Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

„Eitt hænufet“ — 40 ára gamalt viðtal við Arnar Jónsson sem er áttræður í dag

Arn­ar Jóns­son einn helsti leik­ari þjóð­ar­inn­ar er átt­ræð­ur í dag. Af því til­efni dust­aði Ill­ugi Jök­uls­son ryk­ið af við­tali sem hann tók við af­mæl­is­barn­ið fyr­ir 42 ár­um og birt­ist þá í jóla­blaði Helg­ar-Tím­ans.

„Eitt hænufet“ — 40 ára gamalt viðtal við Arnar Jónsson sem er áttræður í dag
Arnar Jónsson 1981 Tímamynd: Elín Ellertsdóttir

Arnar Jónsson býr við Óðinsgötu ásamt konu sinni, Þórhildi Þorleifsdóttur, leikstjóra með meiru. „Það hefur veitt mér mikið aðhald í vinnunni að vera giftur leikstjóra,“ segir hann. „Hún hefur tekið mér ærlegt tak öðru hverju, en ég býst við að allir leikarar þurfi á því að halda með reglulegu millibili. Þá hefur samveran með börnunum ekki síður verið mér mikils virði: við vinnum bæði í miklum skorpum og höfum því á víxl tekið að okkur störfin hér á heimilinu. Ég held að það hafi hjálpað mér gífurlega — dýpkun á tilfinningasviðinu, skilurðu. Þetta hefur oft verið svaka basl en uppskeran er ríkuleg.“

Hann er afar hlýlegur maður. Handtakið þétt og brosið einlægt. Við komum okkur saman um að affarasælast sé að byrja á byrjuninni.

„Ég er fæddur á Akureyri [21. janúar 1943] og var þar allar götur þar til undir tvítugt. Faðir minn var ættaður úr Eyjafirði, mamma frá Þórshöfn. Það var að mörgu leyti ákaflega skemmtilegt að alast upp á Akureyri á þessum tíma: ég náði til dæmis rétt í skottið á tímabili strákaflokkanna sem voru allsráðandi í bænum í  mörg ár. Þetta voru flokkar eins og Bóbóliðið, Tígrisklóin, Svarta höndin — skiptingin milli þeirra fór náttúrlega fyrst og fremst eftir bæjarhlutum, Innbæingar voru út af fyrir sig, Eyrarpúkar sömuleiðis og Þorparar.

Milli flokkanna ríkti hatrömm barátta og steinabogarnir voru ekki sparaðir i þeim slag! Ég man eftir því að einu sinni var ég að koma frá ömmu minni sem bjó á Eyrinni — en ég átti heima uppi á Brekku — og þá lenti ég óvart í skotlínu tveggja flokka sem skutu hvor á annan með steinabogum. Steinarnir flugu umhverfis mig en ég stóð ráðvilltur og vissi ekki í hvora áttina [ég átti að flýja. Ég taldist ekki] til neins flokks. Einu sinni átti að vísu að vígja mig i Bóbóliðið — með mjög harkalegum aðferðum! — en þá varð það mér til frelsunar að ég var í bekk með yngri bróður Bóbós og hann bjargaði mér.“

„Punduðum á hann úr steinabogum“

— Vígsluathafnirnar hafa ekki verið neitt grín?

„Nei — það er mér óhætt að segja. Bóbóliðið hafði til dæmis aðgang að hlöðu nálægt Menntaskólanum og í heyið höfðu þeir grafið mikla rangala og gegnum þessi göng urðu fórnarlömbin að skríða. Þá kom það fyrir að í göngunum „gleymdust“ oddhvassar heynálar og stundum komu [strákarnir] niður á móti manni svo maður komst hvorki aftur á bak né áfram. Ég var einu sinni látinn skríða eftir þessum göngum, rak mig í járnið og lokaðist inni: þetta var skeflileg reynsla!

En gullöld þessara flokka var sem sagt liðin á minum sokkabandsárum. Er ég var í barnaskóla lékum við jafnaldrar mínir okkur hins vegar mikið í riddaraleikjum: hver veit nema það hafi verið fyrir áhrif frá riddarasögum fornaldar, en ég að minnsta kosti las þær af mikilli áfergju og hafði gaman af.

Þetta voru mjög háþróaðir riddaraleikir: við bárum öll viðeigandi vopn, sverð, spjót, boga og örvar, lensur— og steinaboga auðvitað — en leikirnir fóru ekki síst fram í nýbyggingunum sem þá var mikið af á Akureyri. Ein nýbyggingin var ekkert nema steypukassi en stillansarnir höfðu verið skildir eftir að innan — þetta varð okkur öflugt brjóstvirki, því eina leiðin inn var upp eftir steyptum veggjunum.

Eitt sinn var ég í setuliði virkisins og þá komust nokkrir óvinanna inn fyrir en hvort tveggja var að þeir voru fáliðaðir og skorti skotfærí í steinabogana, svo einn þeirra var sendur út aftur eftir liðsauka. Hann var í næstum heilli brynju úr blikki og því þungur á sér, og það var yfir tún að fara. Foringi virkisins sendi mig og annan strák á eftir honum — og af algeru miskunnarleysi eltum við vesalinginn uppi, komum okkur fyrir í hæfilegri fjarlægð og punduðum á hann úr steinabogunum. Okkur tókst að gata blikkið! Svo riddaramennskunni var ekki fyrir að fara, þó þetta ættu að heita riddaraleikir …“

Hans var skotinn í Grétu

— Hvað tók við, er bernskuleikjum sleppti?

„Ég fór í Menntaskólann úr landsprófi en hætti þar í fimmta bekk, hafði þá þegar ákveðið að helga líf mitt leiklistinni. Pabbi stússaði mikið í leikhúsmálum á Akureyri, var meðal annars formaður leikfélagsins um tíma, svo ég kynntist þessu snemma: ég lék töluvert meðan ég var strákur og unglingur — lék meðal annars Hans í Hans og Grétu — og það var greinilega eitthvað sem orkaði mjög sterkt á mig í leikhúsinu. Og að sjálfsögðu fannst mér ég hafa þetta gjörsamlega á valdi mínu — þær stundir hafa hins vegar komið síðar að ég hef efast!

