Þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust þess í dag að Sigurður Ingi Jóhannson innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins kæmi fyrir Alþingi og gerði grein fyrir máli sínu, er varðar rasísk ummæli sem hann lét falla í liðinni viku. Forseti Alþingis varð ekki við því. Ekki hefur borist formleg kvörtun til forsætisnefndar Alþingis vegna hugsanlegs brots Sigurðar Inga á siðareglum þingmanna.
Sigurður Ingi játaði í gær að hafa haft óviðurkvæmileg orð um Vigdísi Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, í boði Framsóknarflokksins síðastliðinn fimmtudag. Áður hafði Vigdís birt yfirlýsingu um að Sigurður Ingi hefði viðhaft mjög særandi orðfæri. Samkvæmt heimildum Stundarinnar vísaði Sigurður Ingi til Vigdísar sem „þeirrar svörtu“.
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, fór fram á að ræða fundarstjórn forseta Alþingis við upphaf þingfundar í dag. Vakti hún þar máls á því að Sigurður Ingi hefði orðið uppvís að hegðun sem væri „ólíðandi fyrir ráðherra í ríkisstjórn og formann stjórnarflokks.“ Hann hefði farið undan í flæmingi aðspurður um málið og neitað að svara því með hvaða hætti hann hygðist axla ábyrgð.
Halldóra benti á að til stæði að ræða á Alþingi fjármálaáætlun þar sem Sigurður Ingi ætti að vera viðstaddur og svara fyrir sín málefnasvið. „Það gengur ekki, forseti, að Alþingi haldi bara áfram eins og ekkert hafi í skorist, enda starfar ríkisstjórnin í umboði meiri hluta þingsins. Ég fer því fram á að ráðherra komi fyrir þingið, geri grein fyrir máli sínu í yfirlýsingu samkvæmt 61. grein þingskapa og í kjölfarið gefist þingmönnum kostur á að eiga orðastað við ráðherra. Ráðherra verður að gera hreint fyrir sínum dyrum gagnvart þinginu og almenningi áður en lengra er haldið.“
„Við hér inni hljótum að gera skýlausa kröfu um að hann svari fyrir framgöngu sína en sýni ekki fjölmiðlum bara afturendann á sér“
Þingmenn allra stjórnarandstöðuflokkanna tóku undir með Halldóru. „Við hér inni hljótum að gera skýlausa kröfu um að hann svari fyrir framgöngu sína en sýni ekki fjölmiðlum bara afturendann á sér,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar í umræðunum.
Forseti vildi ekki breyta dagskrá
Birgir Ármannsson forseti Alþingis tók þá til máls og greindi frá því að hann hefði átt fundi með þingflokksformönnum um dagskrá þingsins. Ósk um að Sigurður Ingi kæmi fyrir þingið og gerði grein fyrir máli sínu hefði ekki komið þar fram og því hyggðist forseti ekki gera breytingar á dagskránni.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar voru ekki sáttir við þá afstöðu Birgis og ítrekuðu eindregið stuðning sinn við kröfu Halldóru. „Ég set spurningamerki við það hversu einlæg og hversu ærleg sú afsökunarbeiðni var sem hæstvirtur ráðherra setti fram þegar hann gerði það í því samhengi að hann var kominn algjörlega upp að vegg. Það er nauðsynlegt að þetta samtal fái að eiga sér stað hér inni í þessum sal,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingkona Viðreisnar.
Bjarni sagði rangt farið með orð sín
Þá var á það bent í ræðum þingmannanna Sigmars Guðmundssonar, áðurnefndra Jóhanns Páls og Þorbjargar og Andrésar Inga Jónssonar, að samráðherrar Sigurðar Inga, þau Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefðu ekki treyst sér til að lýsa yfir stuðningi við Sigurð Inga þegar Ríkisútvarpið spurði þau út í málið. Var meðal annars verið að vísa til ummæla Bjarna þegar hann var spurður hvort hann teldi Sigurði Inga sætt í embætti vegna málsins. „Það er alfarið mál þess sem á í hlut hverju sinni að leggja mat á það og ég ætla ekki að leggja neitt á mig til þess að hjálpa til við það,“ sagði Bjarni í viðtali við Ríkisútvarpið.
„Ef þú styður ríkisstjórnina sem ráðherra þá segirðu: Já, mér finnst hann ekkert eiga að segja af sér“
„Er ástandið í stjórnarráðinu orðið það viðkvæmt, eins og endurspeglast í því til dæmis að formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hann er spurður hvort hann styðji innviðaráðherra, segir ekki já. Það er eina svarið sem er í boði þegar þú ert ráðherra í ríkisstjórn. Ef þú styður ríkisstjórnina sem ráðherra þá segirðu: Já, mér finnst hann ekkert eiga að segja af sér,“ sagði Andrés Ingi í umræðunum um fundarstjórn forseta.
Bjarni kom þá í ræðustól og sagði rangt farið með orð sín þegar því hafi verið haldið fram að hann hafi neitað að veita Sigurði Inga stuðningsyfirlýsingu. „Þetta er bara alrangt. Það sem ég var að bregðast við var beiðni fréttmanns um það að taka afstöðu með því hvort að annar stjórnmálamaður ætti að segja af sér. Það er bara mín skoðun að það fer ekkert sérstaklega vel á því að einn stjórnmálamann segi annan ætti að segja af sér.“
Umræðum um fundarstjórn forseta lauk án þess að orðið yrði við kröfu um að Sigurður Ingi mætti fyrir þingið.
Fyrr í dag hafði Stundin samband við Birgi Ármannsons þingforseta og innti hann eftir því hvort kvörtun vegna hugsanlegs brots Sigurðar Inga á siðareglum þingmanna hefði komið inn á borð forsætisnefndar. Svaraði Birgir því til að svo væri ekki, svo honum væri kunnugt um.
Athugasemdir (1)