Stefnt er að því að skila niðurstöðum rannsóknar á því hvort börn sem vistuð voru á meðferðarheimilinu Laugalandi, áður Varpholti, hafi verið beitt ofbeldi eða sætt illri meðferð í lok aprílmánaðar. Verða þá liðnir 14 mánuðir frá því að Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála var falið að framkvæma þá rannsókn. Áður hafði verið gefið út að stefnt væri að verklokum um síðastliðin áramót. Kolbrún Þorsteinsdóttir, ein kvennanna sem vistuð var á meðferðarheimilinu, segir að það að greina frá ofbeldinu sem hún var beitt þar hafi orsakað verulega áfallastreitu hjá henni og hið sama megi segja um fleiri kvennana. Hin langa bið eftir niðurstöðu rannsóknarinnar hafi aukið enn frekar á þá vanlíðan.
Í svari frá Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála við fyrirspurn Stundarinnar um framgang rannsóknarinnar kemur fram, þegar spurt var um ástæðu þeirra tafa sem orðið hafa á skilum, að rýning og greining þeirra gagna sem aflað var við rannsóknina hafi verið umfangsmeiri en gert var ráð fyrir í verkáætlun. Það skýri þær tafir sem orðið hafi á að niðurstöðu sé skilað.
Gagnrýna skeytingarleysi í sinn garð
Í samtölum við fjölda þeirra kvenna sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu gagnrýna þær harðlega það sem þær upplifa sem skeytingarleysi af hálfu Gæða- og eftirlitsstofnunarinnar í þeirra garð, sem og skort á upplýsingagjöf. Þannig hafi þeim ekki verið tilkynnt um það með nokkrum hætti að skil á niðurstöðum myndu tefjast svo sem orðið er og ljóst má vera. Svör við fyrirspurnum hópsins hafi verið snubbótt og óskýr og ekkert frumkvæði hafi verið haft að því að miðla upplýsingum um gang rannsóknarinnar til þeirra.
„Þetta gerði taugakerfinu mínu eitthvað, minnstu áföll valda mér mikill vanlíðan, líkamlegum verkjum“
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála neitar að upplýsa um við hverja tekin voru viðtöl við vinnslu rannsóknarinnar. Stundin óskaði eftir svörum um hversu margar fyrrverandi skjólstæðinga meðferðarheimilisins hefði verið rætt, við hversu marga fyrrverandi starfsmenn og hversu marga aðra aðila og hver tengsl þeirra hefðu verið við starfsemi Laugalands. Við engum af þessum spurningum, sem Stundin hefur raunar áður lagt fram, fengust svör.
Engar tillögur að aðgerðum í skýrslunni
Niðurstöðum rannsóknarinnar verður skilað skriflega til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Ekki verða settar fram neinar tillögur að aðgerðum í skýrslunni að því er segir í svörum Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Þar verður því til að mynda ekki lagt til að fram fari lögreglurannsókn teljist tilefni til. Ekki verður heldur lagt til að konurnar verði beðnar afsökunar ef niðurstaða rannsóknarinnar verður sú að konurnar hafi verið beittar ofbeldi og ekki verður gerð tillaga um að þeim verði greiddar bætur ef svo er. Einungis var kannað hvort og í hvaða tilfellum börn hafi sætt ofbeldi eða illri meðferð á meðferðarheimilinu, auk þess sem varpa á ljósi á meðferðarstarfið og eftirlit með því.
Kolbrún Þorsteinsdóttir er ein sex kvenna sem stigu fram í Stundinni, í janúar 2021, og lýstu því ofbeldi sem þær hefðu verið beittar meðan þær voru vistaðar á Laugalandi. Kolbrún segir að eftir að hún steig fram hafi henni liðið eins og sigurvegara, verið stolt af sjálfri sér fyrir að segja frá ofbeldinu. Eftir því sem frá hafi liðið hafi það hins vegar haft veruleg neikvæð áhrif á hana. „Þetta gerði taugakerfinu mínu eitthvað, minnstu áföll valda mér mikill vanlíðan, líkamlegum verkjum þar með talið. Þetta hefur undið þannig upp á sig að ég hef glímt við mjög mikla áfallastreitu síðustu mánuði. Ég geri ráð fyrir að þurfa að minnka við mig vinnu og reikna með að hafa samband við VIRK starfsendurhæfingu og leita eftir aðstoð þar. Ég er að bíða eftir að komast til sálfræðings sem er sérhæfður í áföllum sem birtast með þessum líkamlegu einkennum.“
„Við hefðum allar þurft á sálfræðimeðferð að halda“
Hluti kvennanna sem vistaðar voru á Laugalandi hafa myndað með sér félagsskap á Facebook og segir Kolbrún að hún sé ekki sú eina sem glími við áfallastreitu í kjölfar þess að umfjöllun um málið hófst. Hin langa bið eftir niðurstöðu rannsóknarinnar hafi aukið á vanlíðan þeirra. „Mér finnst afskaplega skrýtið hversu lítið hefur verið gert í framhaldinu af því að við vorum boðaðar í viðtöl hjá rannsóknarnefndinni, það hefur engin eftirfylgni orðið, aldrei verið haft samband og engu skeitt um líðan mína eða okkar. Það hefur aldrei staðið til boða að við fengjum sálræna aðstoð, sem heldur betur hefði verið þörf á eftir að hafa rifið ofan af þessum sárum. Við hefðum allar þurft á sálfræðimeðferð að halda. Ég upplifi þetta eins og að fólki sé alvega sama, eða eins og fólki líði eins og við höfum verið að kvarta yfir engu. Við erum allar stelpurnar að spyrja okkur þessarar spurningar: Skiptir þetta engu máli?“
Athugasemdir