Reyndar hætti ég ekki í menntaskóla bara vegna leikhússins, ég var með blóðsjúkdóm og þurfti að liggja á spitala hér fyrir sunnan þó nokkurn tíma svo ég missti mikið úr, en hugurinn stóð alla vega til leikhússins, og ég hafði hugsað mér að fá mér vinnu einn vetur og leika meðfram hjá leikfélaginu.

Þá brá svo við að ég var sendur suður til að ná í handrit — það var einhver þriller sem átti að hefja leikárið með — og ég ætlaði bara að stoppa nokkra daga i bænum. Þá frétti ég að það stæði fyrir dyrum inntökupróf í leiklistarskóla Þjóðleikhússins. Ég fór ekki aftur norður.“

— Þú minntist á að þú hefðir leikið sem barn. Manstu hvernig tilfinning það var að standa á leiksviði í fyrsta sinn?

Arnar hugsar sig um, hann segir fátt óyfirvegað. Svo segir hann blátt áfram:

„Nei, ég man það ekki. Veistu, ég held að krakkar geri sér ekki svo mikla grein fyrir þessum hlutum. Þau standa í undirbúningi með fjölda fólks, þetta er mikið vesin, margar æfingar og margt að gera — ég veit ekki hvort þau skilja muninn þó það séu komin ljós, búningar og áhorfendur. Þegar ég lék í Hans og Grétu var ég pínulítið skotinn í Grétu og það held ég hafi skipt mig eins miklu máli og sýningin sjálf. Ég var ellefu eða tólf og fannst ég vera mjög fullorðinn.”

„Ég verð að halda mér vakandi …“

— Þegar þú síðan útskrifast úr leiklistarskóla …

,,Þá fór ég bara á kaf í vinnu. Fyrsta árið var ég lausráðinn hér og hvar, síðan var ég nokkur ár fastráðinn í Iðnó.“

Hann þagnar andartak.

„Þetta fyrsta ár mitt var engu lagi líkt, það sá ég eftir á. Ætli ég hafi ekki leikið á 230 sýningum, af svona 270 mögulegum, oft tók ég þátt í átta til níu sýningum á viku. Einhvern sunnudaginn átti ég að leika rakarann i Kardimommubænum í Þjóðleikhúsinu, en þá var farið að síga á seinni hluta vetrar, og ég að verða dauðuppgefinn. Og átti ekki að koma strax inn á sviðið og beið því í búningsherberginu. Ég man að ég sat stjarfur við spegilinn, starði á sjálfan mig, og tautaði: Nú verður þú að halda þér vakandi, nú talar þú bara við sjálfan þig og þá heldurðu þér vakandi.

Svo man ég ekki meira. Undireins var ég kominn af stað í hinum villtustu draumum en þá kemur sviðsstjórinn æðandi inn i klefann og hrópar: Drengur! Hvað ertu að hugsa? Þú átt að vera kominn inn á svið fyrir löngu!

Og ég þýt af stað og inn á svið, snarruglaður í kollinum, og áhorfendur skellihlæja. Ég fór að líta í kringum mig og tók þá eftir að ég hafði gleymt öllum mínum leikmunum — greiðu, sápufroðu og svo framvegis. Ég stökk aftur út af sviðinu, náði í það sem mig vantaði, og enn hlógu áhorfendur.

Síðan rúllaði sýningin einhvern veginn í gegn en eftir á er mér sagt hvað hefði kætt áhorfendur svona. Þetta voru tvær eða þrjár mínútur sem var beðið eftir mér, ræningjarnir þrír voru þá á sviðinu og þeir þurftu að spinna upp úr sér texta til að brúa bilið. Þeir reyndust hafa af nógu að taka meðan þeir biðu eftir rakaranum: það stóð nefnilega yfir rakaraverkfall í Reykjavík!“

Stórhættulegt álag

Meðan Arnar sagði þessa sögu hefur hann, eins og ósjálfrátt, leikið öll hlutverkin af stakri snilld. Nú verður hann alvarlegur aftur.

„Þetta var svona dæmi af álaginu þennan vetur. Eftir á er ég sannfærður um að þetta var góð reynsla, en jafnframt stórhættuleg. Við aðstæður eins og þessar er mikil hætta á að leikari fari að fúska, endurtaka sig: að hann glati möguleikanum á að komast að kjarnanum í sér.

Er ég nú of hátíðlegur? En ég á við þá nekt sem leikara er nauðsynleg ef hlutverkið á að vera satt. Eftir nokkur ár á galeiðunni — og þá á ég ekki við leikhúslífið almennt, heldur svona vinnuálag — þá fannst mér ég vera kominn út í hreina vitleysu. Það er þá, 1968, sem ég, og ýmsir fleiri, byrjum með Leiksmiðjuna.

Hugmyndin með Leiksmiðjunni var að mynda samstígan hóp sem gæti unnið saman að því að þróa nýja hluti, mynda einskonar ensemble. Sjáðu til. Ef þú vinnur í stofnun, þá eru þar góðir leikarar, góð aðstaða og þar fram eftir götunum og þar eru oft gerðir góðir hlutir. Það vill hins vegar vanta einbeitinguna, markvissa þróun að ákveðnu marki, og þetta hlýtur að leiða til þess að listrænt gildi minnkar. Maður verður leiður. Og hvað gerist þá? Maður brýst út, fer annað, myndar hópa af fólki sem vill það sama og getur unnið saman að listrænum markmiðum hópsins — hver sem þau eru.

Þarna eru sem sé öll skilyrði fyrir hendi til að gera góða hluti. En lögmálið er strangt, maður verður að standa sig, því ella er sjoppunni lokað, maður hefur skamman tíma og enga yfirbyggingu, verður að gera allt sjálfur — ekki einungis það listræna — maður verður að fara að selja, reka fyrirtæki, vinna fjórtán átján tuttugu tíma á sólarhring, heimilislífið er í hassi, maður sjálfur í rúst og horast niður, en samt— samt tekst manni kannski að mjakast eitt hænufet fram á veginn. Og byrjar svo upp á nýtt. Það mætti líta á allan feril okkar Þórhildar sem tilraun i þessa átt.”

