Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Lögmannsstofan Logos stofnaði félag Moshenkys sem teygði sig í skattaskjól

Lög­fræðiskrif­stof­unni Logos er lýst sem „hjarta af­l­andsvið­skipta“ Ís­lend­inga. Á tíma­bili kom um helm­ing­ur af tekj­um lög­fræðiskrif­stof­unn­ar frá skrif­stof­unni í London, sem sá með­al ann­ars um við­skipti fyr­ir MP Banka og við­skipta­veldi Al­eks­and­ers Mos­hen­sky, hví­trúss­neska ólíg­ark­ans og kjör­ræð­is­manns Ís­lands, sem ver­ið hef­ur stærsti ein­staki kaup­andi upp­sjáv­ar­fisks af ís­lensk­um út­gerð­um.

Lögmannsstofan Logos stofnaði félag Moshenkys sem teygði sig í skattaskjól
MP Banki og Logos þjónustuðu Moshensky MP Banki, sem var með starfsemi í Austur-Evrópu, og lögmannsstofan Logos þjónustuðu fyrirtæki Aleksanders Moshensky.

Þann 5. apríl árið 2016, einum degi eftir að rúmlega 20 þúsund manns mótmæltu á Austurvelli í Reykjavík eftir opinberanir um eignarhald ráðherranna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar á félögum í Panamaskjölunum, hætti íslenska lögfræðiskrifstofan Logos í London að þjónusta breskt félag með eignarhaldi sem endaði í skattaskjólinu  Seychelles-eyjum. 

Nú liggur fyrir að þetta fyrirtækjanet var í eigu hvítrússneska kaupsýslumannsins Alexanders Moshensky, sem er náinn samverkamaður einræðisherrans í Hvíta-Rússlandi, Alexanders Lukaschenko. Þetta fyrirtækjanet hefur meðal annars verið notað til að kaupa uppsjávarfisk eins og makríl, loðnu og gulllax af íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. 

Logos er stærsta lögmannsstofa landsins. Fyrirtækið er með aðsetur á Íslandi og í London. Logos hafði stofnað umrætt fyrirtæki, Max Credit Investments,  árið 2008. Í stofnskjölum félagsins kemur fram að það hafi verið stofnað „fyrir og fyrir hönd MP banka“.  Max Credit Investments var í eigu fyrirtækjanets, sem teygir sig til áðurnefndra Seychelles-eyja þar til fyrir tveimur árum. Eignarhaldið er nú íslenskt. 

Enginn endanlegur eigandi að félaginu er hins vegar tilgreindur í stofnskjölum þess heldur aðeins að það sé stofnað fyrir MP banka og að Logos sé umsýsluaðili félagsins. Eignarhald félagsins var því vandlega falið í skúffu aflandsþjónustu á Seychelles-eyjum.

MP banki, sem í kjölfar hrunsins og eigendabreytinga og sameininga varð hluti bankans sem í dag heitir Kvika, var á þessum tíma með töluverð umsvif í Austur-Evrópu. Einkum í Úkraínu, vegna tengsla stofnanda bankans, Margeirs Péturssonar, þar í landi. Margeir stofnsetti síðar sjálfur banka í landinu, Bank Lviv, eftir að hann missti yfirráðin yfir MP banka og rekur hann þann banka enn í dag. 

Árið 2020 færðist eignarhaldið á Max Credit Investment Limited til íslensks fyrirtækis fyrrverandi starfsmanns MP banka, Karls Konráðssonar, sem skráð er á heimili hans í smáíbúðahverfinu. Karl var áður starfsmaður einkabankaþjónustu MP banka í Litáen og komst þar í kynni við Alexander Moshensky. Hvítrússinn var þó að sögn ekki formlega viðskiptavinur MP banka, heldur munu tengsl hann við bankann hafa verið í gegnum Margeir Pétursson, samkvæmt heimildum Stundarinnar. MP banki starfaði hins vegar klárlega fyrir Moshensky þar sem bankinn og starfsmaður bankans hafði umsjón með félaginu, Max Credit Investments, sem var í formlegri eigu Moshenskys þar til fyrir tveimur árum. 

Guðmundur Oddsson, lögmaður hjá lögmannsstofunni Logos í London, svaraði ekki spurningum Stundarinnar um félagið Max Credit Investment Limited. Eitt af því sem Stundin spurði Logos var hvort lögmannsstofan hefði vitað hver væri endanlegur eigandi félagsins. Guðmundur var um tíma skráður stjórnandi Max Credit Investments Limited. 

