Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir og sérfræðingur í streitu og kulnun, átti erfitt með að trúa niðurstöðum úr rannsókn sinni á íslenska lækninum þegar hann sá þær fyrst. Rannsóknin snéri að því að skoða álag á lækna á Íslandi og niðurstöðurnar bentu til þess að mun fleiri starfandi læknar upplifðu sjúklega streitu en Ólafur hafði gert sér í hugarlund. „Ég hafði áhyggjur af því þegar rannsóknin var kynnt hvort þetta gæti verið rétt.“
„Meginniðurstöðurnar voru mikið áhyggjuefni. Allt að tveir þriðju hlutum lækna eru undir ofurálagi og lítið má út af bregða til þess að þeir finni fyrir skerðingu á starfsgetu,“ segir Ólafur. Öllum íslenskum læknum var boðin þátttaka og að sögn Ólafs var meirihluti þeirra sem tók þátt.
Ásamt því að standa á bak við rannsókn um álag á lækna hittir Ólafur lækna, sem upplifa streitu og jafnvel kulnun, til að hjálpa þeim að ná tökum á henni og ná bata. „Ég er að hitta tvo til þrjá lækna á besta aldri á viku sem eru í raun og veru orðnir óvinnufærir af álagi. Þeir eru komnir með meira en kulnun, komnir í ástand sjúklegrar streitu.“ Helmingur af læknunum sem tóku þátt í rannsókn Ólafs hafa hugleitt alvarlega að hætta í starfi sínu sem læknir.
Athugasemdir