„Finna okkar eigin stíl, eigin ryþma”

— Segðu mér nánar af Leiksmiðjunni.

„Já, Leiksmiðjan,“ segir Arnar og brosir, „það var ekkert lítið, sem hún ætlaði sér og þau voru ekki spöruð, stóru orðin. Það átti hvorki meira né minna en endurskapa leiklist i landinu!

Gætum að því hvernig ástandið var þá í leikhúsmálum hér. Það hafði gengið yfir bylgja nokkurs konar útlendingadekurs: það voru sett upp verk eftir útlenda höfunda sem höfðu kannski litla höfðun hér á landi — íslenskir höfundar voru nánast réttdræpir — það voru fluttir inn útlendir leikstjórar, útlendir leiktjaldateiknarar og svo framvegis. Við vildum færa frumkvæðið inn í landið, finna okkar eigin stíl, okkar eigin ryþma. Þá voru að koma fram höfundar eins og Oddur Björnsson og Magnús Jónsson en annars var Eyvindur Erlendsson — nýkominn frá námi í Moskvu — potturinn og pannan i hugmyndafræði og framsetningu.

Við vildum líka forðast mistökin sem gerð höfðu verið hjá [leikfélaginu] Grímu [upp úr 1960], þar sem þeir sem nenntu og já: þeir sem fengu ekki annað, komu saman til að vinna að einstökum verkefnum en mynduðu ekki samstæðan hóp. Hjá Leiksmiðjunni var í fyrsta sinn gerð merkileg tilraun: við ætluðum að vinna saman í tvö ár ótrufluð, reyna að sjá fyrir okkur sjálf, vinna ekki annars staðar — við ætluðum að reyna eftir fremsta megni að halda þetta út.

Það tókst að vísu ekki. Þó er ég viss um að þessar hugsjónir okkar skiluðu sér í aukinni einbeitingu og eftir á finnst mér þarna hafa verið unnið athyglisvert starf. Vitanlega var það mikið reiðarslag er við urðum að hætta, og hvert okkar var lengi að sleikja sín sár, en við sáum að trúlega var þetta hægt. Og alla vega blundaði það í okkur að þetta þyrfti að gera.“

Frísir kalla, eða Frískir kallar

— Hvaða verk var Leiksmiðjan með?

„Við settum þrjú verk á svið, þó við störfuðum ekki heilan vetur. Eitt þeirra var reyndar aldrei sýnt hér í Reykjavfk — það var Litli prinsinn í leikgerð Magnúsar Jónssonar, einfalt, fallegt og skemmtilegt verk. Við vorum þá á leikferð um landið og héldum að það væri ofsalega sniðugt að vera með tvö verk í gangi i einu, þá myndu allir þyrpast á sýningar hjá okkur, en eins og einhver okkar sagði: Það er ekki hægt að auglýsa Ford og Chevrolet í sömu auglýsingunni. Á miðju Norðurlandi urðum við að hætta með Litla prinsinn.“

— Hvað var hitt verkið?

,,Það var Galdra-Loftur, settur upp á dálítið nýstárlegan hátt. Um svipað leyti var leikritið sett upp hér fyrir sunnan, svo fólk fékk þarna samanburð.“

— Á hvern hátt var ykkar Galdra-Loftur nýstárlegur?

„Ja, við reyndum að komast nær honum en venjan er, færa hann þannig nær fólki. Jafnframt að pota dálítið í þessa Fástísku Mefistó-ímynd sem Galdra-Loftur er oftast sveipaður í. Við gáfum gaurnum lausan tauminn! Sjáðu til — Loftur er skólastrákur á Hólum. Honum finnst þetta [galdrastöff] spennandi, það er fjör í þessu, en svo ræður hann ekki við öfl sem hafa búið í honum sjálfum, og í umhverfinu. Hann er sleginn flatur.“

Framhald fyrir neðan myndina.

— Þriðja verkið [sem Leiksmiðjan setti upp]?

Nú brosir Arnar:

„Það var hið fræga Frísir kalla, eða Frískir kallar, eins og það var einu sinni kallað í auglýsingu i Morgunblaðinu. Uppistöðuna i textanum sömdu Niels Oskarsson og Eyvindur en annars varð verkið til í þróun alls leikhðpsins. Við fylgdum vissu prógrammi: vorum búin að semja leikrit upp úr sögu, Litli prinsinn, vorum líka búin að taka klassískt íslenskt verk, Galdra-Loft, og nú vildum við leita í okkar þjóðlega grunn: fórum í þjóðdansa, gömul kvæði og þess háttar — vildum finna Íslendinginn djúpt í okkur. Frísir kalla …“ og Arnar syngur lagstúf.

„Hvað heitir hann aftur, lögreglustjórinn?“

„Meginuppistaðan í þessu verki gerðist í hléi,“ segir Arnar svo. „Ramminn er leikhópur, eitthvað í líkingu við okkur sjálf, alla vega er hópurinn nýbúinn að setja upp Galdra-Loft. Þú athugar hvenær þetta er sett upp: 1968, það er atvinnuleysi, fólksflótti til Ástralíu og kjör kröpp. Þessi leikhópur er að æfa The Wish eftir Jóhann Sigurjónsson, á ensku, og ætlar síðan að fara í leikferð um Ástralíu — virkilega meika það!! Það er agent frá Ástralíu í bænum og allir tala um að fara og bjóða honum verkið, ég meina: af hverju ekki, til hvers að hanga hér?“

Arnar er aftur farinn að setja upp leikrit, eins manns sýningu.

