Margt annað hefur fundist athugunarvert við söluna. Ferlið var falið og óljóst, erlendir skyndigróðasjóðir fengu að kaupa, sem og dæmdir og ódæmdir hrunverjar, gamla góða strákaklíkan varð enn og aftur ofan á, salan virðist þannig hafa verið ein stór og baneitruð gamaldags karla-lumma og þeir sem sáu um hana fengu stórar upphæðir í sinn vasa en létu það þó ekki nægja heldur keyptu sjálfir í bankanum fyrir þau ofurlaun! Ég endurtek: Sölustjórarnir létu ríkið borga sér fyrir að kaupa hlut þess í bankanum.
Að mínu mati stendur þó þetta upp úr: Fjármálaráðherra seldi föður sínum eftirsóttan hlut í Íslandsbanka með afslætti, sem er nánast eins og að selja sjálfum sér hlutinn, því ekki mun ólíklegt að sonur erfi föður þegar þar að kemur. Samt sem áður hefur nánast enginn opinber aðili bent á hið augljósa nema Stundin og Kjarninn og siðfræðingurinn Henrý Alexander Henrýsson í Fréttablaði dagsins, auk okkar, maraþontuðaranna á Facebook.
Þess vegna þessi grein hér.
Stjórnarandstaðan hefur fókuserað á önnur atriði, fréttamenn hafa ekki gert úr þessu ákveðna spurningu í sjónvarpsviðtölum við fjármálaráðherra og forsætisráðherra, og dálkahöfundar dagblaðanna einblína á eitthvað allt annað. Erum við Íslendingar orðnir svo samdauna spillingunni og frændhyglinni (í þessu tilviki sjálfshygli) að við teljum þetta atriði varla fréttnæmt?
Það skiptir engu máli þótt ráðherrann segist ekki hafa vitað af kaupunum fyrr en eftir á, það skiptir engu máli þótt hann fjarlægi sig frá ferlinu með „armslengd“ sinni, allt þetta dæmi var á hans könnu og hans ábyrgð. Hann getur heldur ekki sannað fyrir okkur að hafa ekki vitað af kaupum föður síns.
Staðan er einfaldlega sú að fjármálaráðherra Íslands seldi pabba sínum hluta af Íslandsbanka. Það skiptir engu hve stór sá hlutur er og það skiptir engu hvað ráðherrann segir eftir á, gjörningurinn er afstaðinn, spillingin blasir við, og vanhæfni sú er afsagnarverð. Feðgarnir stóðust ekki sjálftökufreistinguna. Bjarni Benediktsson hefur þannig tryggt að í Íslandssögunni munu þessi orð alltaf fylgja honum: Hann seldi pabba ríkisbankann. Því sagan sigtar hismið frá, lagatækni jafnt sem formsatriði, og þá stendur þetta eftir skýrt og klárt: Fjármálaráðherrann bar ábyrgð á sölunni og seldi fjölskyldu sinni ríkiseigu á afslætti.
Hér fengum við semsagt einn af hátindum íslenskrar spillingarsögu.
Reynum að fá smá fjarlægð á þetta með því að stilla þessu svona upp: Pútín seldi nýrri eiginkonu sinni stóran hlut í Rússlandsbanka. Viktor Orban seldi syni sínum gamla gosverksmiðju sem enn var í eigu ríkisins. Ramzan Kadyrov seldi föður sínum gamla ríkisbankann í Grosní. Allar slíkar fyrirsagnir (sem eru skáldaðar af mér) mynda augljós hugrenningatengsl.
Ég bið ykkur, kæru landsmenn, verum ekki svo samdauna eilífðarspillingu íslenskrar stjórnmálastéttar að við látum okkur nægja að yppa öxlum og sættum okkur við að ráðherrann sitji áfram. Ég trúi því ekki að ríkisstjórnin sætti sig við þetta, ég trúi því ekki að VG og Framsókn sjái ekki alvarleika málsins, ég trúi því ekki að Sjálfstæðismenn sætti sig við formann sem er svona blindur á eigin græðgi.
Í Hruninu voru menn dæmdir fyrir að taka út stórar fjárhæðir korteri áður en bankarnir féllu. Hér eru menn að kaupa í banka á undirverði áður en hann tekur flugið á mörkuðum.
Í einkavæðingunni fyrri, þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, færðu stórglæframönnum þjóðarbankana á silfurfati, var talað um að nýir eigendur ættu að vera í góðu talfæri við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Í þessari einkavæðingu er það talfæri orðið að blóðtengdu sambandi föður og sonar. Í næstu einkavæðingu verður þess sjálfsagt krafist að nýir eigendur bankans verði í sömu nærbuxum og fjármálaráðherra flokksins.
Hverjum datt annars í hug að treysta Sjálfstæðisflokknum til að selja banka, eftir afrek hans frá því fyrir hrun? Var það ekki eins og að biðja refinn að ferja fyrir okkur nýjan sætabrauðsdreng yfir fljótið? Það sem Sjálfstæðisflokkurinn kann best er að gefa sínum mönnum tækifæri til að misnota þjóðina, hvort sem það er í formi laxeldisleyfa, kvótakerfis, rafmagnssölu á N1 eða bankasölu. Íslenska þjóðin er enda svo smá að þetta er eina leiðin til að græða á Íslandi; að láta flokkinn redda sér blóðsuguplássi á þjóðarlíkamanum.
Og nú hefur sú langa saga fengið flottan tind: Hann seldi sínum bankann okkar. Og hlýtur fyrir það að segja af sér.
Enhverstqðar varða stolnr penigar að vera eða hvað .
Er ennhver að tuða sem þagga þarf niður í
Eða er hann kanski undanþeigin maraþon tuðar af því hann kann að halda á penna eða kanski bara heldur það.
Margur heldur mig sig
ALLIR ættu að lesa bókina "Hinir ósnertanlegu" !!!!
http://herdubreid.is/hinir-osnertanlegu/
Allir ættu að mæta á mótmælin "BURT MEÐ ÓLÍGARKA & SPILLINGU"
á morgun laugardag á Austurvelli kl. 14 !!!