Jónas Tryggvason, framkvæmdastjóri sem býr í Moskvu og sem hefur áratugalöng tengsl við Rússland og Sovétríkin sálugu, segist skilja af hverju Rússland réðst inn í Úkraínu. Hans skoðun er að Úkraína hafi gengið alltof langt í því að „pikka“ í rússneska björninn, eins og hann orðar það, í landamærahéruðunum Donetsk og Lúgansk. Hann segir, í viðtali við Stundina, að „mælirinn“ hafi einfaldlega verið orðinn fullur.
Tekið skal fram og það undirstrikað að ýmislegt af því sem Jónas segir í viðtalinu á ekki við rök að styðjast út frá öðrum heimildum og gögnum sem liggja fyrir opinberlega. Sýn Jónasar svipar hins vegar væntanlega til þeirra skoðana sem margir stuðningsmenn Pútíns í Rússlandi hafa mögulega á stríðinu í Úkraínu og veitir hún því innsýn í hugarheim þeirra. Jónas er einn af fáum Íslendingum sem stigið hefur fram opinberlega og tjáð slíkar skoðanir og er hann vel meðvitaður um það að slíkar skoðanir heyrist ekki oft hér á landi.
Jónas, sem stýrir lyfjafyrirtæki í Moskvu, telur að Rússland hafi ekki lengur getað látið bjóða sér að ríkisstjórnin í Kænugarði kúgaði rússneskumælandi íbúa í þessum héruðum: „Ég held að ég verð að segja þetta svona, það kannski hljómar svolítið gróft, en þeir gátu ekki lengur lokað augunum fyrir því sem var í gangi. Þeir gátu ekki lengur látið níðast á 4 milljónum sinna bræðra, meðbræðra, sem voru búnir að vera í herkví þennan tíma. Gátu það bara ekki lengur. Það varð eitthvað að gera,“ segir Jónas en í aðdraganda innrásarinnar í Úkraínu viðurkenndi Rússland sjálfstæði þessara tveggja héraða sem verið hafa hluti af Úkraínu síðastliðna áratugi.
Engar heimildir um þjóðarmorð
Jónas vill meina, rétt eins og ríkisstjórn Rússlands í Moskvu, að stjórn Úkraínu hafi verið að fremja þjóðarmorð á rússneskumælandi fólki í Donetsk og Lúgansk: „Úkraína er búin að ætla að taka þessi lýðveldi til baka með hervaldi. Og það hefði orðið meira „genocide“, eða þjóðarmorð, því það er búið að vera að murka úr þessu fólki lífið í 7 ár.“
Jónas gefur ekki mikið fyrir fréttir þess efnis að Rússland hafi verið að kynda undir ófriði í héruðunum tveimur síðastliðin ár, meðal annars með því að senda þangað hermenn. Hann segir að það sem er í gangi sé að stórveldin, Bandaríkin og bandamenn þeirra séu að „leika sér“ í Úkraínu: „Það eru búnir að vera evrópskir og bandarískir hernaðarsérfræðingar að aðstoða Úkraínuher við árásirnar á þessi lýðveldi, ekki gleyma því. [...] Rússar voru já, þú ert að vitna í hermenn, þeir hafa alltaf neitað því að að hafa sent hermenn, en hins vegar sendu þeira alltaf hernaðarsérfræðinga til að þjálfa þetta fólk. Það hefur alltaf verið opinbera skýringin en það getur verið að það hafi verið hermenn líka.“
Fjölmargir aðilar, meðal annars bandarísk stjórnvöld, hafa sagt að sú fullyrðing að Úkraínumenn fremji þjóðarmorð á rússneskumælandi íbúum Úkraínu sé röng og sé hluti af upplýsingastríði stjórnvalda í Moskvu: „Það eru engar trúverðugar heimildir um að Rússar eða rússneskumælandi fólki sé ógnað af úkraínsku ríkisstjórninni,“ segir meðal annars á heimasíðu bandaríska utanríkisráðuneytisins þar sem einnig kemur fram að staðhæfingin sé liður í áróðri rússneskra stjórnvalda.
Þá hefur sérfræðingur um málefni Austur-Evrópu, Nina Jankowicz, sagt við bandaríska fjölmiðla að engar sannanir séu fyrir slíku þjóðarmorði: „Við höfum engar sannanir fyrir árasum Úkraínumanna, eða eins og Pútín orðaði það í ræðu sinni um daginn „þjóðarmorði“ sem Úkraínuher ber ábyrgð á.“
„Nei, það er ekki alveg gróft.“
Endurómar sýn Vladimírs Pútín
Sú sýn og þær skoðanir á Rússlandi og innrásinni í Úkraínu sem Jónas lýsir í viðtali við Stundina eru að flestu leyti hliðhollar Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Túlkanir Jónasar enduróma að mörgu leyti þær skýringar sem stjórn Pútíns hefur gefið fyrir innrásinni, meðal annars þá að forseti Úkraínu, Volodímír Selenskí, sé leppur úkraínskra auðmanna og að nýnasistar séu orðnir valdamiklir í vesturhluta landsins og að það þurfi að afnasistavæða landið.
Aðspurður um hvort þessi skýring Pútíns á innrásinni sé ekki nokkuð gróf segir Jónas: „Nei, það er ekki alveg gróft. Það er svolítið mikið til í þessu. Vegna þess að það er mikill nýnasismi að koma upp aftur, sérstaklega á vestursvæðinum þar sem eru hersveitir sem eru nasistar. Þær eru gegn samkynhneigðum, transfólki, fólki sem trúir á Íslam. Þeir fara alla leið, eru svona algerir nasistar, þetta eru herflokkar. Þeir eru fjármagnaðir af ríkismönnunum, ólígörkunum í Úkraínu. Þetta er svona einkaher að vissu leyti. En Zelensky hefur þeirra stuðning. Þetta eru svona varðhundarnir hans. Sem er mjög líka trist því hann er af gyðingaættum.“
Staðhæfingarnar um nasistavæðingu Úkraínu ríma heldur ekki við veruleikann. Eitt dæmi sem hefur verið tekið um þetta er að í síðustu þingkosningum í Úkraínu, árið 2019, fékk öfgasinnaði þjóðernisflokkur landsins, Svoboda einungis 2,25 prósent atkvæða í landinu og kom engum manni á þing. Stuðningur við Svoboda í Úkraínu hefur í raun minnkað mjög á síðasta áratug þar sem flokkurinn fékk rúm 10 prósent atkvæða í þingkosningunum árið 2012.
Sjálfur hefur Zelensky sagt um þessa staðhæfingu Pútíns að hún sé ósönn. Hann er lýðræðislega kjörinn forseti Úkraínu - fékk 73 prósent atkvæða í forsetakosningunum árið 2019 - og er ekki yfirlýstur nasisti: „Ykkur er sagt að við séum nasistar. En hvernig getur þjóð sem missti 8 milljónir manna í stríðinu við nasista stutt nasisma? Hvernig get ég verið nasisti?“ Kosningasigur Zelensky átti sér stað sama ár og öfgaþjóðernissinnaflokkur landsins beið afhroð í þingkosningum.
Þetta tvennt, hið meinta þjóðarmorð á rússneskumælandi fólki í héruðunum tveimur sem nú hafa lýst yfir sjálfstæði, og svo hin meinta nasistavæðing Úkraínu, stemma ekki við raunveruleikann samkvæmt þeim heimildum sem liggja fyrir.
Miðað við fyrirliggjandi heimildir þarf því að leita annað eftir skýringum á innrás Pútíns í Úkraínu.
Eru ekki að koma sér upp kjarnorkuvopnum
Annað sem Jónas segir sem stemmir ekki við aðrar heimildir er sú réttlæting Rússa fyrir innrásinni að Úkraínumenn séu að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Jónas segir um þetta að þetta hafi verið síðasta kornið sem fyllti mælinn hjá Rússum: „Nú lýsir Úkraína því yfir á München-ráðstefnunni um öryggi Evrópu að þeir ætli að koma sér upp kjarnavopnum. Þetta var held ég síðasta kornið. Þá sagði Pútín hingað en ekki lengra.“ Eftir kalda stríðið og fall Sovétríkjanna afhentu Úkraínumenn kjarnorkuvopn sín til Rússlands og hefur ekki ráðið yfir slíkum vopnum síðan.
Þessi staðhæfing er sambærileg við það sem rússnesk yfirvöld hafa sagt en utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, hélt þessu meðal annars fram fyrr í vikunni.
Samkvæmt Alþjóðlegu kjarnorkumálastofnuninni (IAEA) eru Úkraínumenn hins vegar ekki að reyna að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Samkvæmt yfirmanni stofnunarinnar, Rafael Grossi, er tilgangur kjarnorkuáætlunar Úkraínu „fullkomlega friðsamur“, eins og það er orðað í frétt Wall Street Journal.
„Ég get alveg sagt þér það að hann hefur rosalega mikinn stuðning í Rússlandi og í kerfinu.“
Segir Rússa standa með Pútín
Eitt af því sem Jónas segir, aðspurður um hvort að Rússar muni rísa upp og andmæla innrásinni í Úkraínu til að reyna að binda enda á hana, er að þeir muni þvert á móti fylkja sér á bak við hana. Þar af leiðandi muni þessi innrás ekki heldur leiða til þess að Pútín missi völdin í landinu. „Ég held að það sé alveg klárt. Rússarnir eru rosalega mikið þannig að þeir standa saman, sérstaklega þegar illa gengur eða erfitt er ástand þá standa þeir rosalega vel saman.“
Hann telur hins vegar að gagnrýni á Pútín kunni að koma fram eftir að innrásinni er lokið: „Þá kemur krítíkin upp en hún gerist ekki meðan að stríðsástandið er. Það er mjög djúpt í þeim. Það myndi vera talið landráð, það er mjög djúpt í þeim að ekki gagnrýna stjórnvöld, ekki gagnrýna herinn þegar það eru hernaðarátök. Það er hægt að gagnrýna eftir á en ekki á meðan,“ segir Jónas.
Hann segir einnig að alltof mikið sé fjallað um stjórnarandstæðinga eins og Alexei Navalny í vestrænum fjölmiðlum og að slíkir einstaklingar séu í algjörum minnihluta í landinu og endurspegli ekki vilja meirihluta þjóðarinnar. Navalny situr nú í fangelsi í Rússlandi vegna stjórnmálaþátttöku sinnar. Eitrað var fyrir honum árið 2020 og var hann lengi á sjúkrahúsi vegna þessa. Óljóst er hver eitraði fyrir honum en Sameinuðu þjóðirnar hafa sagt að rússnesk stjórnvöld beri ábyrgð á tilræðinu. „Þessi minnihluti er svo ofboðslega lítill. Það er alltaf verið að reyna að blása hann upp hérna á Vesturlöndum. Maður sér það stundum eins og með Navalny og einhverja svona náunga. Þetta er tilbúið fólk, það er búið að fabrikera það svolítið. Það hefur ekki vægi. Það eru gagnrýnar útvarpsstöðvar, þú getur líka horft á BBC og CNN og allt það í Rússlandi en það er hins vegar, og það er ekki stór hópur sem er þarna. Þannig að það verður ekki uppreisn,“ segir Jónas um viðbrögð almennings við innrásinni í Úkraínu en sagðar hafa verið frétttir um fjöldamótmæli gegn stríðsrekstrinum og handtökum vegna þeirra.
Fréttir hafa einnig verið sagðar um óeiningu og gagnrýni á Pútín innan úr rússneska stjórnkerfinu og að ekki sé endilega allir næstráðendur fylgjandi aðgerðum hans í Úkraínu. Jónas segir hins vegar að stuðningur við Pútín sé mjög mikill í kerfinu í Rússlandi: „Ég get alveg sagt þér það að hann hefur rosalega mikinn stuðning í Rússlandi og í kerfinu. Það verða ekki nein upphlaup þar.“
Hvorki rússneska fólkið né rússneskir ráðamenn munu verða til þess að binda endi á innrásina í Úkraínu að mati Jónasar.
Samkvæmt fjölmörgum fréttum er stuðningur Rússa við Pútín og stríðsreksturinn í Úkraínu hins vegar ekki alveg eins blindur og Jónas segir að hann sé.