„En það gengur ekki nógu vel að æfa. Það eru prófaðar ótal stíltegundir — Brecht, nýja sænska línan, Shakespeare, en einhvem veginn smellur þetta ekki saman. Að lokum gefst leikstjórinn upp og sendir alla í kaffi. Og eins og alltaf í leikhúsi þegar engin sköpun á sér stað, þá brýst energían út í kaffitímunum — þó allir séu eins og draugur upp úr öðrum draug á sviðinu eru menn hinir kátustu i kaffinu.

Í þessum kaffitíma leikur hópurinn leik sem hann kallar Klafakotsleik, og byggist upp á gömlu kvæði sem heitir Skipskoma. Leikurinn hófst á því að bóndinn á bænum ... Hvað heitir hann nú aftur, lögreglustjórinn í Reykjavik? Sigurjón Sigurðsson? Alla vega hét bóndinn því sama nafni og vinnumaðurinn hans líka ...

Nú, þeir sitja á rekum sinum úti á túni og eru að dreifa skít. Skítahrúgurnar lágu við fætur þeirra, búnar til úr líkömum leikaranna, sem kastast fram og aftur þegar karlarnir moka. Þessir leikarar mynda einnig náttúrustemmningu: suða eins og randaflugur, tísta eins og lóan ….“

Arnar leikur sér að því að suða eins og randafluga og tísta eins og lóa!

Konan Huppa og kýrin Sigurrós ...

„Svo kemur Finnur undir Felli fullur úr kaupstað og dettur í drulluhauginn, þá segir bóndi að skepin munu vera komin, og þeir fara karlarnir í kaupstaðarferð. Í kaupstaðnum eru þeir fylltir og það er hlegið að þeim, og þegar þeir snúa heim á leið eru þeir draugfullir og vitlausir. Þeir ætla til Eldórado en komast í kast við álfa. Svo lenda þeir í ýmsum fleiri vandræðum, týna öllu sem þeir komu með úr kaupstað og vinnumaðurinn kúkar á sig. Heima á bænum tekur á móti þeim konan Huppa — kýrin í fjósinu heitir aftur á móti Sigurrós! — ásamt niðursetningnum, aumingjanum og hundinum.

Þá eru þeir félagar orðnir svo ógeðslegir að hundurinn kúgast út um öll tún! Að lokum endar þetta með því að vinnumaðurinn ákveður að fara suður í Frísi, það er sagt að Frísir borgi með gulli, til hvers að hokra hér yfir kartöflum sem spretta hvort sem er aldrei upp úr jörðinni? Dóttir bóndans ætlar með honum. Þetta er auðvitað um erlend áhrif, um herinn og þjóðleg verðmæti.“

Nú bætir Arnar við ísmeygilegur:

„Það ganga sögur um að Frísir kaupi fólk, til að búa til úr því hakk! En nú nennir leikhópurinn þessu ekki lengur og fær sér bara vínarbrauð með kaffinu. Þegar kaffitíminn er búinn og fólkið gengur aftur inn i salinn sér það sér til mikillar undrunar að leikstjórinn stendur uppi á borði og er eitthvað að bjástra við að koma löngum trefli í járnkrók í loftinu — hann ætlar að hengja sig.

Fólkið reynir að telja hann af þessu, leikritið sé nú ekki alvont og það sé ekki ástæða til að grípa til þessara ráða, og eftir miklar fortölur fellst leikstjórinn á að líklega sé þetta ekki tímabært. Leikhópurinn reynir síðan að herða sig upp, hver segir við annan að nú skellum við okkur til Ástralíu, drífum okkur, skellum okkur ... Það hverfa allir á burt til að ljúka einhverjum erindum af, en ljósamaðurinn og annar verða eftir.

Þá bregður svo við að leikhópurinn fer að tínast inn á sviðið aftur. Fyrstur kemur sjarmörinn í hópnum — mikill leikari að eigin áliti þó hann væri alltaf að staglast á að hann vildi miklu heldur vera á sjónum — og hann segist vera að leita að hattinum sínum. Náttúrlega er hann með hattinn á höfðinu svo ekki dugar sú afsökun lengi. Þannig koma allir til baka áður en lýkur — undir alls konar yfirskyni —og þá er leiknum lokið. Og mórallinn eitthvað á þessa leið: hvort það borgi sig ekki [þrátt fyrir allt] að verða eftir og ströggla.“

„Elsku hjartans krítíkerarnir“

— Hvernig var þessu leikriti tekið?

,,Ja, miðað við hvað það var nýstárlegt tel ég að því hafi verið tekið fremur vel. Elsku hjartans krítíkerarnir“ — og nú brosir hann smeðjulega — „hjálpuðu auðvitað mjög mikið upp á sakirnar, eins og þeir eru vanir. Ég segi ekki að sýningar hafi orðið mjög margar, og því síður að við höfum alltaf leikið fyrir fullu húsi, en samt finnst mér að við höfum náð nokkrum árangri. Skoðanir voru auðvitað mjög skiptar en eftir á að hyggja þykir mér umfjöllunin um leikritið ekki hafa verið í réttu samhengi við það sem við vorum að reyna að gera.

Að sjálfsögðu voru krítíkerarnir — þessar elskur! — þar fremstir í flokki. Leikritinu var einfaldlega slátrað. Slátrað. Það sem var eftirtektarverðast var að þeir réðust á það fyrst og fremst fyrir að vera ekki nógu góður bókmenntatexti, minna var spurt um þá leikhústilraun sem við vorum að gera.

Við vissum vel að Frísir kalla var kannski ekki björgulegur bókmenntatexti, en það var heldur ekki ætlunin. Krítíkerarnir skiptu sér ekkert af því. Það er til mikilla vansa þegar gagnrýnendur sýna annað eins áhugaleysi á þvi sem er verið að gera i leikhúsi, annan eins skilningsskort, og í þetta skipti. En dæmin eru því miður alltof mörg.“

Arnari er nú nokkuð niðri fyrir:

„Tökum til dæmis foragt flestra krítíkera á leikurum. Leikarar eru upp til hópa heimskir, þeir eru mónómanar, hugsa ekki um annað en sjálfa sig, exibisjónistar vitanlega — þeir eru svo vesældarlegir að það tekur því varla að eyða á þá nokkru púðri.“

— Gætir þú spyrt alla leikara saman og lýst þeim i nokkrum orðum?

„Auðvitað ekki! Þeir eru jafn misjafnir og þeir eru margir. Þó er kannski eitt sem skilur þá frá flestum öðrum stéttum. Í starfi sínu fást leikarar við sífellda sjálfsskoðun, þeir takast á við hugsanir og tilfinningar, og til þess að ná árangri verða þeir að sundurgreina þessi fyrirbæri skýrar en flestir aðrir. Ég held, mér finnst að fyrir vikið fáum við talsverða útrás í starfinu. Útrás sem annað fólk fær yfirleitt ekki.

Leikarar eru því oftastnær opnari og einlægari en gengur og gerist, ekki eins mikið á verði, og þetta kann að koma út sem visst naívítet — en er líka túlkað sem tilgerð og fleðulæti. Nátturlega getur verið um það að ræða — líkt og hjá öllum manneskjum — en oftast er raunin hreinlega sú að leikarar eru opnari í viðmóti en aðrir.“

 „Er mikið eftir af viðtalinu?”

— Eigum við þá að víkja að Alþýðuleikhúsinu?

„Já, eftir að Leiksmiðjan datt upp fyrir tók reyndar við tímabil fyrir norðan, þar sem við vorum í mörg, mörg ár, og urðum meðal annars þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast náið einhverjum besta manni sem orðið hefur á vegi okkar — það er Magnús heitinn Jónsson, sem þá var leikhússtjóri fyrirnorðan.

En þarna þroskaðist maður auðvitað, skoðanirnar þróuðust, og mann fór að langa til að prófa nýja hluti. Þegar það atvikaðist svo þannig að við sögðum upp hjá Leikfélagi Akureyrar þrjú í einu — við Þórhildur og Þráinn Karlsson — þá ákváðum við að gera eina tilraun enn. Það var Alþýðuleikhúsið.“

— Hver var hugmyndafræði þessa fyrsta Alþýðuleikhúss? Af hverju hét það til að mynda Alþýðuleikhús?

„Þegar að nafngiftinni kom voru uppi ýmsar tillögur, þetta var fjórtán manna hópur og ekki nærri allt leikhúsfólk. Sjáðu til, leikhúsinu var aldrei ætlað að [viðra] skoðanir [okkar eða verða] málpípa stjórnmálaflokks, en okkur langaði samt að taka fyrir — ef okkur entist aldur og heilsa! — málefni sem tengdust veruleika dagsins í dag, fjalla um þau á máli leikhússins. Því eins og við vitum er veruleiki sviðsins allur annar en veruleiki lífsins. Með því að kalla þetta Alþýðuleikhús vildum við lýsa yfir samstöðu með …“

Arnar hugsar sig um.

„Það er erfitt að formúlera þetta. Ef ég segði verkafólki yrði það misskilið. Fólki er of almennt. En ég get sagt að við vildum skoða sjónarmið — já, alþýðunnar …“

Börn Arnars og Þórhildar eru komin á vettvang og heimta athygli föður sins. Hann stekkur af stað að sinna þeim og það verður smáhlé á viðtalinu. Eitt barnanna kemur í dyragættina, lítur mig sýnilega hornauga.

,,Er mikið eftir af viðtalinu?“

— Nei, ég fer að verða búinn.

„Gott!“ segir barnið og hverfur allshugar fegið á braut. Þegar Arnar kemur aftur er hann með yngstu dóttur sína í fanginu, hún maular kexköku meðan við tölum saman.

Verður lambið sett á, eða leitt til slátrunar?

— Hvernig gekk ykkur í Alþýðuleikhúsinu að fara eftir þeim hugmyndafræðilegu reglum sem þið höfðuð sett ykkur?

„Ég held ég verði að láta aðra dæma um það.“

— En síðan breytist starfsemi Alþýðuleikhússins.

„Já. Við höfum verið með Krummagull og Skollaleik á sífelldum þvælingi um landið og út til Norðurlandanna og úthaldið varð að verða búið. 1978 stóðum við frammi fyrir því að við Þórhildur vildum flytja suður, Kristín Ólafsdóttir og Þráinn töldu sig ekki geta tekið þátt í næstu sýningum ef af þeim yrði. Því urðum við annaðhvort að leggja leikhúsið niður eða freista þess að halda starfinu áfram hér fyrir sunnan.

Ég var sjálfur mikið í því að kanna þá valkosti sem við höfðum og leiðin sem á endanum var farin var líklega sú eina sem mögulegt var að fara. Það var að breikka hópinn, taka inn fólk sem þá streymdi út úr leiklistarskólunum, og treysta einnig á reyndara fólk sem gæti hlaupið undir bagga í einstökum verkefnum.

Okkur var fullljóst að með þessu breytti Alþýðuleikhúsið í raun og veru um eðli, það færðist á áhugagrundvöllinn, og þótt starfsemin hafi verið mjög kröftug næstu árin setti leikhúsið óhjákvæmilega ofan, bæði listrænt og hugmyndalega.

Það var ekki lengur með fólk sem einbeitti sér bara að því, heldur urðu leikararnir og aðrir starfsmenn að hlaupa í þetta með öðru, og listrænt séð voru leikararnir flestir á sama báti — það er að segja byrjendur sem skorti bæði sjálfstraust og reynslu til að framkvæma það sem Alþýðuleikhúsið sóttist eftir. En fyrirtækið lifir og víst er að þar hafa margir öðlast dýrmæta reynslu sem á eftir að koma að góðu gagni.

