Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Hefur Taívan alltaf verið hluti Kína?

Hefur Taívan alltaf verið hluti Kína?
Frumbyggjar Taívans eru nú um 600 þúsund. Þeir eru skyldir Malajum og Pólýnesum Kyrrahafsins, ekki Kínverjum.

Heimsókn Nancy Pelosi til Taívans á dögunum olli gríðarlegri gremju Kínverja og hafa Taívanir ekki bitið úr nálinni með það. Kínverjar hóta öllu illu, enda hafi heimsóknin falið í sér ótilhlýðilega viðurkenningu Bandaríkjastjórnar á Taívan sem sjálfstæðu ríki — en sannleikurinn sé sá að Taívan sé og hafi alltaf verið hluti Kína.

Alveg burtséð frá pólitískum spurningum málsins:

Er það rétt?

Hér á eftir verða nokkrar staðreyndir í sögu Taívans raktar.

Yngri en elstu hlutar Íslands

Taívan er eyja, um það einn þriðji af Íslandi að stærð. Hún hlóðst upp í mikilli eldvirkni fyrir 4-5 milljónum ára þegar gríðarlegur núningur hófst milli  jarðskorpufleka Asíu (eða Evrasíu) annars vegar og Filippseyjaflekans hins vegar.

Jarðfræðilega er Taívan því töluvert yngri en elstu hlutar Íslands, Vestfirðirnir og Austfirðirnir, sem mælst hafa 12-18 milljón ára gamlir.

Enn er umtalsverð jarðskjálftavirkni á Taívan vegna fyrrnefnds núnings en eldvirki er fremur lítil um þessar mundir. Á eystri hluta eyjarinnar eru háar fjallakeðjur þar sem eru margir tindar vel yfir 3.000 metrar að hæð. Sá hæsti er nærri 4.000 metrar.

Á vestari hluta eyjarinnar er hins vegar láglendi, aflíðandi frá fjöllunum í austri og niður að vesturströndinni.

Stundum hefur mátt ganga á milli

Taívan hefur stundum tengst meginlandi Evrasíu. Það gerist þegar ísaldir binda mikinn sjó við heimskautin og sjávarborð lækkar umtalsvert. Þetta gerðist til dæmis á síðustu ísöld sem lauk fyrir um 10 þúsund árum.

Meðan sjávarborð var lágt höfðu menn notað tækifærið og gengið þurrum fótum yfir hið svonefnda Taívan-sund, sem nú heitir, og sest að í og við fjöllin háu. Þegar ísaldarjöklarnir bráðnuðu og sjórinn sneri aftur sat fólkið eftir á Taívan.

Nú eru 180 kílómetrar milli meginlands Evrasíu og Taívans. Það er örlítið styttri vegalengd en milli Bandaríkjanna og Kúbu, svo dæmi sé tekið, en umtalsvert lengra en milli Danmerkur og Noregs yfir Skagerak.

Og rétt tæplega helmingi styttri vegalengd en milli Íslands og Færeyja þar sem styst er.

Talið er að á Taívan hafi þá meðal annars búið manntegund sem við kunnum ennþá lítil skil á.

Ný menning á Taívan

Fyrir 5.000 til 6.000 árum var nýtt fólk komið til Taívans og virðist hafa á tiltölulega skömmum tíma rutt úr vegi menningu þeirra sem fyrir voru. Þetta fólk hefur sennilega komið á bátum yfir sundið frá meginlandi Evrasíu en var þó alls ekki á nokkurn hátt skylt því fólki sem seinna gat af sér Kínverja.

Frumdrög að Kínverjum var einmitt verið að leggja um þær mundir þar sem nú er norðurhluti Kína í um 1.500 kílómetra fjarlægð frá Asíuströnd Taívan-sunds.

Eftir að forfeður og -mæður Han-Kínverja lærðu að rækta hrísgrjón efldist það fólk mjög og fór svo að fikra sig í suðurátt og gleypti þá í leiðinni í sig marga ættflokka og þjóðir sem fyrir voru. 

Það snerti hina nýju íbúa Taívans þó ekki neitt.

Þeir undu á sinni eyju bæði í fjöllunum í austri en ekki síður við sjóinn.

Lagt á sjóinn

Það eru reyndar til kenningar um að þetta „nýja fólk“ sé einfaldlega komið af eldri íbúum og hafi þróað sína sérstöku menningu á Taívan.

Og sé því í rauninni sjálfsprottið þar.

Ástrónesíar er þessi þjóð kölluð — og best að ítreka:

Hún var ekkert skyld Kínverjum. Ekki neitt.

Nema hvað þetta fólk lærði að yrkja jörðina en lifði líka að verulegu leyti á sjávarfangi og varð raunar æ meira gefið fyrir siglingar. Í nokkrum áföngum lagði það á haf út og sigldi fyrst suður til Filippseyja, síðan til indónesísku eyjanna, síðan langar langar leiðir út á Kyrrahafið þvert og endilangt.

Það voru sem sé frumbyggjar frá Taívan sem þróuðu hina ótrúlegu siglingamenningu Pólýnesa.

Og afkomendur þessara Taívana búa síðan um allt Kyrrahafið frá Havaí-eyjum til Páskaeyju til Nýja Sjálands og meira að segja á Madagaskar við Afríkustrendur.

Kínverjar byggðu ekki Taívan

En aðrir urðu eftir á Taívan og mynduðu þar Yuanzhumin-þjóðina sem einnig er kölluð Gaoshan. Yuanzhumin-fólkið bjó aðallega í fjöllunum á Taívan en skyldir ættbálkar bjuggu á láglendinu.

Og þetta er það fólk sem nú er kallað „frumbyggjar Taívans“.

Frumbyggjar Taívans eru sem sé ekki Kínverjar, svo það sé enn sagt, heldur skyldir Malajum, Pólýnesum og Mikrónesíngum.

Nú leið og beið.

Töluvert fyrir upphaf tímatals okkar (Krists burð) má segja að Kína hafi verið orðið til á meginlandi Evrasíu enda Han-Kínverjar komnir æ lengra í suðurátt. Í Kína gekk á ýmsu, stundum sameinuðu öflugar valdaættir allt eða mestallt hið víðáttumikla svæði undir einni stjórn, en stundum var allt í hers höndum og grimmileg stríð háð milli kínverskra ríkja.

En einu mátti þó treysta, Kínverjar höfðu lítinn sem engan áhuga á eyjunni Taívan eða hvað þeir munu hafa kallað hana þá. Einhver verslun var milli Yuanzhumin-fólksins og Kínverja en hún var í mýflugumynd.

Höfðu engan áhuga á Taívan

Á ofanverðri 13. öld — það er að segja um svipað leyti og Íslendingar undirgangast stjórn Noregskonungs — þá fara kínverskir fiskimenn að heimsækja Taívan og koma sér þar upp einhverjum veiðistöðvum. Heimamenn virðast hafa látið þá í friði enda gerðu þeir sig ekki breiða í það sinn.

Taívan er út af ströndum Kína en er þó ekki hluti Kína, hvorki landfræðilega, menningarlega né sögulega — fyrr en síðustu 2-300 ár eða svo

Athyglisvert er til dæmis að í eina skiptið í sögu sinni sem Kínverjar gerðust mikið siglingaveldi — í upphafi 15. aldar — og gerðu þá út risastóra flota til að heimsækja aðrar þjóðir í Suðaustur-Asíu og við Indlandshaf og heimta undirgefni þeirra við keisara sinn, þá komu þessir flotar aldrei við á Taívan.

Stjórnendur Kína höfðu greinilega engan áhuga á Taívan þá.

Þar bjuggu frumbyggjarnir að því er virðist í friði og ró að mestu. Þeir mynduðu ekki öflug eða heildstæð ríki en virðast heldur ekki hafa barist neitt að ráði innbyrðis.

Árið 1349 kom kínverski ferðalangurinn Wang Dayuan til Taívans. Hann hitti fyrir allmarga kínverska fiskimenn á Penghu-eyjum sem eru út á Taívan-sundi, 50 kílómetra frá Taívan, en engir Kínverjar voru þá búsettir á Taívan-eyju sjálfri.

