Alls voru 59.105 erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu á Íslandi 1. júlí síðastliðinn. Fjölgaði þeim um 4.126 frá 1. desember 2021, eða um 7,5 prósent.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Þjóðskrá sendi frá sér í dag. Stór hluti þeirra erlendu ríkisborgara sem flutt hafa til landsins á þessu tímabili eru úkraínskir. Fjölgaði þeim um 490 prósent á tímabilinu og eru nú 1.410 úkraínskir ríkisborgarar skráðir. Stór hluti þeirra er hingað kominn vegna innrásar Rússa í landið, en um 1.300 manns frá Úkraínu hafa leitað skjóls hérlendis frá áramótum.
Sömuleiðis hefur verið töluverð fjölgun ríkisborgara frá Venesúela, eða 57 prósenta fjölgun frá 1. desember. Eru nú 696 manns með venesúelskt ríkisfang búsettir á Íslandi.
Pólskum ríkisborgurum fjölgaði um 568 manns á tímabilinu og eru þeir nú rúmlega 22 þúsund talsins eða 5,8 prósent landsmanna og langstærsti hópur innflytjenda. Rúmenskum ríkisborgurum á landinu fjölgaði einnig á tímabilinu og eru þeir 3.159 búsettir á Íslandi.
Athugasemdir