Nú síðastliðið vor var starfseminni breytt á nýjan leik þannig að myndaðir voru tveir fastir hópar sem vinna aðskildir að sérstökum verkefnum — jafnframt var fengið inn fólk sem hafði meiri reynslu en meirihluti meðlima Alþýðuleikhússins. Enn er ekki séð hvernig þetta gengur: hvort lambið verður sett á eða hvort það verður leitt til slátrunar.“

Í átt til upphafsins

—Eftir að þú komst frá Akureyri varstu í þrjá vetur hjá Þjóðleikhúsinu, og einmitt á þeim tíma sem gagnrýni fór mjög vaxandi á það. Talað var um steingelt stofnanaleikhús og annað í þeim dúr. Fannst þér þetta réttmæt gagnrýni?

„Sko!“ Síðan hugsar Arnar sig lengi um. „Það voru gerðir ýmsir góðir hlutir í Þjóðleikhúsinu þann tíma sem ég var þar — ég nefni til dæmis Stundarfrið sem óhætt er að segja að hafi aukið hróður leikhússins —svo það er langt í frá að þar sé allt í lamasessi og kaldakoli. Hitt dylst engum að mörgu er ábótavant og um það eru allir sammála, starfsmenn og stjórnendur.

Það þarf, held ég fyrst og fremst að breyta reglugerðinni um Þjóðleikhús, það verður að færa listræna ábyrgð inn í húsið. Þetta er alltaf stoppað af af pólitikusum. Svo málið er alls ekki svo einfalt að Þjóðleikhúsið sem stofnun sé óalandi og óferjandi, síður en svo. Það á sér nú stað heilmikil gerjun meðal starfsfólksins og það er leitun að þeim sem ekki vill breytingar, svo leikhúsið geti staðið undir nafni, og lagt metnað sinn í að skapa kúnst og þróa. Ég á von á því að þessi gerjun leiði til breytinga sem geti gefið af sér góða hluti.“

— Þú hættir hjá Þjóðleikhúsinu síðastliðið vor …

,,Ég er í árs launalausu leyfi.“

— Jæja, en fórstu í það leyfi til að einbeita þér að Alþýðuleikhúsinu eða vegna þess að þú varst óánægður með starfið í Þjóðleikhúsinu?

„Ætli það sé ekki sitt lítið af hvoru? Sjáðu til, það stóð fáum það nær en mér að koma til liðs við Alþýðuleikhúsið er það þurfti á því að halda.“

— Undanfarið hafa heyrst raddir sem gagnrýna svokallaða „farsapólitik“ Alþýðuleikhússins. Er það sanngjörn gagnrýni?

,,Að vissu leyti á hún rétt á sér, já, en að öðru leyti ekki. Veruleikinn er strangur, til að lifa þarf bæði peninga og áhorfendur. Og áhorfendur hefur okkur ekki skort. Það er núorðið stór hópur sem metur Alþýðuleikhúsið mikils, er kannski ekki jafn hrifinn af öllu sem þar er gert, en heldur tryggð við það engu að síður.

Ég held að flestir skilji að að sumu leyti er kannski óhjákvæmilegt að setja upp fremur „létt“ verk, en um meðvitaða „farsapólitfk" er þó alls ekki að ræða. Í langflestum tilvikum er um að ræða hópa sem hefur langað til að vinna að sérstökum verkefnum, Og við verðum að athuga það að á þessum fáu árum hafa margir og ólíkir hópar starfað undir merkjum Alþýðuleikhússins. Eins og ég minntist á hefur nú verið gerð breyting í átt til upphafsins, fastra hópa, og hvernig það fer er ekki gott að segja. Hópurinn sem ég er í hefur þegar frumsýnt tvö, þrjú verkefni en það er fyrst með næsta verkefni sem allur hópurinn kemur saman ásamt þeim leikstjóra sem verður með okkur til vors — en það er Þórhildur. Það væri kannski frekar í vor sem við ættum að tala saman um þetta.“

— Ertu bjartsýnn?

„Ég verð að vera bjartsýnn — ég myndi heldur ekki segja þér neitt annað!“

Arnar hlær.

„En í alvöru — þá þætti mér hrapalegt ef menningarfyrirbæri eins og Alþýðuleikhúsið lognaðist út af. Við höfum önnur svipuð fyrirbæri, Íslensku óperuna, Íslenska dansflokkinn sem hefur lagt á sig feykilega óeigingjarnt starf, og það má ekki gerast að þetta detti upp fyrir vegna skammsýni þeirra sem skammta okkur styrkinn. Það er vilji hjá fólki að halda Alþýðuleikhúsinu gangandi en það dugar ekki til — við spörum af öllum lífs og sálar kröftum, vinnum óguðlega langan vinnudag og göngum í öll störf sjálf en það er ekki nóg. Við verðum að fá einhverja aðstoð.“

„Ekki leikari?!“

— Að eins ein spurning að lokum, um þig sjálfan. Ef þú værir ekki leikari, hvað gætirðu þá ímyndað þér að þú værir að fást við?

Arnar rekur upp stór augu, segir forviða:

„Ekki leikari? Veistu — ég hef aldrei leitt hugann að því!“

Sem ég bíð eftir leigubil úti á gangstéttinni er Þórhildur Þorleifsdóttir að koma heim til sín. Þá stendur Arnar Jónsson í glugganum og lætur börnin veifa móður sinni.

Kjósa
3
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Tvíkynja hérar tákn páska — og Maríu guðsmóður líka?
Flækjusagan

Tví­kynja hér­ar tákn páska — og Maríu guðs­móð­ur líka?

„Af hverju er kan­ín­ur, nú eða frænd­ur þeirra hér­ar, tákn pásk­anna?“ Svar­ið við þeirri spurn­ingu er í aðra rönd­ina mjög ein­falt. Pásk­arn­ir eru í grunn­inn vor­há­tíð sem hald­in er til að fagna því að líf er að kvikna í jörð­inni eft­ir (mis)lang­an vet­ur. Í krist­inni trú er það túlk­að með dauða en síð­an upprisu guðs­son­ar­ins. En líf kvikn­ar ekki að­eins...

Mest lesið

Milljarðar kvenna sem passa ekki inn í útlitsboxið
6
Fréttir

Millj­arð­ar kvenna sem passa ekki inn í út­lits­box­ið

Þó svo að hættu­lega grannt „heróín-lúkk“ sé ekki leng­ur í tísku og að Bridget Jo­nes sé ekki leng­ur tal­in feit, eru út­lit­s­kröf­ur til nú­tíma­kvenna enn óraun­hæf­ar, seg­ir pró­fess­or í fé­lags­sál­fræði. Hún er þó bjart­sýn: „Ég þekki ekki dæmi um að áð­ur hafi ver­ið kyn­slóð sem er vís­vit­andi að berj­ast gegn því að fólk sé smán­að út af út­liti.“
Birgir segir mistök að ekki sé gert ráð fyrir nýrri kvennadeild á nýja Landspítalanum
8
Fréttir

Birg­ir seg­ir mis­tök að ekki sé gert ráð fyr­ir nýrri kvenna­deild á nýja Land­spít­al­an­um

Í störf­um þings­ins ræddu þing­menn ým­is mál. Diljá Mist Ein­ars­dótt­ir gagn­rýndi Sam­fylk­ing­una, Birg­ir Þór­ar­ins­son benti á myglu­vanda­mál Land­spít­al­ans og sér­stak­lega þá stöðu sem er kom­in upp á kvenna­deild­inni. Gagn­rýndi hann að ekki væri gert ráð fyr­ir nýrri kvenna­deild í bygg­ingu nýja Land­spít­al­ans. Jó­hann Páll Jó­hann­es­son benti á að eins og stað­an er í dag geti smá­lána­fyr­ir­tæki not­fært sér neyð fólks og grætt á þeirra stöðu.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Ráðning stjórnanda til MAST vekur athygli: „Ég er fagmaður"
2
FréttirLaxeldi

Ráðn­ing stjórn­anda til MAST vek­ur at­hygli: „Ég er fag­mað­ur"

MAST til­kynnti starfs­mönn­um sín­um um það á mið­viku­dag­inn að bú­ið væri að ráða Þor­leif Ág­ústs­son sem nýj­an sviðs­stjóra yf­ir með­al ann­ars fisk­eld­is­deild­ina hjá stofn­un­ina. Þor­leif­ur hef­ur skrif­að grein­ar þar sem hann tal­ar fyr­ir lax­eldi í sjókví­um. Þor­leif­ur seg­ist vera vís­inda­mað­ur og að hann taki ekki af­stöðu. For­stjóri MAST, Hrönn Jó­hann­es­dótt­ir vill ekki ræða um ráðn­ing­una þeg­ar eft­ir því er leit­að.
Ríkisstjórnin vill gefa kvótann í laxeldinu um aldur og ævi
4
FréttirLaxeldi

Rík­is­stjórn­in vill gefa kvót­ann í lax­eld­inu um ald­ur og ævi

Í frum­varpi mat­væla­ráð­herra um lagar­eldi er kveð­ið á um að lax­eld­is­fyr­ir­tæk­in í land­inu hafi „ótíma­bund­in“ rekstr­ar­leyfi til að stunda sjókvía­eldi í ís­lensk­um fjörð­um. Hing­að til hafa rekstr­ar­leyf­in ver­ið tíma­bund­in í 16 ár. Með þessu ákvæði munu stjórn­völd á Ís­landi ekki geta bann­að sjókvía­eldi án þess að baka sér skaða­bóta­skyldu gagn­vart lax­eld­is­fyr­ir­tækj­un­um.
Þórður Snær Júlíusson
5
Leiðari

Þórður Snær Júlíusson

Hand­bók um leið­ir til að þykj­ast sið­leg­ur ráð­herra

Á Ís­landi er við lýði reglu­verk sem á að koma í veg fyr­ir spill­ingu ráð­herra og auka traust á stjórn­sýslu. Ný­lega var gef­in út hand­bók með út­skýr­ing­um á regl­un­um með raun­hæf­um dæm­um. Raun­veru­leik­inn sýn­ir hins veg­ar að ráð­herr­ar láta þetta ekki hafa áhrif á hegð­un sína. Regl­urn­ar gilda bara þeg­ar það reyn­ir ekki á þær.
Sleppti máltíðum til þess að komast frá Ásbrú
6
Greining

Sleppti mál­tíð­um til þess að kom­ast frá Ás­brú

„Stans­laust von­leysi vakn­ar um leið og þú mæt­ir,“ seg­ir ung­ur venesú­elsk­ur hæl­is­leit­andi um Ás­brú. Þar hafi ver­ið ómögu­legt fyr­ir hann, eða nokk­urn mann, að að­lag­ast ís­lensku sam­fé­lagi – sem er at­riði sem stjórn­mála­menn þvert á flokka hafa sagt mik­il­vægt. Fé­lags- og vinnu­mark­aðs­ráð­herra hef­ur sagst vilja fleiri bú­setu­úr­ræði á borð við Ás­brú.
Fyrirtækið sem Kvika keypti kom að lánum til félags konu Ármanns
7
ViðskiptiKvika og Ortus

Fyr­ir­tæk­ið sem Kvika keypti kom að lán­um til fé­lags konu Ár­manns

Breska fyr­ir­tæk­ið Ort­us Capital, sem Ár­mann Þor­valds­son, nú­ver­andi for­stjóri al­menn­ings­hluta­fé­lags­ins Kviku, var hlut­hafi í var einn af lán­veit­end­um breska kráar­fyr­ir­tæk­is­ins Red Oak Taverns, sem eig­in­kona Ár­manns á hlut í. Þetta fyr­ir­tæki varð síð­ar að Kviku Secu­rities í Bretlandi og keypti það breskt lána­fyr­ir­tæki af við­skipta­fé­lög­um fyr­ir tveim­ur ár­um fyr­ir millj­arða króna.
Öryrkjar borga fyrir kjarasamninga og tugir milljarða settir í borgarlínu
8
GreiningFjármálaáætlun 2025-2029

Ör­yrkj­ar borga fyr­ir kjara­samn­inga og tug­ir millj­arða sett­ir í borg­ar­línu

Rík­is­sjóð­ur verð­ur rek­inn í halla í næst­um ára­tug sam­fleytt áð­ur en við­snún­ing­ur næst. Til að fjár­magna tug­millj­arða króna út­gjöld vegna Grinda­vík­ur og kjara­samn­inga á með­al ann­ars að fresta greiðsl­um til ör­orku­líf­eyri­s­kerf­is­ins, selja eign­ir fyr­ir tugi millj­arða króna og lækka fram­lög í vara­sjóð. Fram­kvæmd­um sem áð­ur hef­ur ver­ið frest­að er frest­að á ný en pen­ing­ar sett­ir í nýja þjóð­ar­höll og tug­ir millj­arða króna verða til­tæk­ir í borg­ar­línu og tengd verk­efni. Vaxta­byrð­in á rík­is­sjóði verð­ur þó þung. Á næsta ári mun hann borga 121 millj­arð króna í slíka.
Umsækjandi hjá MAST vill rökstuðning: „Ég er vonsvikinn“
9
FréttirLaxeldi

Um­sækj­andi hjá MAST vill rök­stuðn­ing: „Ég er von­svik­inn“

Eg­ill Stein­gríms­son dýra­lækn­ir var ann­ar af um­sækj­end­un­um um sviðs­stjórastarf hjá Mat­væla­stofn­un sem með­al ann­ars snýst um eft­ir­lit með lax­eldi. Fiska­líf­eðl­is­fræð­ing­ur­inn Þor­leif­ur Ág­ústs­son var ráð­inn fram yf­ir hann og vakti ráðn­ing­in at­hygli inn­an MAST vegna já­kvæðra skrifa hans um lax­eldi hér á landi.

Mest lesið í mánuðinum

Læstur inni í íbúðinni sinni í fimmtán ár
1
Viðtal

Læst­ur inni í íbúð­inni sinni í fimmtán ár

Sveinn Bjarna­son bjó í fimmtán ár í læstri íbúð á veg­um Ak­ur­eyr­ar­bæj­ar. Hann bank­aði oft ít­rek­að og grét áð­ur en starfs­fólk opn­aði fyr­ir hon­um. Móð­ir hans gerði end­ur­tekn­ar at­huga­semd­ir við að hann væri læst­ur inni og seg­ir son sinn hafa ver­ið van­rækt­an. Fyrr á þessu ári greip hún til þess ör­þrifa­ráðs að flytja hann bú­ferl­um í ann­an lands­hluta til að fá mann­sæm­andi að­bún­að fyr­ir hann. Mál Sveins varp­ar ljósi á al­var­leg­ar brota­lam­ir í þjón­ustu við fatl­að fólk á Ís­landi og sýn­ir hvernig mann­rétt­indi hafa ver­ið virt að vett­ugi ár­um sam­an.
Eina leiðin til að halda lífinu áfram var að koma út
4
ViðtalForsetakosningar 2024

Eina leið­in til að halda líf­inu áfram var að koma út

Bald­ur Þór­halls­son bældi nið­ur eig­in kyn­hneigð frá barns­aldri og fannst hann ekki geta ver­ið hann sjálf­ur. Fyr­ir 28 ár­um tók hann ákvörð­un um að koma út úr skápn­um, það var ekki ann­að í boði ef hann ætl­aði að halda áfram með líf­ið. Nú stefna þeir Fel­ix Bergs­son á Bessastaði. „Við eig­um 28 ára ást­ríkt sam­band að baki og höf­um ekk­ert að fela,“ seg­ir Fel­ix.
„Ég ætla ekki að kinka kolli framan í einhver illmenni án þess að segja neitt“
6
ViðtalForsetakosningar 2024

„Ég ætla ekki að kinka kolli fram­an í ein­hver ill­menni án þess að segja neitt“

Jón Gn­arr er kom­inn í for­setafram­boð. Hann seg­ir meiri þörf á gleði og húm­or í lýð­ræð­inu og sam­fé­lag­inu þar sem of­fram­boð sé á leið­ind­um og er sann­færð­ur um að þjóð­in sé að leita sér að mann­eskju sem hún geti séð sjálfa sig í. Jón ætl­ar sér að mýkja freka kall­inn með kær­leik­ann að vopni og lof­ar að vera hvorki of­stopa­mann­eskja né lydda, nái hann kjöri. Svo hef­ur hann alltaf dreymt um að búa í Garða­bæ.
Hjúkrunarheimilið Sóltún fékk 20 milljarða frá íslenska ríkinu
7
Fréttir

Hjúkr­un­ar­heim­il­ið Sól­tún fékk 20 millj­arða frá ís­lenska rík­inu

Frá ár­inu 2009 hef­ur hjúkr­un­ar­heim­il­ið Sól­tún feng­ið tæp­lega 20 millj­arða króna frá ís­lenskra rík­inu. Um 90 pró­sent af tekj­um Sól­túns koma frá rík­inu. Eig­end­urn­ir hafa tek­ið á þriðja millj­arð króna út úr rekstr­in­um með því að selja fast­eign­ir og lóð­ir og lækka hluta­fé fyr­ir­tæk­is­ins. All­ur rekst­ur­inn bygg­ir hins veg­ar á um­deild­um samn­ingi við ís­lenska rík­ið sem gerð­ur var ár­ið 2000.
Risar í landbúnaði orðnir að fríríki og geta stýrt verði eins og þeim sýnist
8
Rannsókn

Ris­ar í land­bún­aði orðn­ir að fríríki og geta stýrt verði eins og þeim sýn­ist

Laga­breyt­ing sem var fyr­ir einu og hálfu ári köll­uð „að­för að neyt­end­um“ var sam­þykkt á Al­þingi í lok síð­ustu viku með at­kvæð­um minni­hluta þing­manna. Um er að ræða af­nám á ólög­mætu sam­ráði stærstu land­bún­að­ar­fyr­ir­tækja lands­ins. Laga­breyt­ing­unni var laum­að inn í frum­varp á loka­metr­um af­greiðslu þess með mik­illi að­komu þeirra sem mest græða á henni.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu