Fyrir fáeinum dægrum fóru um heimsbyggðina fréttir af því að rannsóknarmenn með fullkomnustu tæki, tól og öll gögn hefðu nú afhjúpað sannleikann um það hver sveik Önnu Frank og fjölskyldu hennar í hendur þýsku hernámsyfirvaldanna í Holland 1944.
Það var hollenskur fjölmiðlamaður, Pieter van Twisk, sem setti saman rannsóknarhópinn og voru í honum meira en tuttugu manns, búnir nýjustu græjum og tölvum til að greina gögn af öllu tagi. Fyrrverandi FBI maður frá Bandaríkjunum leiddi hópinn. Ráðinn var rithöfundur til að skrá starf hópsins og sjónvarpsþáttur undirbúinn. Allir voru látnir sverja þagnareið um að ljóstra ekki upp neinu um starf hópsins fyrr en niðurstöðu væri náð.
Og niðurstaða náðist — að því er virtist. Þó sú nýja bók, sem nú er komin út með mikilli pomp og prakt og auglýsingaherferð og rekur niðurstöður hópsins, þó hún slái því ekki 100 prósent föstu er kastljósinu beint svo sterklega að Arnold van den Bergh að heita má að því sé slegið nánast föstu að hann hafi verið svikarinn sem lét Þjóðverja hafa heimilisfangið þar sem Frank-fjölskyldan dvaldist.
Og endaði með því að allir létu lífið nema fjölskyldufaðirinn Otto Frank.
Arnold van den Bergh var hollenskur lögbókari af Gyðingaættum sem var um tíma í Gyðingaráðinu í Amsterdam, en það var stofnun sem Þjóðverjar komu á fót til að annast samskipti sín við Gyðinga á hernumdum svæðum eins og Amsterdam.
Gyðingaráðin
Þessi Gyðingaráð leiddust mörg hver út í alltof nána samvinnu við Þjóðverja og er af því löng og dapurleg saga, en Van den Bergh sat reyndar ekki lengi í ráðinu. Hvort hann hafði einhvern tíma aðgang að skrá með heimilisfangi á felustað Frank-fjölskyldunnar er mjög verulega vafasamt (eða hvor slík skrá var yfirleitt til), en Twisk og félagar ganga þó út frá því.
Og rannsóknarhópurinn leiðir að því rök að 1944 hafi Þjóðverjar verið farnir að sækja að Van den Bergh sjálfum og hann hafi þá komið upp um Frank-fjölskylduna til að sleppa sjálfur.
Svo mikið er víst að skömmu eftir að stríðinu lauk laumaði einhver miða til Otto Franks þar sem fullyrt var að Anton van den Bergh væri svikarinn. Frank lagði hins vegar bersýnilega engan trúnað á staðhæfingu miðahöfundar og gerði ekkert með þessar upplýsingar.
Það útskýra Twisk og félagar nú með því að Frank hafi vorkennt Van den Bergh enda hafi hann bara verið að bjarga eigin fjölskyldu. — En þó hélt Frank áfram að styðja rannsóknir til að komast að því hver svikarinn var.
Og reyndar var raunin sú að hann fékk hollenskum rannsóknarlögreglumanni miðann um síðir og sá rannsakaði mögulega hlutdeild Van den Berghs (sem þá var látinn) en fann engar frekari vísbendingar sem bentu til sektar hans.
Niðurstaða annarra sem hafa skoðað Van den Berg hefur alltaf orðið sú sama.
Alltof litlar vísbendingar
Ekkert annað en þessi eini miði bendir til sektar Antons van den Berghs. Ekki neitt. Þrátt fyrir allar tölvur og hin splunkunýju rannsóknartæki Twisks og félaga.
Óneitanlega kviknar sá grunur að þegar hinn metnaðarfulli rannsóknarhópur hafi verið kominn á endastöð án þess að finna neitt afgerandi, þá hafi hann leiðst út í að beina athyglinni að Anton van den Bergh frekar en hafa ekkert nýtt fram að færa.
Og þó er þetta í raun og veru ekkert nýtt.
Og nú þegar mestu sérfræðingar í hernámi Þjóðverja í Hollandi og sögu Önnu Frank hafa fengið tóm til að lesa hina nýútkomnu bók, þá virðast þeir allir sem einn gefa lítið fyrir hana. Þær vísbendingar sem til séu um sekt Van den Berghs séu allt, alltof litlar til að hægt sé að sakfella nokkurn mann með þeim.
Hér er farið nokkuð vel yfir þetta.
En margir fjölmiðlar höfðu einmitt gert það, sakfellt manninn (sem lést 1950) með því að fullyrða að svikarinn væri fundinn. Og höfðu sumir næstum kvikindislega ánægju af því að benda á að svikarinn væri Gyðingur.
En svikari Önnu Frank er — nærri áreiðanlega — ekki fundinn.
Athugasemdir