Eignarhaldið líklega enn hvítrússneskt

Þrátt fyrir formlegt íslenskt eignarhald á félaginu þá er þetta félag, Max Credit Investments, hins vegar að öllum líkindum í endanlegri eigu Aleksanders Moshensky, hvítrússneska kaupsýslumannsins. Moshensky á í verulegum viðskiptum við íslensk útgerðarfélög í gegnum umrætt félaganet. Eins og Stundin hefur fjallað um þá er Moshensky konsúll Íslands í Hvíta-Rússlandi og hefur hann ýmiss konar tengsl við Aleksander Lukashenko, einræðisherra í landinu. 

Í breskum ársreikningum Max Credit Investments er félagið alltaf sagt vera í eigu Alpha Mar Foundation en ekki er tilgreint hver á þetta félag eða hvar það er. Endanlegt eignarhald þessa fyrirtækjanets er í skattaskjólinu Seychelles. Þetta skattaskjól er meðal annars þekkt á Íslandi vegna þess að Panamaskjölin sýndu fram á að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafði átt í félagi þar.

Þegar  Karl Konráðsson er spurður að því, eftir að hafa svarað því játandi að hafa keypt fyrirtækið af félögum í eigu Alexanders Moshenky, hver eigi Alpha Mar Foundation svarar hann Stundinni á þá leið að blaðið eigi að spyrja „þá“. Miðað við svarið er Karl ekki bara að vísa til Alexanders Moshenky heldur einhvers annars líka. Engar opinberar upplýsingar liggja hins vegar fyrir um endanlegan eiganda Alpha Mar Foundation. 

Átta ára þjónustaLogos í London þjónustaði fyrirtækið Max Credit Investments sem umsýsluaðili frá árinu 2008 til 2016. Guðmundur Oddsson er lögmaðurinn sem stofnaði félag Moshenskys.

Logos hætti að þjónusta félagið

Sá sem skrifaði undir stofnskjöl Max Credit Investments var lögmaðurinn Guðmundur Oddsson, stjórnandi skrifstofu Logos í London. Logos var umsýsluaðili þessa félags allt þar 5. apríl árið 2016 þegar annað fyrirtæki, Jordan Cosec Limited, tók yfir sem umsýsluaðili félagsins.  Guðmundur varð um hríð landsfrægur í kjölfar bankahrunsins árið 2008 vegna aðkomu sinnar og Logos að Al Thani-viðskiptunum svokölluðu. Lögmaðurinn var einn af þeim sérfræðingum sem komu að því að koma viðskiptunum á koppinn. 

Svo vill til að tveimur dögum áður en Logos hætti að vera umsýsluaðili Max Credit Investments voru birtar fréttir á Íslandi úr Panamaskjölunum svokölluðu. Þann 3. apríl 2016 var birt viðtal Kastljóssins á RÚV og sænska ríkissjónvarpsins við Sigmund Davíð Gunnlaugsson þar sem hann var spurður um Wintris-málið svokallaða. Panamaskjölin urðu að heimsfrétt vegna leka frá panömsku lögmannsstofunni Mossack Fonseca sem hafði þjónustað mörg þúsund aðila sem vildu nýta sér slík félög af skattalegum ástæðum. Sigmundur Davíð hætti sem forsætisráðherra Íslands í kjölfar þessara frétta og kosningum til Alþingis var flýtt. 

Hvort upplýsingarnar úr Panamaskjölunum leiddu til þess að Logos hætti að þjónusta þetta félag sem tengist Moshensky er erfitt að segja. En tímasetningin vekur athygli.  

Fyrirtæki sem tengt hefur verið við Messi tók við

Eftir að Logos hætti að vera þjónstuaðili Max Credit Investments tók fyrirtæki sem heitir Jordan Cosec Limited við því. Þetta er fyrirtæki í borginni Bristol í Suðvestur Englandi. Ekki er að finna miklar upplýsingar um það á netinu en um er að ræða fyrirtæki sem býður upp á þjónustu við rekstur á félögum. Fyrirtækið er meðal annars tengt við meinta skattasniðgöngu argentínska fótboltamannsins Leo Messi í einni frétt á netinu. 

Tilgangur þeirrar þjónustu sem þetta fyrirtæki veitir virðisti vera, í stuttu máli, að dylja raunverulegt og endanlegt eignarhald á fyrirtækjum og félögum með því að búa til millilið.  Í tilfelli Leo Messi var fyrirtækið Jordan Cosec Limited sagt vera eitt af nokkrum sem var notað í þessum tilgangi. 

