Myndir og myndband sem tekin voru á Þingeyri fyrir helgi sýna hvernig dauðum eldislöxum úr eldiskvíum Arctic Fish er safnað saman og skóflað í dýrafóður. Starfsmenn Arctic Fish hafa unnið við að hreinsa dauðfiskinn úr tveimur sjókvíum Arctic Fish síðustu vikurnar. Ástæður laxadauðans eru samverkandi þættir eins og vetrarkuldinn og veðurfarið hér á landi nú í ársbyrjun en þegar kalt geta myndast sár á eldisfiskunum sem draga þá til dauða.
Umfang laxadauðans er miklu meira en Arctic Fish spáði fyrir um í lok janúar en þá sagði félagið að um væri að ræða um 3 prósent af framleiðslu fyrirtækisins. Nú liggur fyrir að laxadauðinn gæti verið allt að tíföld sú tala. Um er að ræða 300 til 400 þúsund eldislaxa í sláturstærð, 5 til 7 kíló hver.
Stundin hefur greint ítrekað frá laxadauðanum á Þingeyri síðustu vikurnar.
Endanlegt umfang laxadauðans óljóst
Laxadauðinn leiddi til þess að eigandi Arctic Fish, Norway Royal Salmon, sendi frá sér tilkynningu. Ástæðan er sú að fyrirtækið er skráð á markað í Noregi og þarf að greina frá slíkum upplýsingum um dóttur- og hlutdeildarfélög sín opinberlega.
Í tilkynningunni sagði: „Arctic Fish hefur upplifað alvarleg líffræðileg vandamál í tveimur af eldisstæðum sínum í Dýrafirði, á Íslandi. Umfang laxadauðans er til skoðunar en samkvæmt áætlunum mun hann vera 1,5 til 2 þúsund tonn af stórum fiski sem var í sláturstærð og tilbúinn fyrir markaðinn.“
Arctic Fish hefur á þessu stigi ekki viljað tjá sig frekar um umfang tjónsins og vísar til þess að fyrirtækið er skráð á markað. Um þetta sagði Daníel Jakobsson, ráðgjafi í sérverkefnum og oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Ísafjarðar, við Stundina í síðustu viku: „Ég get því miður ekki látið hafa neitt eftir mér um það. Það er vegna þess að við erum skráð á markað og þá þurfa þær upplýsingar að koma jafnt til allra. Við erum tryggð að hluta, það er verið að fara þann hluta og svo er enn óvíst hversu mikið okkur tekst að slátra auk annarra óvissuþátta. Þær upplýsingar verða tilkynntar þegar að þær liggja fyrir.“
Athugasemdir