Úkraínumenn sökktu í gær stærsta og öflugasta herskipi sínu, freigátunni Hetman Sahaidachny. Skipið hafði legið til viðgerða í höfninni í borginni Mykolaiv sem er við Svartahaf. Úkraínumenn höfðu lagt allt kapp á að ljúka viðgerðum síðustu vikurnar þegar spennan fór vaxandi við liðssafnað Rússa á landamærunum og á Svartahafi.
Skipið var af svonefndri Krivak-gerð (nánar tiltekið Krivak III) en Sovétmenn hófu byggingu á þeim á sexunni og var fyrsta skipið í notkun 1968. Þetta eru 3.500 tonna skip, ætluð til kafbátaveiða og til að fylgja öðrum stærri herskipum.
Smíði hófst 1991 og átti skipið þá að heita Kirov en þegar Sovétríkin hrundu tók nýstofnaður floti sjálfstæðrar Úkraínu við smíðinni og gaf því nýtt nafn. Hetman Sahaidachny var úkraínskur kósakkaforingi sem barðist gegn bæði Tyrkjum og Rússum í upphafi 17. aldar.

Skipið var tekið í notkun 1993 og var fyrsta herskip Úkraínu og mikils metið sem slíkt. Það var enn stærsta herskip hins smáa en stolta úkraínska flota — þangað til í gær.
Þegar nágrannaborgin Kherson var að falla í hendur Rússa sáu Úkraínumenn að stórhætta var á að rússneskar hersveitir næðu einnig Mykolaiv og Hetman Sahaidachny félli í hendur þeirra. Þá var skipinu sökkt fremur en að það félli í hendur Rússa.
Alls voru smíðaðar um 40 freigátur af þessari gerð og voru þær síðustu teknar í notkun 2012, þrjár talsins og hafa þær allar bækistöðvar á Svartahafi. Þær eru því vafalaust í þeirri flotadeild sem beið fyrir utan Mykolaiv eftir því hvort Hetman Sahaidachny næði að komast út til að berjast við ofureflið.
Og kannski voru þær líka í rússneska flotanum sem réðist að herflokki Úkraínumanna á Snákaeyju á dögunum en var sagt að „fara til fjandans“ eins og frægt varð.
Varnarmálaráðherra Úkraínu, Oleksii Reznikov, sagði á Facebook:
„Skipstjórinn fyrirskipaði að botnlokur skipsins yrðu opnaðar svo að Hetman Sahaidachny [...] félli ekki í hendur óvinarins. Það er erfitt að ímynda sér erfiðari ákvörðun fyrir hugrakkan stríðsmann og allan hópinn hans. En við erum að byggja nýjan flota. Nýtískulegan og öflugan. Mikilvægast nú er að standa í lappirnar.“
Hér að neðan má sjá Hetman Sahaidachny á siglingu fyrir nokkru síðan.

Eru kafbátar veiddir á línu, botnvörpu, í net eða á annan hátt?