Jónas: Stríðið markar ekki endalok Pútíns
Aðspurður um hvort hann telji að stríðið við Úkraínu muni því ekki marka endalok Pútíns, eins og ýmsir fræðimenn og greinendur hafa sagt, segir Jónas að hann sé ekki á því að það verði banabiti Pútíns á valdastóli. „Ég er ekki sammála því. Það er ekki þetta sem á eftir að gera útslagið. Pútin er náttúrulega búinn að vera lengi við völd. Það eru komin 22 eða 23 ár síðan hann kemur til valda. [...] Rússarnir vita ekki hvað gerist, hver kemur í staðinn fyrir hann. Þeir eru ekki alveg tilbúnir að sleppa honum. Það má ekki gleyma því að Pútín hefur gert rosalega margt fyrir Rússland. Rússland, þegar hann tekur við 1999, var ónýtt Rússland. Niðurbrotið, skemmt, vargöld, þjófnaður, spilling, glæpir, mjög dapurt ástand. Á árunum 1995-1999 er ömurlegasta ástandið í Rússlandi. Fyllibyttan Boris Jeltsín var forseti, engin stjórn á málum. En Pútín er búinn að byggja upp Rússland í þessi tuttugu ár, mjög markvisst. Og Rússland í dag, fyrir innrásina, eins og ég upplifi í landið í byrjun febrúar á þessu ári, er það besta Rússland sem hefur verið í mannkynssögunni, í sögu Rússlands. Það hefur aldrei verið betra ástand. Lífsafkoma fólks er góð og fátækrastig er mjög lágt. Innkoma, öryggi, fjárfestingar, uppbygging, menntun, heilbrigðiskerfi. Covid dæmið, þeir tóku mjög þétt á því. Þetta er þjóðfélag sem getur, þetta er þjóðfélag sem kann, þetta er þjóðfélag sem er búið að byggja upp til að vera sjálfbært,“ segir hann.
„Og þeir segja þetta sjálfir: Rússland þarf harða hendi.“
Kaupir ekki sögur um aðkomu Pútíns að morðum
Jónas telur því að Rússland hafi þurft á Pútín að halda á sínum tíma vegna þess að upplausn og glundroði ríkti í landinu eftir fall Sovétríkjanna og valdatíð Boris Jeltsín. Hann segir að það Rússland sem Pútín hafi byggt upp síðastliðin rúm 20 ár sé „besta Rússland“ sögunnar þrátt fyrir að hann telji jafnframt aðspurður að landið sé ekki lýðræðisríki í vestrænum skilningi. Jónas telur að Rússland sé, á þessum tímapunkti, ekki tilbúið til þess að verða lýðræðisríki eins og það er þekkt á Vesturlöndum. „Við skulum segja að Rússlandi í dag sé eins nálægt því að vera lýðræðisríki eins og það hefur nokkuð tímann verið.“
Hann tekur ekki undir ýmis konar gagnrýni sem komið hefur fram á Pútín í gegnum árin. Til dæmis efast hann um að hann eigi þátt í morðum á fólki sem hefur gagnrýnt stjórnarhætti hans. Meðal þessa fólks sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum er til dæmis fyrrverandi njósnarinn Alexander Litvinenko, blaðakonan Anna Politkovskaya og lögmaðurinn Sergey Magnitsky.
Þetta fólk var allt gagnrýnið á Vladimír Pútín og öll voru þau myrt án þess að það hafi nokkru sinni verið upplýst hver bar endanlega ábyrgð á dauða þeirra. „Ég ætla ekki alveg að kaupa þær sögur,“ segir Jónas þegar hann er spurður að því hvort frjálsir fjölmiðlar og frjáls gagnrýni á valdhafa sé ekki eitt af einkennum lýðræðissamfélaga og hvort Pútín stjórni ekki landinu með harðri hendi og hafi verið sagður bera ábyrgð á þessum morðum.
Segir Rússland þurfa harða hendi
Að mati Jónasar þá þarf Rússland harðan leiðtoga sem hefur stjórn á landinu. Veikir leiðtogar hafi aldrei gert Rússlandi gott líkt og hinn harði Pútín hafi gert síðastliðna tvo áratugi. „En hann hefur hins vegar stjórnað með harðri hendi. Það er rétt. Þeir hafa alltaf sagt líka Rússarnir að Rússland þarf harða hendi. Rússland hefur aldrei komist á neinn skrið nema þegar hefur verið harður og voldugur stjórnandi. Pétur mikli, Katrín mikla. Síðan koma hinir keisararnir á eftir, Alexander og Nikolai og þeir eru slakir, þeir eru svona bóhemar og missa þetta alveg í algjört klúður og þá verður byltingin. Svo kemur aftur hörð hendi, Lenín var bara í stuttan tíma en þá kemur Stalín og það var hörð hendi í langan tíma. Þá voru Sovétríkin eða Rússland eða Sovétríkin í heildina mjög sterk, þau byggðu upp úr vesöld og fáfræði og bændasamfélagi upp í að vera mjög öflugt iðnaðarsamfélag. Síðan kemur aftur slök hendi í lok Sovéttímans og Gorbatsjov - margir Rússar fyrirlíta Gorbatsjov enn þann dag í dag, enda þótt hann hafi verið gerðar hetja hér fyrir vestan - þá fyrirlíta þeir hann fyrir að hafa klúðrað Sovétríkjunum, fyrir að hafa eyðilagt það sem var. [...] Aftur harða hendin og slaka hendin. Síðan kemur aftur slaka hendin, Jeltsín og allt þetta rugl og síðan kemur aftur þessi harða hendi sem er Pútín. Og þeir segja þetta sjálfir: Rússland þarf harða hendi.“
Tétsenía og Úkraína: Hvað gerist?
Samtalið við Jónas berst að stríðinu í Tétseníu sem lauk fyrir þrettán árum. Það hófst þegar Tétsenía lýsti yfir sjálfstæði frá Rússlandi og börðust þarlendir aðskilnaðarsinnar við rússneska herinn. Þetta stríð varaði nærri áratug og lauk árið 2009 með því að Rússland hafði betur og tók þarlendur landstjóri, Ramzan Kadyrov, við völdum í landinu. Tétsenía er í dag sambandslýðveldi sem er hluti af Rússlandi ásamt öðrum smáríkjum í Kákásus-fjöllunum eins og Dagestan og Ingustíu.
Kadyrov er dyggur stuðnings- og samverkamaður Vladimírs Pútíns og stýrir landinu í skjóli hans. Ramzan Kadyrov hefur í gegnum árin verið sagður bera ábyrgð á ýmsum voðaverkum, eins og morðum í heimalandinu, sem og aftökunni á blaðakonunni Önnu Politkovskayu. Kadyrov hefur sent hermenn til Úkraínu til að berjast með rússneska hernum.
Þegar stríðið í Tétseníu stóð yfir lagði rússneski herinn höfuðborgina Grosní í rúst. Stríðið í landinu var hið fyrsta sem Vladimír Pútín stýrði sem nýr forseti Rússlands árið 1999. Samkvæmt Jónasi þá hefur samstarf Pútíns og Kadyrov verið til góða fyrir Tétseníu og hann er ekki sammála þeirri söguskoðun blaðamanns að Kadyrov hafi verið settur yfir landið sem leppur Pútíns. „Ég er ekki alveg sammála þessari söguskoðun. [...] Téténía er í dag eitt af framsæknustu héruðum Rússlands. Þeir eru búnir að byggja Grosní upp alveg frá grunni. [...] Innan Téténíu hafa alltaf verið svona klan, svona hópar og Kadyrov kemur úr einum af þessum hóp og þeir voru studdir af Rússunum en þau voru að berjast við aðra hópa. [...] Þetta er búið að vera árhundraða stríð í gangi á milli þessa flokka. En nú er friður á milli þeirra,“ segir Jónas.
Munurinn á Úkraínu og Tétseníu er auðvitað stór þar sem fyrrnefnda landið er sjálfstætt lýðræðisríki sem Rússland réðst inn í á forsendum „þjóðarmorðs“ og „nasistavæðingar“, sem ekki virðast standast skoðun, á meðan Tétsenía var hluti af Rússlandi en þar sem einhverjir hópar vildu sjálfstæði. En hvað telur Jónas að gerist í Úkraínu? Heldur hann að Pútín vilji hertaka landið allt og búa til einhvers konar leppríki úr því þar sem æðsti stjórnandinn verður einhver eins og Kadyrov sem er trúr honum? Geta Rússar rústað Kænugarði eins og Grosní þar til þeir ná markmiðum sínum?
Um þetta segir Jónas: „Ég held ekki. Ég held að leikurinn sé, eins og þeir segja, að afvopnavæða Úkraínu, demilitasera, og afnasistavæða Úkraínu. Það er planið og verja svo Lúgansk og Donetsk að þau verði algerlega sjálfstæð, þau brotna ekki frá, þau fara ekki inn í Úkraínu aftur. Þetta verður gert á einhvern þann hátt að það verða kosningar. Þær verða skipulagðar, þær verða með eftirliti, þær verða gerðar þannig að þær verði löglegar og það verður einhver niðurstaða. [...] En svo verður Úkraína látin í friði eftir það ef hún afvopnavæðist, ef hún lýsir yfir hlutleysi og það verði ekki neinir erlendir herir í landinu.“
Miðað við það sem Jónas telur þá ætlar Pútín ekki að gera Úkraínu að leppríki heldur að stuðla að því að landið verði hlutlaust hernaðarlega. Jónas telur hins vegar að Selenskí verði ekki forseti landsins áfram undir nokkrum kringumstæðum þrátt fyrir að hann sé lýðræðislega kjörinn leiðtogi landsins.
„Þú getur ekki sagt við rússneska björninn: Hættu.“
Jónas: Björninn hættir ekki
Jónas segist aðspurður auðvitað vonast til þess að stríðið í Úkraínu klárist sem fyrst þar sem þessar tvær þjóðir séu „bræðraþjóðir“. Hann segist jafnframt að ljóst sé að einungis tvær leiðir séu mögulegar í þeim efnum: Annað hvort leggi Úkraínumenn niður vopn eða þá að Rússland leggi landið undir sig með hervaldi. Seinni möguleikinn sé eingöngu spurning um tíma því að á endanum þá sigri rússneski herinn því hann sé einfaldlega það sterkur. „Ég er að vonast til, og ég er alltaf bjartsýnismaður, en ég er mikið að vonast til að það verði samið um frið helst sem fyrst. [...] Ég er að vonast til að það verði samið um að þeir leggi niður vopn, lýsi sig sigraða. Það verður bara haldið áfram, það heldur áfram blóðbaðið. Þess vegna er ég virkilega að vonast til að þetta verði stoppað sem fyrst. Þú getur ekki sagt við rússneska björninn: Hættu. Það gengur ekki, þeir munu ekki hætta fyrr en þetta er búið. Úkraína gæti ýtt á takkann í dag, og sagt: Við gefumst upp...“ segir Jónas sem var á heimleið til Rússlands og Moskvu í dag eftir að hafa stoppað í vikutíma á Íslandi.
Skömm af svona fúski Stundarinar.
https://www.youtube.com/watch?v=mYZieB9x_r0
https://www. jacobinmag. com/2022/01/cia-neo-nazi-training-ukraine-russia-putin-biden-nato
Og þótt full langt sé gengið að kalla átökin í Donetsk og Lugansk ,,þjóðarmorð," þá eru nú samt sem áður átök þarna, það er engin lygi:
https://www. mintpressnews. com/under-fire-from-ukraine-everyday-life-in-the-donetsk-peoples-republic/262363/
https://www. osce. org/special-monitoring-mission-to-ukraine/417620
En nasistar lifa líka fínu lífi í Rússlandi. Af hverju helduru annars að Wagner group, sem eru þessir “ráðgjafar” sem Pútín sendir til Úkraínu og annara landa heiti þýsku nafni. Stofnandinn meira að segja með þetta fína nasistatattoo á bringunni. Þannig að ég kaupi það voða lítið að það sé einhver ástæða til innrásar.
Wagner málaliðaherinn virðist mér vera einn af þessum herjum sem hafa verið að spretta upp á undanförnum áratugum ,sem eru laustengdir við stjórnvöld í sínu landi.
Það virðist vera töluvert um þetta og mest kom mér á óvart að lítið land eins og Litháen hefur svona her.
Tilkoma þessara herja virðist stafa af því að á timum vaxandi mannréttinda og allskonar hamlana á aðgerðir ríkisstjórna þykir orðið nausynlegt að hafa svona her til að framkvæma hluti sem ríkisstjórnir mundu komast illa upp með.
Þetta virðist vera raunin með Wagner herdeildina.
Þegar herdeildin lendir svo í vandræðum og er jafnvel stráfelld skapar það engin viðbrögð hjá Rússnesku ríkisstjórninni.
Það sem mér þótti áhugavert er spurningin hvort Rússneska ríkið væri með Nasista í þjónustu sinni.
Mér finnst það frekar ólíklegt.
Þessi herdeild virðist vera hál eins og áll. Hún lætur lítið fyrir sér fara og í raun virðist lítið vitað um hvernig hún er skipulögð.
Það hafa verið skrifaðar nokkrar opinberar skýrslur um hana og þeim virðist bera frekar illa saman.
Í flestum skýrslunum er minst á að þeir gætu verið Nasistar og í sumum er það fullyrt.
En engin af skýrslunum sem ég hef lesið fara neitt nánar út í það ,þó að það hljóti samt a vera töluvert lykilatriði.
Herdeildin hefur að sjálfsögðu sín merki og orður en ég get ekki séð neina tengingu við Nasisma í því.
kannski stafar það af því að ég sé ekki nógu kunnugur táknmáli Nasismans
Tengingin við Þýska tónskáldið og Hitler finnst mér vera mjög veik.
Þýsku sérsveitirnar voru frábærlega vel heppnaðar stofnanir frá hernaðarlegu sjónarmiði.
Þó að Wagner hersveitin sýni aðdáun á þeim þarf það ekki endilega að þýða að þeir deili hugmyndafræðinni ,heldur stafi áhuginn af bardagatækni og miskunnarlausri framgöngu þessa þýsku sveita.
Þýsku sveitirna voru reknar áfam af hugmyndafræðinni um að þeir væru af yfirburða stofni og þörfinni til að hreinsa út óæskilega einstaklinga og hópa sem stóðu í vegi þeirra eða voru ónauðsynlegir.
Ég fæ á hinn bóginn ekki séð að Wagner hafi neina hugmyndafæði
Ég get ekki séð annað en að Wagner stjórnist aðeins af gróðasjónarmiðum og óeðlilega miklum áhuga á hernaði.
Ég fæ ekki séð að þeir geri neinn mannamun . Hver sem er getur orðið vinnuveitandi þeirra ,svo lengi sem hann borgar.
Þó að Rússneska ríkið sé væntanlega stærsti vinnuveitandi þeirra þá virðast herdeildin ekki einskorða sig við þau viðskifti.
Eðlilega vinna þeir samt aldrei gegn Rússneska ríkinu.
Þeir eru líka undir hælnum á ríkinu af því að samtökin eru ólögleg samkvæmt Rússneskum lögum.
Rússneska ríkið lætur einfaldlega eins og þeir séu ekki til ,en ef þeir mundu gera eitthvað sem angrar ríkið eru þeir auðveld bráð.
Mér sýnist því að tengingin við Nasista stafi aðallega af því að Wagner herdeildin er afa brútal og miskunnarlaus herflokkur og vinnubrögð þeirra eru þau sömu og "bestu" Nasistaveitanna.
En það er ekki hægt að sjá að deildin reki neina pólitík.
Ef við skoðum svo Úkrainsku Nasistana til samanburðar.
Það er alveg augljóst af öllu sem að þeim snýr að þeir eru Nasistar.
Þeir reka samskonar pólitík,fyrirmyndir þeirra eru nafngreindir Nasistar fortíðar og heiðuramerki , deildarmerki þeirra og fánar eru beinlínis komin frá nasískum herdeildum.
Þeir taka líka virkann þátt í stjórnmálum.
Þeir eru í raun ekki herdeild eins og Wagner,heldur pólitísk samtök með eigin her.
Wagner er á hinn bóginn bara her sem er stjórnað af stjórnvöldum að hluta og er í raun upp á náð og miskunn þeirra komin.
Fyrir nokkrum árum eyddi ég smá tíma í að skoða síður á netinu þar sem Úkrainskir Nasistar voru áberandi.
Þetta var eftir2014 og það ríkti mikil bjartsýni og sókanrhugur innan grasrótarinnar.
Þar sem ég er ekki Rússneskumælandi var þetta töluvert vesen en eg held að ég hafi nokkurn veginn náð a fanga andann sem þar ríkti.
Þó að grasrótin sé oft á tíðum róttækari en þeir sem eru í forystu þá er ég þess fullviss að þetta fók er verulega hættulegt.
Þær ambissjónir sem voru viðraðar þarna eru afskaplega ófagrar svo ekki sé meira sagt.
En það er efni í annan pistil.