Samkvæmt bresku fyrirtækjaskránni er þetta fyrirtæki Jordan Cosec enn þá umsýsluaðili Max Credit Investments. 

Fyrirtæki í Bristol sem tengt hefur verið MessiFyrirtækið sem tók við sem þjónustuaðili Max Credit Investment Limited hefur verið tengt við meinta skattasniðgöngu knattspyrnumannsins Lionel Messi hjá PSG.

Að þekkja viðskiptavin sinn

Sú staðreynd að Logos í London var þjónustaðili þessa félags án þess að eignarhald þess lægi fyrir er merkileg fyrir margra hluta sakir. 

Umræðan um Panamaskjölin og aðra sambærilega leka um skattaskjól leiddi til mikillar umræðu um hvernig lönd heimsins ættu að berjast gegn skattaskjólum. Segja má að Panamaskjölin hafi leitt til þess að enn frekar stimpla notkun á skattaskjólum sem neikvæða í hugum fólks. 

Einn af þeim sem tók þátt í þeirri umræðu var sænski skattaskjólssérfræðingurinn Thorsten Fensby. Um notkun aflandsfélaga sagði hann í viðtali við Fréttatímann: „Aflandsfélög eru kannski ekki ólögleg í strangasta skilningi. En ef maður notar félag í skattaskjóli er markmiðið alltaf að fara í kringum eitthvað, hvort sem það eru skattar, reglur um peningaþvott, reglur á fjármálamarkaði, siðferðisreglur, reglur um hagsmunaárekstra eða eitthvað slíkt. Ég ætla að koma með dæmi: Ef þú kaupir þér hjól þá lætur þú aflandsfélag ekki eiga hjólið ef markmiðið er ekki að fara í kringum einhverjar reglur. Það væri hreint fáránleg lykkja á leiðinni að því markmiði að verða eigandi hjólsins.“ 

Eitt af því sem Panamaskjölin áttu þátt í að kveikja aukna umræðu um voru svokallaður KYC-reglur. Þessar reglur standa fyrir „know your client“ á ensku, eða „þekktu viðskiptavin þinn“. Bankar, verðbréfafyrirtæki og lögmannsstofur eiga og verða að vita hverjir endanlegir eigendur þeirra félaga sem þeir þjónusta eru.

Annars eiga þessi fyrirtæki ekki að þjónusta umrædd félög. Ekkert í opinberum upplýsingum um Max Credit Investments bendir til að Logos hafi getað vitað hver var endanlegur eigandi félagsins. Enda var MP banki líka annar milliliður í viðskiptum félagsins. 

Í reglum verðbréfa- og fjármálafyrirtækja um könnun á raunverulegum eigendum er alveg skýrt að afla þarf upplýsinga um raunverulega eigendur félags. Um þetta segir til dæmis í verklagsreglum Arion banka: „Óheimilt er að stofna til viðskiptasambands við aðila nema framkvæmd hafi verið fullnægjandi áreiðanleikakönnun í samræmi við verklagsreglur um áreiðanleikakannanir (KYC).“ 

Stór hluti tekna Logos kom erlendis frá

Sú staðreynd að Logos veitti félaginu Max Credit Investments þessa þjónustu á þessum tíma, allt fram til ársins 2016, þarf hins vegar ekki að koma á óvart þegar litið er til þess að slík þjónusta við fyrirtæki var mikilvæg tekjulind fyrir lögmannsstofuna. Logos stofnaði skrifstofuna í Bretlandi á hápunkti íslenska góðærisins fyrir bankahrunið 2008: Árið 2006. Þá voru mörg íslensk fjárfestingarfélög í útrás til annarra landa og þurftu aðstoð fyrirtækjalögfræðinga og sérfræðinga erlendis. 

Í ársreikningum  Logos á árunum 2008 og 2009 kemur til dæmis fram að nærri 600 milljónir af tæplega 1.700 milljóna tekjum félagsins hafi komið utan Íslands. Árið 2009 var þessi upphæð enn þá hærri eða rúmur milljarður af tæplega 2,6 milljarða króna tekjum. Þannig komu á bilinu 35 til 40 prósent af tekjum Logos frá skrifstofu lögmannsstofunnar í London og einnig í Kaupmannahöfn. 

Eignir félagsins í London jukust hratt eftir stofnun þess 2006, fóru meðal annars úr tæplega hálfri milljón punda upp í rúmlega 3 milljónir punda árið 2008 og þaðan upp í tæplega fimm milljónir árið 2009. Ársreikningar Logos í London eru hins vegar ekki mjög ítarlegir heldur er um að ræða samandregna reikninga þar sem tekjurnar koma til dæmis ekki fram með beinum hætti. 

Eins og einn viðmælandi Stundarinnar orðar það þá var Logos í London það sem hann kallar „hjarta aflandsviðskipta Íslands“  á þessum árum fyrir og eftir bankahrunið árið 2008. Hluti þessara aflandsviðskipta snerist um að liðka til fyrir viðskiptum með fisk frá Íslandi sem hlykkjuðust á pappírunum um Bretland, Kýpur og Seychelles-eyjar í gegnum hvítrússneskt eignarhald.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Ólígarkinn okkar

Pólverjar æfir vegna ólígarkans okkar
FréttirÓlígarkinn okkar

Pól­verj­ar æf­ir vegna ólíg­ark­ans okk­ar

Áhrifa­mikl­ir pólsk­ir stjórn­mála­menn brugð­ust í vik­unni harka­lega við frétt­um af því að ólíg­arki frá Bela­rús, sem ít­rek­að hef­ur ver­ið reynt að beita við­skipta­þving­un­um, vegna tengsla hans við ein­ræð­is­stjórn­ina í Minsk, hefði kom­ið sér fyr­ir í Var­sjá. Um er að ræða ís­lenska kjör­ræð­is­mann­inn í Bela­rús, sem fer allra sinna ferða í skjóli vernd­ar sem sendi­full­trúi Bela­rús. Óá­sætt­an­legt er að hann sé full­trúi Ís­lands, seg­ir sér­fræð­ing­ur.
Úkraínskt orkufyrirtæki flutt af nafni ólígarka í skúffufélag í Smáíbúðahverfinu
AfhjúpunÓlígarkinn okkar

Úkraínskt orku­fyr­ir­tæki flutt af nafni ólíg­arka í skúffu­fé­lag í Smá­í­búða­hverf­inu

Ís­lensk­ur banka­mað­ur, Karl Kon­ráðs­son, er sagð­ur hafa keypt helm­ings­hlut í úkraínsku orku­fyr­ir­tæki ný­ver­ið af Al­eks­and­er Mos­hen­sky, kjör­ræð­is­manni Ís­lands og ólíg­arka í Bela­rús. Áð­ur hafði Karl eign­ast breskt fé­lag Mos­hen­skys fyr­ir slikk. Þá og nú átti Mos­hen­sky á hættu að sæta við­skipta­þving­un­um, vegna tengsla sinna við stjórn­völd í Bela­rús.
Tugir milljarða í skattaskjól í gegnum Smáíbúðahverfið
RannsóknÓlígarkinn okkar

Tug­ir millj­arða í skatta­skjól í gegn­um Smá­í­búða­hverf­ið

Kjör­ræð­is­mað­ur Ís­lands í Bela­rús hef­ur á und­an­förn­um ár­um flutt tugi millj­arða króna til dul­ar­fulls af­l­ands­fé­lags á Seychell­es-eyj­um með að­stoð fé­lags sem stýrt er úr heima­húsi Reykja­vík. Um er að ræða ávinn­ing af fisk­við­skipt­um og sér­kenni­leg­um lán­veit­ing­um til fyr­ir­tækja kjör­ræð­is­manns­ins í Aust­ur-Evr­ópu, sem allt bend­ir til að séu gerð til að koma hagn­aði und­an skött­um.
Gagnrýndi stjórnvöld fyrir hræsni í málefnum Belarús
FréttirÓlígarkinn okkar

Gagn­rýndi stjórn­völd fyr­ir hræsni í mál­efn­um Bela­rús

Þór­hild­ur Sunna Æv­ars­dótt­ir þing­kona Pírata sak­aði ís­lensk stjórn­völd og ut­an­rík­is­ráð­herra um hræsni, í um­ræð­um um bar­áttu lýð­ræð­is­sinna í Bela­rús á Evr­ópu­ráðs­þing­inu í gær. Ís­lensk stjórn­völd gætu ekki lát­ið sér nægja að sitja fyr­ir á mynd­um og segj­ast styðja stjórn­and­stöðu lands­ins, á sama tíma og þeir hefðu ná­inn sam­verka­mann ein­ræð­is­stjórn­ar­inn­ar í embætti kjör­ræð­is­manns.
Ólígarkinn okkar fastagestur í einkaþotum einræðisherrans
AfhjúpunÓlígarkinn okkar

Ólíg­ark­inn okk­ar fasta­gest­ur í einka­þot­um ein­ræð­is­herr­ans

Al­ex­and­er Mos­hen­sky, kjör­ræð­is­mað­ur Ís­lands í Hvíta-Rússlandi, hef­ur flog­ið hátt í þrjá­tíu sinn­um með einka­þot­um ein­ræð­is­stjórn­ar Lukashen­ko á síð­ast­liðn­um ára­tug, sam­kvæmt gögn­um sem lek­ið var ný­lega. Ein­göngu fjöl­skylda og nán­ustu banda­menn Al­eks­and­ers Lukashen­ko nota þot­urn­ar. Bæði þot­urn­ar og flest­ir far­þega henn­ar hafa ver­ið sett í ferða­bann um Evr­ópu og Norð­ur-Am­er­íku.
Úkraína frysti eignir Moshensky-fjölskyldunnar
FréttirÓlígarkinn okkar

Úkraína frysti eign­ir Mos­hen­sky-fjöl­skyld­unn­ar

Úkraínsk yf­ir­völd eru sögð hafa kyrr­sett eig­ur og fryst banka­reikn­inga fyr­ir­tæk­is­ins Santa Kholod í Kænu­garði. Yf­ir­völd þar telja hví­trúss­nesk fyr­ir­tæki fjár­magna inn­rás Rússa með óbein­um hætti, vegna stuðn­ings ein­ræð­is­stjórn­ar Lukashen­ko. Santa Kholod er hluti af fyr­ir­tækja­keðju Al­eks­and­ers Mos­hen­sky, kjör­ræð­is­manns Ís­lands, fiskinn­flytj­anda og ólíg­arka í Hvíta-Rússlandi. Sagð­ur hafa skráð fyr­ir­tæki á dótt­ur sína til að verj­ast þving­un­um ESB.

Mest lesið

Grunaði að það ætti að reka hana
1
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Fiskurinn sem fer um Belarús: „Ég mun ræða þetta“
5
Fréttir

Fisk­ur­inn sem fer um Bela­rús: „Ég mun ræða þetta“

Ferða­manna­laus­ir Þing­vell­ir í rign­ingu og roki voru vett­vang­ur einka­fund­ar Bjarna Bene­dikts­son­ar for­sæt­is­ráð­herra og Volodomír Selenski, for­seta Úkraínu, síð­deg­is á mánu­dag. „Við þurf­um raun­veru­leg­an stuðn­ing,“ sagði Selenskí á leið inn á fund­inn en virt­ist hissa þeg­ar hann var spurð­ur út í hvort út­flutn­ing­ur Ís­lend­inga á fiski til Rúss­lands í gegn­um bela­rúss­nesk­an milli­lið hefði bor­ið á góma.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Grunaði að það ætti að reka hana
1
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.

Mest lesið í mánuðinum

Lögreglan á nýrri slóð: Fundu skilaboð Þorsteins
1
AfhjúpunSamherjaskjölin

Lög­regl­an á nýrri slóð: Fundu skila­boð Þor­steins

Tækni­mönn­um á veg­um hér­aðssak­sókn­ara tókst á dög­un­um að end­ur­heimta á ann­að þús­und smá­skila­boð sem fóru á milli Þor­steins Más Bald­vins­son­ar og Jó­hann­es­ar Stef­áns­son­ar, á með­an sá síð­ar­nefndi var við störf í Namib­íu. Skila­boð­in draga upp allt aðra mynd en for­stjór­inn og aðr­ir tals­menn fyr­ir­tæk­is­ins hafa reynt að mála síð­ustu fimm ár.
Missir húsið upp í skattaskuld fyrrverandi eiginmanns
6
Fréttir

Miss­ir hús­ið upp í skatta­skuld fyrr­ver­andi eig­in­manns

Fyrr­ver­andi eig­in­kona Sig­urð­ar Gísla Björns­son­ar í Sæ­marki sér fram á að missa fast­eign sína upp í skatta­skuld hans, eft­ir úr­skurð Hæsta­rétt­ar í síð­ustu viku. Hjóna­band­inu lauk fyr­ir rúm­um ára­tug og fjög­ur ár voru lið­in frá skiln­aði þeirra þeg­ar Sæ­marks-mál­ið, sem snýr að um­fangs­mikl­um skattsvik­um Sig­urð­ar, komst upp.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár