„Með því að klára þetta ferli með árangursríkum hætti er sú ákvörðun Salmar og Aker undirstrikuð að félögin ætli að vera leiðandi í því að tryggja sjálfbæran vöxt í fiskeldisiðnaðinum,“ segir forstjóri norska laxeldisfyrirtækisins Salmar AS, Gustav Witzoe, um samstarf fyrirtækisins við norska fyrirtækið Aker um að þróa tæknilausnir til að stunda aflandseldi á laxi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Salmar AS til norsku kauphallarinnar í morgun.
Salmar er stærsti hagsmunaðilinn í sjókvíaeldi á Íslandi í gegnum fyrirtækið Arnarlax á Bíldudal. Sjókvíaeldi Arnarlax fer hins vegar fram í íslenskum fjörðum eins og Arnarfirði og Tálknafirði en ekki úti á rúmsjó og eiga þau jákvæðu, sjálfbæru áhrif á laxeldisiðnaðinn sem félögin telja að aflandseldið feli í sér ekki við á Íslandi. Norska félagið á meirihluta í Arnarlaxi.
Upphaf „nýrra tíma“
Samstarf félaganna var kynnt í lok ágúst, líkt og Stundin greindi frá þá, en hefur nú verið komið á með formlegum hætti. Í lok ágúst var haft eftir forstjóra Salmar að samvinnan fæli í sér upphafið að nýjum tímum í laxeldi í heiminum. Þá sagði hann: ,,Fjárfesting Salmar í aflandseldi markaði upphafið að nýjum tíma í fiskeldi. Við erum mjög glaðir að hefja þetta samstarf með sterku fyrirtæki eins og Aker. Saman munum við leiða þessa þróun og tryggja sjálfbæran vöxt út frá forsendum laxsins. Við ætlum að nýta okkur möguleika sjávarins til að framleiða hollan mat, nota stafræna og umhverfisvæna tækni og tryggja, ásamt samstarfsaðilum okkar sem koma fisknum á markað, matarframleiðslu sem er sjálfbær til framtíðar. Saman getum við tekið næsta tækniskrefið í fiskeldi í sjó og metnaður okkar er hnattrænn.“
„Við munum líklega ekki sjá hefðbundnar, alveg opnar sjókvíar neins staðar árið 2030.“
Vilja 500 þúsund tonna framleiðslu á Íslandi
Í fréttatilkynningunni nú kemur enn fremur fram að nýr stjórnarformaður í félagi Salmar og Aker um að þróa aflandseldið verði Atle Eide. Hann hefur áður verið stjórnarformaður Salmar As. Atle hefur boðað nýja tíma í laxeldi í gegnum árin og vísað til þróunar á aflandseldi á laxi. Í viðtali fyrr á árinu sagði Atle að árið 2030 yrðu sennilega ekki neinar opnar sjókvíar í rekstri: „Við munum líklega ekki sjá hefðbundnar, alveg opnar sjókvíar neins staðar árið 2030,“ sagði hann.
Á sama tíma berst Arnarlax fyrir því að stórauka framleiðslu sína í opnum sjókvíum á Íslandi. Stjórnarformaður Arnarlax, Kjartan Ólafsson, hefur sagt að félagið vilji „rækta bláu akrana sem finnast í efnahagslögsögu landsins“, það er að segja firðina við Ísland. „Með 500.000 tonna ársframleiðslu á laxfiski mætti margfalda útflutningsverðmæti sjávarafurða og fylgja þar með farsælli vegferð vinaþjóða okkar [Noregs og Færeyja].“
Í fréttatilkynningunni í morgun segir Gustav Witzoe hins vegar að eigendur Salmar Aker Ocean hlakki til að þróa lausnir í aflandseldi. „Salmar Aker Ocean, og eigendur þess, hlakka til að sameinast um að þróa aflandseldi sem mikilvægan þátttakanda í því til framtíðar að bjóða upp á heilbrigðar sjávarafurðir um allan heim.“
Miðað við þetta er Salmar AS að segja að aflandseldið sé framtíðin í greininni og að sjókvíaeldið, sem meðal annars Arnarlax stundar á Íslandi, sé það ekki þrátt fyrir að fyrirtækið vilji að 500 þúsund tonn verði framleidd í fjörðum Íslands.
Athugasemdir