Rúmlega 61 prósent Íslendinga eru neikvæðir gagnvart laxeldi í sjókvíum í íslenskum fjörðum og rúmlega meirihluti þjóðarinnar vill banna þessa tegund fiskeldis. Þetta kemur fram í nýrri viðhorfskönnun frá Gallup sem unnin var fyrir hagsmunaaðila sem berjast gegn laxeldi í opnum sjókvíum Verndarsjóði Villtra Laxastofna (NASF), Íslenska Náttúruverndarsjóðnum (IWF), Landssambandi Veiðifélaga og Laxinn Lifi.
Miklar og harðar umræður hafa farið fram um laxeldi í sjókvíum hér landi á síðustu árum milli laxeldisfyrirtækja og hagsmunasamtaka þeirra, SFS, annars vegar og hins vegar samtaka sem berjast gegn laxeldi. Samtökin sem berjast gegn laxeldi eru hins vegar meðal annars samtök sem berjast fyrir náttúruvernd og einnig hagsmunaðilar í laxveiði á Íslandi.
Segja viðhorf til laxeldis vera orðið gagnrýnna
Hagsmunaaðilarnir benda á það í fréttatilkynningu sem send hefur verið út með niðurstöðum könnunarinnar að viðhorf Íslendinga til sjókvíaeldis sé orðið neikvæðara en það var. Í tilkynningunni segir: „Samkvæmt nýrri Gallup könnun sem gerð var i öllum landshlutum dagana 16. - 27. febrúar eru 61% aðspurðra neikvæð gagnvart laxeldi í opnum sjókvíum. Einungis 14% svarenda segjast vera jákvæðir gagnvart laxeldi í opnum sjókvíum. Er þetta töluverð breyting í viðhorfi frá því að Gallup gerði sams konar könnun haustið 2021 og ljóst að sífellt fleiri Íslendingar eru neikvæðir í garð laxeldis í opnum sjókvíum. Spurt var einnig hvort þáttakendur teldu að banna ætti laxeldi í opnum sjókvíum og af þeim 79% sem tóku afstöðu voru tveir þriðju á því að það ætti að banna það, eða 52%.“
Samkvæmt könnunni eru einungis 22,8 prósent landsmanna sem vilja leyfa laxeldi í sjókvíum áfram hér við land.
Einungis 14 prósent jákvæð
Til samanburðar við hlutfall þeirra sem eru neikvæðir í garð laxeldis í sjókvíum þá er einungis 14 prósent sem eru jákvæðir gagnvart greininni. 24,7 prósent segjast hins vegar hvorki vera jákvæðir né neikvæðir gagnvart laxeldi í sjókvíum.
Samkvæmt könnunni þá er einnig mikill munur á hlutfalli þeirra sem eru mjög jákvæðir gagnvart laxeldi í opnum sjókvíum og þeirra sem eru mjög neikvæðir gagnvart því: Einungis 2,9 prósent segjast vera mjög jákvæðir á meðan 40,9 prósent segjast vera mjög neikvæðir gagnvart þessari framleiðsluaðferð á eldisfiski.
Könnunin var gerð meðal 1822 manns á öllu landinu dagana 16. til 27. febrúar 2023. Fjöldi svarenda var 956 en 866 völdu að svara ekki spurningum og var svarhlutfallið því 52,5 prósent.
Athugasemdir