Portúgalir „finna“ Fagurey

Þegar kom fram á 16. öld voru Evrópumenn byrjaðir að sigla um öll heimsins höf og 1544 „fundu“ Portúgalir eyjuna og nefndu hana Formósu, eða Fagurey. 

Þeir töldu sig, þrátt fyrir fegurðina, hafa lítt til eyjarinnar að sækja, svo bækistöðvar þeirra urðu ekki umfangsmiklar í það sinn. Í upphafi 17. aldar færðist hins vegar fjör í leikinn þegar Spánverjar og Hollendingar fóru að keppa við Portúgali um yfirráð yfir siglingaleiðum á svæðinu. 

Ekki hirði ég um að rekja þá sögu í smáatriðum en mestallan fyrri hluta aldarinnar má segja að Hollendingar hafi ráðið suðurhluta Taívans en Spánverjar norðurhlutanum.

Yfirráð beggja voru þó fyrst og fremst bundin við lítil virki á ströndinni.

Kínverjum var þá svolítið farið að fjölga á suðvesturhorni eyjarinnar. Þegar Hollendingar mættu til leiks 1623 töldu þeir 1.500 Kínverja á eyjunni.

Flestir voru fiskimenn en einnig svolítið af kaupmönnum, auk þess sem nokkrir sjóræningjar höfðu komið sér upp stöðvum þar.

Uppreisnir gegn Evrópuveldum

Íbúar Taívans — það er að segja frumbyggjarnir — voru sáróánægðir með að vera orðnir leiksoppar Evrópuveldanna og gerðu nokkrum sinnum uppreisnir en biðu ævinlega lægri hlut. Hollendingar, sem nú voru búnir að ýta Spánverjum og Portúgölum burt, brugðust við af þeirri hörku og grimmd sem þeir voru þekktir fyrir sem nýlenduherrar.

Upp úr 1660 voru Hollendingar komnir vel á veg með að leggja undir sig stóran hluta Taívans, altént vesturhlutann, og skipuleggja þar nýlendu. Þeir höfðu hafist handa um að kristna íbúana og kenna þeim evrópska háttu, auk þess sem þeir borguðu innfæddum fyrir að allt að því útrýma miklum dádýrahjörðum sem leikið höfðu lausum hala á eyjunni.

Japanir borguðu hátt verð fyrir húðirnar sem þeir notuðu í brynjur samúræja en Kínverjar keyptu kjötið.

Jafnframt fóru Hollendingar að rækta sykurreyr á eyjunni og fluttu inn Kínverja til að vinna á plantekrum þeirra.

Kínverjar koma 1662

Árið 1662 breyttist allt. Mikið stríð hafði þá lengi geisað í Kína milli Ming-keisaraættarinnar annars vegar og innrásarmanna norðan frá Mansjúríu hins vegar. Þegar þarna var komið sögu voru norðanmenn óðum að ná yfirhöndinni en einn af síðustu herstjórum Ming-ættarinnar — hinn kínversk-japanski Koxinga — hrakti þá Hollendinga burt frá stöðvum sínum á Taívan og gerði þær að sínum helstu bækistöðvum.

Þaðan vonaðist Koxinga til þess að skipuleggja gagnsókn Ming-manna yfir sundið og endurheimta Kína.

Ekki varð af því. Koxinga dó aðeins skömmu eftir að hafa sigrast á Hollendingum og þótt sonur hans tæki við keflinu fékk sá strákur ekki reist rönd við framgangi Mansjúríumanna.

1683 tók Qing-ættin því við ríki Ming-manna á Taívan.

„Hlið helvítis“

Frá og með því ári má vissulega segja að Kínverjar hafi orðið herrar Taívans — eða réttara sagt hluta Taívans.

Sjálf keisaraættin Qing var þó í rauninni varla enn orðin kínversk, enda komin af hinum norðlægu Júrtjenum, er bjuggu lengst norður í Síberíu og Mansjúríu og voru túngúskrar ættar.

Enn sem komið var réðu Kínverjar aðeins suðvesturhluta Taívans en frumbyggjar fóru sínu fram á stærstum hluta hennar.

Qing-ættin spornaði í næstum heila öld gegn innflutningi Kínverja til Taívans, enda höfðu Kínverjar lítið álit á eyjunni og kölluðu hana „hlið helvítis“. Malaría lagði marga að velli og innfæddir tóku innrásarliði Kínverja illa og gerðu iðulega uppreisnir gegn þeim — en Kínverjar börðu slíkt niður af heift.

Heilli öld eftir hernám Kínverja eða um 1770 réðu Kínverjar enn aðeins vesturhluta eyjarinnar.

Þá tóku Kínverjar hins vegar þá ákvörðun að „kínavæða“ Taívan og lögðu af allar hömlur á innflutningi fólks frá Kína. Ástæðan var ekki síst sú að Kínverjar vildu treysta yfirráð sín yfir hafsvæðinu umhverfis eyjuna, en þá voru Frakkar og Bretar farnir að gera sig æ meira gildandi þar um slóðir.

Árið 1811 töldust Kínverjar vera tvær milljónir á Taívan, þá þegar miklum mun fleiri en heimamenn.

Innbyrðis barátta Kínverja

Á ýmsu gekk enn á eyjunni og þar geisuðu nú oft heiftúðugir bardagar milli mismunandi hópa Kínverja sem bitust um völd og áhrif. Frumbyggjar reyndu að halda sjálfstæði sínu og lengi enn réðu Kínverjar litlu sem engu á austurströndinni og í fjöllunum.

Árið 1884 gerðu Frakkar innrás á eyjuna frá Indókína og hugðust leggja hana undir heimsveldi sitt en var svarað af hörku af Kínverjum og þó ekki síður innfæddum, svo Frakkar hrökkluðust fljótlega burt. Er þetta eitt af fáum dæmum um þær mundir um misheppnaða innrás evrópsks nýlenduveldis á lendur í Afríku eða Asíu.

Bretar íhuguðu líka nokkrum sinnum að leggja undir sig eyjuna en töldu það ekki svara kostnaði.

Vaxandi stórveldi Japans tók hins vegar að ásælast Taívan þegar leið á 19. öldina. Þegar Japanir höfðu gersigrað Kínverja í stríði þjóðanna 1895 heimtuðu þeir yfirráð yfir Taívan og réðu eyjunni síðan í 50 ár.

Kína réði innan við helmingi eyjarinnar

Athyglisvert er að þegar Japanir tóku við eyjunni eftir friðarsamninga við Kínverja, þá viðurkenndi Qing-ættin að hún réði í raun og veru aðeins yfir 45 prósentum landsvæðis á Taívan.

Frumbyggjar réðu sem sé enn, fyrir aðeins 125 árum, meirihluta eyjarinnar.

Athugið það, þið sem nú japlið á tuggu Kínverja að Taívan hafi „alltaf verið kínversk“.

Kínverjar voru hins vegar meira tíu sinnum fleiri en frumbyggjar. Alls voru íbúar á eyjunni þá taldir 2,5 milljón en þar af voru Kínverjar 2,3 milljónir.

Þetta hvort tveggja kemur fram í bók eftir fræðimanninn Andrew Morris frá 2002.

Kínverskir íbúar á Taívan reyndu að stofna sjálfstætt lýðveldi á eyjunni fremur en fallast á yfirráð Japana en urðu fljótt að lyppast niður, enda fóru kínverskir herflokkar á vegum Qing-stjórnarinnar með ránum og rupli um eyjuna og íbúum fannst í bili illskárra að þola japanska stjórn.

Stjórn Japana

Japanir máttu búa við ýmsar uppreisnir þá áratugi sem þeir réðu Taívan, bæði af hendi kínverskra íbúa en ekki þó síður frumbyggja. Síðasta uppreisn frumbyggja var 1930 og var vitaskuld barin niður af þeirri hörku sem Japanir voru þá kunnir fyrir.

Á hinn bóginn munu Japanir hafa unnið ýmis þrekvirki við að útrýma landlægum hitabeltissjúkdómum, efla mjög landbúnað og byggja miklu betri innviði en Kínverjar höfðu gert. Töluverður fjöldi Japana settist á að Taívan.

Japan var í raun fyrsta erlenda veldið sem náði raunverulegum völdum á allri eyjunni.

Það hafði hvorki Evrópuveldunum né Kína tekist.

Þegar Japanir gáfust upp eftir síðari heimsstyrjöldina síðsumars 1945 var eyjan fengin í hendur Kínastjórn sem var undir forystu Sjang Kaí-sjeks og vaninn er að kenna flokk hans og manna hans við þjóðernissinna. Stjórn hans hafði lengi átt í blóðugri baráttu við kommúnista Mao Zedongs og fór nú smátt og smátt halloka.

Flóttinn til Taívan

Árið 1949 hröktust leifarnar af her Sjangs út til Taívans en Mao tók völdin í Kína og kom þar á einhverri mestu óhappastjórn allra tíma.

Sjang ímyndaði sér lengi að hann gæti unnið Kína aftur frá Taívan — rétt eins og Koxinga trúði á sínum tíma að hann gæti endurheimt Kína fyrir Ming-ættina — en fljótt kom í ljós að slíkar hugmyndir voru með öllu óraunhæfar, og þá fóru Sjang og menn hans að byggja upp prívatssamfélag á Taívan.

Lengi vel var stjórn Sjangs einræðisstjórn eins flokks en þegar leið að lokum 20. aldar var komin þar á laggirnar sannkölluð lýðræðisstjórn og þykir hún samkvæmt öllum mælikvörðum ein sú besta í allri Asíu — mannréttindi eru í heiðri höfð að mestu, lífskjör eru góð, heilsugæsla til fyrirmyndar.

Íbúar eru nú 24 milljónir.

95 prósent þeirra eru kínverskrar ættar.

Af Kínverjunum eru 85 prósent afkomendur þeirra sem fluttust til eyjarinnar á 17.-19. öld, en 15 prósent eru afkomendur þeirra sem flúðu til Taívan 1949.

Rúm tvö prósent íbúar eru frumbyggjar og álíka margir afkomendur innflytjenda frá Suðaustur-Asíu. 

Þannig er nú það.

 

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Mest lesið

„Ég var bara glæpamaður“
1
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Sparnaðarráð frá borgarfulltrúa og tilboð frá gámafélagi
3
Stjórnmál

Sparn­að­ar­ráð frá borg­ar­full­trúa og til­boð frá gáma­fé­lagi

Þór­dís Lóa Þór­halls­dótt­ir borg­ar­full­trúi hef­ur nýtt sér hug­mynda­söfn­un borg­ar­inn­ar um hvernig nýta megi fjár­muni Reykja­vík­ur bet­ur. Hún hef­ur sent ell­efu til­lög­ur inn í sam­ráðs­gátt­ina. Þar er líka kom­ið til­boð í út­flutn­ing á sorpi til brennslu – eða ork­u­nýt­ing­ar – frá Ís­lenska gáma­fé­lag­inu.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Ég var bara glæpamaður“
2
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Þakklátur fyrir að vera á lífi
3
Viðtal

Þakk­lát­ur fyr­ir að vera á lífi

Þor­lák­ur Mort­hens, Tolli, hef­ur marga fjör­una sop­ið í lífs­ins ólgu­sjó. Æsku­ár­in höfðu sín áhrif en þá byrj­aði hann að teikna og var ljóst að dreng­ur­inn væri gædd­ur hæfi­leik­um. Óregla og veik­indi lit­uðu fjöl­skyldu­líf­ið og á unglings­ár­un­um sá hann um sig sjálf­ur. Um ára­bil var hann sjómað­ur, verka­mað­ur og skóg­ar­höggs­mað­ur. Eft­ir mynd­list­ar­nám hef­ur hann lif­að af mynd­list­inni. Nú er Tolli far­inn að mála í ljós­ari tón­um. Hann gaf nýra, greind­ist síð­an með krabba­mein og sigr­aði.
Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir
4
Það sem ég hef lært

Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir

Mér renn­ur blóð­ið til skyld­unn­ar

Guð­laug Svala Stein­unn­ar Kristjáns­dótt­ir seg­ir að stærsta lexía lífs síns sé lík­lega að upp­götva um miðj­an ald­ur að hún er ein­hverf. Hún hafi átt­að sig á sjálfri sér með hjálp ann­ars ein­hverfs fólks sem þá hafði þeg­ar oln­bog­að sig áfram í heimi ráð­andi tauga­gerð­ar, misst lík­am­lega, and­lega, fé­lags­lega og starfstengda heilsu áð­ur en það átt­aði sig á sjálfu sér.
Icelandair sýknað af kröfu Margrétar – Stærsti hluti bótakröfu vegna Netflix
5
Fréttir

Icelanda­ir sýkn­að af kröfu Mar­grét­ar – Stærsti hluti bóta­kröfu vegna Net­flix

Mar­grét Frið­riks­dótt­ir krafð­ist yf­ir 24 millj­óna króna í bæt­ur eft­ir að henni var vís­að brott úr vél Icelanda­ir ár­ið 2022. Hún hafði þá neit­að að taska sem hún hafði með­ferð­is yrði færð í far­þega­rými og neit­að að setja upp grímu vegna sótt­varna. Stærsti hluti af bóta­kröf­unn­ar var vegna heim­ilda­mynd­ar sem Mar­grét hugð­ist gera og selja Net­flix.
Sendu skip til Grænlands
6
Erlent

Sendu skip til Græn­lands

Hinn 10. apríl 1940, dag­inn eft­ir að Þjóð­verj­ar her­námu Dan­mörku, sendi banda­ríska strand­gæsl­an skip til Græn­lands. Um borð voru James K. Pen­field, ný­út­nefnd­ur ræð­is­mað­ur, og full­trúi Rauða kross­ins. Síð­ar það sama ár hreyfði var­aut­an­rík­is­ráð­herra Banda­ríkj­anna hug­mynd­inni um banda­rísk­ar her­stöðv­ar í land­inu. Áhugi Banda­ríkja­manna á Græn­landi er sem sé ekki nýr af nál­inni.

Mest lesið í mánuðinum

Sælukot hagnast um tugi milljóna en starfsfólk og foreldrar lýsa skorti
5
Rannsókn

Sælu­kot hagn­ast um tugi millj­óna en starfs­fólk og for­eldr­ar lýsa skorti

Einka­rekni leik­skól­inn Sælu­kot, sem hef­ur feng­ið millj­arð króna í op­in­ber fram­lög síð­asta ára­tug, hef­ur hagn­ast vel og nýtt pen­ing­ana til að kaupa fast­eign­ir fyr­ir stjórn­ar­for­mann­inn. Stjórn­end­ur leik­skól­ans segja mark­mið­ið vera að ávaxta rekstr­araf­gang, en fyrr­ver­andi starfs­menn og for­eldr­ar nem­enda kvarta und­an langvar­andi skorti. Skól­an­um var ný­lega lok­að tíma­bund­ið vegna óþrifn­að­ar og mein­dýra.
Íslendingar vísa trans konu á flótta frá Bandaríkjunum úr landi
6
Fréttir

Ís­lend­ing­ar vísa trans konu á flótta frá Banda­ríkj­un­um úr landi

Kona sem er á flótta frá Banda­ríkj­un­um með son sinn sótti um al­þjóð­lega vernd á Ís­landi. Fyr­ir Út­lend­inga­stofn­un lýsti hún því hvernig hat­ur hafi far­ið vax­andi þar í landi gagn­vart kon­um eins og henni – trans kon­um – sam­hliða að­gerð­um stjórn­valda gegn trans fólki. Sjálf hafi hún orð­ið fyr­ir að­kasti og ógn­un­um. „Með hverj­um deg­in­um varð þetta verra og óhugn­an­lega.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár