Útséð er orðið um að breytingar verði á verðtryggingu fasteignalána á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka. Frumvarp sem takmarka átti notkun verðtryggingar var sent aftur til ríkisstjórnar á síðustu dögum Alþingis og verður því ekki aftur til meðferðar fyrir þingkosningar í haust.
Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokks, mælti fyrir áliti þess efnis frá meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar laugardaginn 12. júní. „Í ljósi þeirra umsagna sem bárust um málið leggur meirihlutinn til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem það sæti skoðun í ljósi framkominna athugasemda,“ segir í álitinu.
Skref til afnáms verðtryggingar er þannig eitt þeirra stefnumála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem ekki verður að veruleika á kjörtímabilinu. Ákall hefur verið um afnám verðtryggingar frá bankahruni þegar verðtryggð húsnæðislán hækkuðu verulega vegna mikillar verðbólgu. Síðan þá hafa óverðtryggð lán orðið vinsælli og eru nú meira en helmingur þeirra lána sem bankar og lífeyrissjóðir veita til heimila. …
Athugasemdir