„Það er margt í þessari skýrslu sem veldur mér verulegum vonbrigðum með framkvæmdina,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á þingi í dag þar sem þingmenn biðu í röðum eftir að spyrja hana út í skýrslu Ríkisendurskoðunar um einkavæðingu 22,5 prósenta hlutar ríkisins í Íslandsbanka. Katrín sagði að hæsta mögulega verð hafi ekki verið eini þátturinn sem horfa átti til, heldur líka dreift eignarhald.
Fyrsta tilraun
Krafa um rannsóknarnefnd var ítrekuð af minnihlutanum, en strax og Ríkisendurskoðun var falið að rannsaka söluna var kallað eftir að sérstakri rannsóknarnefnd Alþingis yrði frekar falið verkefnið.
„Hvernig ríkisstjórnin tekur á Íslandsbankamálinu mun skipta sköpum í því hvernig við komumst áfram sem samfélag út úr þessari traustskrísu,“ sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. Hún spurði bæði um hvort Katrín teldi Bjarna hafa staðið við skyldur sínar og hvort hún myndi beita sér fyrir skipun rannsóknarnefndar.
Því var ekki svarað beint.
„Mér finnst þessi skýrsla góð, mér finnst hún gefa góða mynd af ferlinu. Mér finnst hún gefa góða mynd af annmörkum - og það er ekki eitthvað sem ég fagna hér,“ sagði forsætisráðherra áður en hún nefndi svo sérstaklega að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi sjálfur óskað eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar. Stjórnvöld hefðu, að hennar mati, beitt sér fyrir því að allt yrði uppi á borðum hvað varðar söluna.
Önnur tilraun
Halldóra Mogensen spurði þá strax aftur: styður Katrín skipun rannsóknarnefndar? „Svar já eða nei. Styður forsætisráðherra rannsóknarnefnd.“
Það svar fékkst ekki.
Katrín sagðist vera farin að gruna að skýrslan hafi valdið einhverjum vonbrigðum. „Það segir mér nú kannski að einhver sé búin að gefa sér niðurstöðuna áður en vinnunni er lokið,“ sagði Katrín. Skýrslan svaraði mörgum spurningum og vitnað til þess að sumt væri áfram til skoðunar, svo sem í rannsókn fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
Halldóra sagðist ánægð með skýrsluna og bað Katrínu að leggja sér ekki orð í munn. Skýrslan skildi samt eftir ósvöruðum spurningum. „Skiljanlega vegna þess að ríkisendurskoðandi hefur ekki þær heimildir sem þarf til,“ sagði Halldóra áður en hún ítrekaði spurninguna.
Katrín sagði það einfaldlega ekki tímabært að ræða frekari rannsókn. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætti eftir að fara yfir málið og komast að því hvort enn væri einhverjum spurningum ósvarað.
Þriðja tilraun
Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar, var næst í röðinni en spurði að öðru en fyrri formennirnir tveir. Hún vildi vita hvort ríkisstjórninni væri stætt á að halda áfram að selja eignir ríkisins.
„Hvaða augum lítur ráðherrann því að þinginu skuli gefnar ófullkomnar og misvísandi upplýsingar í svona stóru og miklu máli? Og í öðru lagi, er ríkisstjórninni treystandi á þessum tímapunkti að fara í frekari söluferli á öðrum ríkiseignum?“ spurði Þorgerður nöfnu sína.
„Hún var ansi marglaga,“ sagði Katrín í kjölfarið um spurninguna og rakti fyrri svör sín um að málið væri enn til skoðunar fjármálaeftirlitsins og frekari upplýsingar væru væntanlegar. „Hérna erum við komin með góða skýrslu, vandaða skýrslu, vandaða skýrslu. Að sjálfsögðu þarf að gera eitthvað með það. Það þarf að fara yfir þetta,“ sagði hún og ítrekaði fyrri afstöðu um að fyrirkomulagið sem viðhaft var hafi ekki verið gott.
Verður þá katrín jakopsdóttir fyrsta hirðfíflið til að segja að það þurfi að draga lærdóm af þessu ráni á eigum þjóðarinnar. ?