig framleiðslan í greininni hefur vaxið frá ári til árs, og að þetta væri ástæða kaupanna. Aukning á framleiðslu á eldislaxi í sjókvíum hefur verið 35 prósent á ári frá 2016 og nam 43 þúsund tonnum í fyrra. Í kauphallartilkynningu í Noregi þar sem fjallað var um viðskipti Ísfélagsins sagði Einar Sigurðsson, sonur Guðbjargar og varaformaður stjórnar Ísfélagsins um þetta: „Við erum mjög ánægð að hefja þetta samstarf og að taka þetta skref inn í laxeldisiðnaðinn á Íslandi. Við erum með langa hefð í sjávarútvegi en við höfum í gegnum árin fylgst með þeim mikla vexti sem verið hefur í íslensku laxeldi og við teljum að vöxturinn verði jafn og stöðugur í mörg ár í viðbót og skapa mörg störf og verðmæti fyrir samfélögin í hinum dreifðu sjávarbyggðum.“
Samþjöppun á eignarhaldi
Útgerðarfélögin hafa komið inn í laxeldisgeirann með því að kaupa sig inn í norsku félögin sem eiga laxeldisfyrirtækin. Í dag, eftir sameiningar og stækkanir íslenskra laxeldisfyrirtækja, standa eftir þrjú stór laxeldisfyrirtæki hér á landi: Arnarlax á Bíldudal, Arctic Fish á Ísafirði og Ice Fish Farm sem rekur sjókvíar á Austfjörðum. Í fyrra stóð meira að segja til að eigandi Arnarlax, Salmar, eignaðist meirihluta í eiganda Arctic Fish en fallið var frá þeirri ráðstöfun vegna samkeppnissjónarmiða. Í staðinn kom stærsta laxeldisfyrirtæki í heimi, Mowi, inn í hluthafahóp Arctic Fish.
Mikil samþjöppun hefur því átt sér stað í eignarhaldi á íslenskum laxeldisfyrirtækjum en verðmætin á bak við þessi fyrirtæki eru þau framleiðsluleyfi á eldislaxi, kvótar, sem þau ráða yfir. Undirliggjandi verðmætin í laxeldisfyrirtækjunum er því þau sömu og í útgerðarfélögunum sjálfum: Kvótar. Íslenska ríkið hefur gefið laxeldisfyrirtækjunum þennan kvóta en yfirráð yfir honum eru nú föl á markaði fyrir milljarða króna.
Arctic Fish hefur yfir að ráða 27 þúsund tonna framleiðslukvóta í laxeldi hér á landi en er ekki byrjað að framleiða allt þetta magn. Arnarlax á tæplega 24 þúsund tonna kvóta og Ice Fish Farm á leyfi til að framleiða tæplega 21 þúsund tonn en er ekki byrjað að framleiða allan þennan lax. Öll fyrirtækin eru að vinna að því að fá frekari framleiðslueyfi. Samtals er um að ræða 71.500 tonn af framleiðsluleyfum.
Íslensk útgerðarfélög, og tengd félög, eru orðnir stórir hluthafar í öllum þessum þremur félögum. Útgerðarfélögin sem um ræðir eru Skinney-Þinganes á Höfn í Hornafirði, Síldarvinnslan á Neskaupsstað, Ísfélagið í Vestmannaeyjum og loks fyrirtækið Hólmi ehf. sem er eignarhaldsfélag eigenda Eskju á Eskifirði, Bjarkar Aðalsteinsdóttur og Þorsteins Kristjánssonar. Hómi var reyndar bara pínulítill hluthafi í Ice Fish Farm árið 2021, með tæp 0,2 prósent, og virðist ekki vera meðal hluthafa þar lengur.
Skinney reið fyrst á vaðið
Á fyrstu rekstrarárum laxeldisfyrirtækjanna hér á landi, um og eftir efnahagshrunið árið 2008, gekk erfiðlega að fá fjárfesta að þeim. Eitt af fyrirtækjunum sem þá var í rekstri, Fjarðalax, var til dæmis til sölu hjá Straumi fjárfestingarbanka um skeið eftir að bankinn hafði yfirtekið félagið en erfiðlega gekk að finna nýja eigendur að því. Það gekk hins vegar á endanum og fyrirtækið sameinaðist síðar Arnarlaxi og er hluti af því fyrirtæki í dag. Fjárfestingin í Fjarðalaxi skilaði þeim eigendum sem fjárfestu í því verkefni þegar áhugi á laxeldisfyrirtækjum var dæmur talsverðum hagnaði. Um var að ræða fyrirtækið Fiskisund ehf. sem er í eigu Einars Arnar Ólafssonar, Kára Guðjónssonar og Höllu Sigrúnar Hjartardóttur.
Því var alls ekkert kapphlaup um að setja peninga í laxeldi í sjókvíum hér á landi fyrst enda höfðu fyrri tilraunir til að koma þessari framleiðsluaðferð á matfiski á koppinn runnið ítrekað út í sandinn hér á landi. Þetta áhugaleysi á laxeldi í sjókvíum átti einnig við um íslensk útgerðarfélög, jafnvel þó rekstur þeirra og laxeldisfyrirtækja sé skyldur: Verið er að vinna matfisk í og úr sjó, annars vegar með veiðum á villtum fiski og hins vegar með ræktun á eldisfiski.
En svo árið 2017 gerðist það að útgerðin Skinney-Þinganes fjárfesti í rúmlega fimm prósenta hlut í fyrirtækinu Löxum fiskeldi á Austurlandi. Skinney bætti svo við sig hlutum á næstu árum og á dótturfélag þess, Krossey ehf., nú rúmlega 11 prósenta hlut í félaginu.
Tæpir 14 milljarðar fyrir hlutinn og 11 til Kýpur
Vegna þess að áhugi íslenskra fjárfesta á íslenskum laxeldisfyrirtækjum var ekki mikill fyrst um sinn gerðist það að erlend fyrirtæki, aðallega norsk laxeldisfyrirtæki, komu inn sem ráðandi hluthafar í íslensku laxeldisfyrirtækin. Eitt af erlendu fyrirtækjunum var maltverskt félag í eigu pólsks fjárfestis sem verið hefur duglegur að setja fé í sjávarútveg í Evrópu á síðustu áratugum. Jerzy Malek heitir hann.
Félag pólska fjárfestisins átti tæplega 29 prósent hlut í Arctic Fish á Ísafirði sem almenningshlutafélagið Síldarvinnslan, sem útgerðarfélagið Samherji er ráðandi hluthafi í, keypti af honum í fyrrasumar. Samtals keypti Síldarvinnslan 34,2 prósenta hlut í Arctic Fish fyrir 13,7 milljarða króna en útgerðin keypti einnig hluti af stjórnendum Arctic Fish á þessum tíma. Um var að ræða stærstu fjárfestingu íslensks útgerðarfélags í sjókvíaeldisfyrirtæki hingað til. Af þeim tæplega 14 milljörðum sem Síldarvinnslan greiddi fyrir hlutinn runnu 11,5 milljarðar því til félags Jerzy Malek á Möltu.
Sjókvíaeldi sagt heyra sögunni til
Viðskipti Síldarvinnslunnar voru áhugaverð meðal annars fyrir þær sakir að fyrirtæki sem Samherji á stóran hlut í hafi ákveðið að setja í sjókvíaeldi. Samherji hefur um árabil rekið landeldi á eldislaxi í Öxarfirði og hyggur á enn meira landeldi á Reykjanesi. Með þessari fjárfestingu var Samherjatengt félag í fyrsta skipti að fara inn í sjókvíaeldi.
„Ef þessar líffræðilegu áskoranir halda áfram þá mun brátt verða hagkvæmara að framleiða lax í lokuðum kerfum á landi“
Ein ástæða fyrir því að þetta er áhugavert er að sumir af helstu forkólfum laxeldis í Noregi, meðal annars Atle Eide, fyrrverandi stjórnarformaður Salmar AS sem er meirihlutaeigandi Arnarlax, hafa lengi talað um það að sjókvíaeldi á eldislaxi sé ekki framtíðin. Atle Eide hefur sagt að árið 2030 muni laxeldi í sjókvíum líklega heyra sögunni til og aðrar lausnir, eins og til dæmis landeldi, munu hafa komið í staðinn.
Atle Eide hefur sagt að þrátt fyrir að laxeldi í sjókvíum hafi hingað til verið ódýrari framleiðsluaðferð á eldislaxi þá kunni þetta að vera að breytast og að þetta sé önnur ástæða fyrir því af hverju sjókvíaeldi sé líklega á undanhaldi. Í grein í sjávarútvegblaðinu intrafish þann 8. mars sagði Eide til dæmis: „Framleiðslukostnaður á laxi hefur aukist á hverju ári frá 2010, nema árið 2012, þegar það var örlítis lækkun. Árið 2022, samkvæmt fyrra mati, mun þessi kostnaður ná nýjum hæðum. Ef þessar líffræðilegu áskoranir halda áfram þá mun brátt verða hagkvæmara að framleiða lax í lokuðum kerfum á landi. Á hinum stóru mörkuðum sem krefjast flutnings með flugi verður landeldi einnig umhverfisvænni framleiðsluaðferð.“
Flest bendir því til þess að sjókvíaeldi á eldislaxi sé alls ekki komið til að vera sem framleiðsluaðferð til framtíðar. Samt eru Íslendingar að stórauka laxeldi sitt í sjókvíum og samtímis eru íslensk útgerðarfélög í meiri mæli en áður farin að fjárfesta í þessum iðnaði.
Ekki svo að segja að það sé ekki satt að íslenskir ráðamenn sólunda eigum og tekjum þjóðarinnar í vinavæðingu, hobbýisma og persónulegar áherslur fyrir sig og sína skjólstæðinga og stuðningsmenn... en það er bara allt önnur spilling.