Nú er að dreifast smit um samfélagið sem eru hluti af fyrirsjáanlegum afleiðingum óraunsærrar og óskýrrar markmiðasetningar í Covid-faraldrinum. Smitin eru af hugrænum kvilla sem getur auðveldlega dreifst og haft áhrif á fólk. Alvarlegustu einkenni eru kvíði, fordómar og valdbeitingarþörf.
Þetta hófst með því að án raunverulegrar umræðu var ákveðið að Ísland myndi stefna að engum Covid-smitum, í stað þess að halda sjúkdómnum niðri taktískt. Ekki leið á löngu þar til fólk komst að þeirri lógísku niðurstöðu að eina leiðin til að tryggja engin Covid-smit væri að loka landamærunum og minnka frelsi verulega, og þegar það var ekki gert, varð tiltekinn hópur fólks metinn helsta vandamál samfélagsins og ógn við velferð allra. Þetta ástand er þekkt í félagsfræðinni sem siðfár.
Lokum landinu
Áður en við vissum af var tónlistarmaður farinn að gæta hagsmuna sinna og framfæra sannfæringu sinni með því að safna hóp til að loka fyrir ferðir fólks:
„Hvenær ætlum við að hætta að láta vaða yfir okkur?“ sagði Herra Hnetusmjör popprappari. „Við þurfum að sýna ríkisstjórninni að við erum komin með nóg. Nóg af því að vera sett í annað sæti. Nóg af því að mega ekki hitta ástvini. Nóg af því að mega ekki stunda nám eða vinnu. Allt á meðan landamærin eru opnuð enn meir.“
Ungur tónlistarmaður var þannig að krefjast þess að bann yrði sett á för fólks milli landa, þess minnihlutahóps sem þarf á ferðunum að halda og leggur á sig ferðir í núverandi ástandi. Auðvitað til þess að auka frelsi innanlands, til dæmis að leyfa tónleikahald en líka að skapa Covid-frítt fyrirmyndarríki. Fjölmargir tóku undir kröfuna um að loka alveg landinu, þótt það væri í raun mun minna tilefni en áður vegna bólusetningar viðkvæmasta hópsins.
„Þau eru líka að verða fyrir nánast einelti úti á götu. Eingöngu, virðist vera, vegna þess að þau koma frá tilteknu landi.“
Kvíðaveiran er núna komin út um allt samfélag eins og heyrist á orðum Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns á upplýsingafundi í fyrradag: „Nú erum við að fá upplýsingar um það að börn og fullorðnir sem hafa tengst hópsmitum og lent í því að vera hluti af þeim, eru að fá öfgafull skilaboð, rasísk og mjög ljót skilaboð. Þau eru líka að verða fyrir nánast einelti úti á götu. Eingöngu, virðist vera, vegna þess að þau koma frá tilteknu landi.“
Stökkbreyting kvíðaveirunnar
Ef við hugsum til baka nokkrar vikur, nánar tiltekið í byrjun apríl, voru stjórnvöld og sóttvarnayfirvöld að innleiða frelsissviptingu fólk sem kom frá tilteknum löndum, án þess að hafa lagaheimild til þess og án þess að útfæra úrræðið þannig að það yrði bærilegt fólki.
Margir hörmuðu að íslenskum yfirvöldum hefði verið óheimilt að loka fólk inni í litlum herbergjum í fimm sólarhringa á þeim forsendum að tölfræðileg hætta stafi af fólkinu vegna þess hvaðan það kemur og vegna þess að því sé ekki treystandi til að standa við heimasóttkví.
Fólk í stjórnmálaham steig öldu óttans og jafnvel var talað um „réttinn til að smita“ andspænis öðrum réttindum, eins og að verða ekki frelsissviptur með tilteknum hætti.
„Þeir telja réttinn til að smita og smitast æðri rétti samfélagsins til að verja sig,“ skrifaði Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Facebook, í umkvörtun um að Sjálfstæðismenn hefðu ekki viljað auka valdheimildir yfirvalda til að loka fólk inni.
Undirliggjandi spurningin er, hversu langt viltu ganga gagnvart saklausum til þess að hámarka eigið öryggi? Þessari spurningu hefur verið svarað með ýmsum hætti í mannkynssögunni. Að læsa fólk inni í fimm sólarhringa á hóteli er í raun afar vægt úrræði til að lágmarka ógn af öðrum, í samhengi við söguna. Annars staðar hafa samfélög, eða yfirvöld, metið mikilvægt að læsa tiltekna tölfræðilega hættulega aðila inni ævilangt. Þau hafa notið stuðnings fólks sem vill tryggja stöðugleika og lágmarka hættu á hryðjuverkum og þess háttar.
En Fosshótel er auðvitað ekki Gúlag. Það er tímabundin frelsissvipting saklausra á tölfræðilegum forsendum, á sama tíma og vægara úrræði er til staðar og útfæranlegt.
Munurinn á fangelsun og sóttkví
Aðstæður fólks eru misjafnar. Öllum er þungbært að vera lokaðir inni í herbergi - hvort sem það er kallað hótel eða annað - í fimm sólarhringa. Fólk sem kom að kumbaldslegu hótelinu í lögreglufylgd í byrjun apríl fékk misvísandi upplýsingar um réttindi sín og mörk valdbeitingarinnar.
Upphaflega átti fólkið að mega fara í gönguferð í hálftíma á dag, en síðan var tekið fyrir það með valdboði að ofan á þeim forsendum að fólkinu væri ekki treystandi.
„Það var sagt að við yrðum látnir vita en við vitum ekkert enn,“ sagði Jörundur Áki Sveinsson, aðstoðarþjálfari U-21 knattspyrnulandsliðsins. Fólkinu var ráðlagt að kvarta bara á spjallsvæði á covid.is, sem reyndist vera ómannað.
Fólk sem bjó rétt hjá hefði rétt eins getað verið heima hjá sér við mun mannúðlegri aðstæður, eins og Eva Björk Benediktsdóttir íþróttafréttamaður.
„Okkur var sagt það fyrsta kvöldið að við fengjum hálftíma á dag en svo var tekið fyrir það í gær, einhvern tímann seinni partinn. Það er svona ákveðin innilokunarkennd sem fylgir þessu eðlilega, en það myndi breyta öllu að fá að fara aðeins út,“ sagði Eva Björk um upplifun sína. Frétt um upplifun Evu Bjarkar var mætt með hörku og háði almennra borgara á Facebook.
„Æææ greyið þú eða ekki“
„Hvað er fólk að væla 5 nætur á lúxushóteli á kostakjörum. Þetta sama fólk væri til í að borga stórar upphæðir með bros á vör ef þetta hótel væri í París,“ sagði einn. „Æææ greyið þú eða ekki,“ sagði önnur. „Hættu þessu væli,“ sögðu fleiri en einn. Vísir.is tilkynnti sérstaklega að hreinsuð hefðu verið burt ummæli þeirra sem „fóru yfir strikið“.
Með því að loka fólk inni á hótelherbergi var sóttkví breytt í einangrun, ekki vegna þess að fólkið væri smitað og því smitandi, heldur af því að tölfræðilega voru smávægilegar líkur á því að hver og einn einstaklingur væri það.
Munurinn á fangelsun og sóttkví var orðinn sá að fangar fá að fara út að ganga á hverjum degi. Hægt er hins vegar að beita þá agaviðurlögum og „takmarka útivist og aðstöðu til íþróttaiðkunar um ákveðinn tíma“. Og svo eru þeir ekki lokaðir inni af tölfræðilegum ástæðum.
Fólk kafnar ef þú færð að fara út
Takmörkin fyrir því hversu langt fólk gengur í því að endurvarpa kvíða sínum á aðra eru teygjanleg. Eins og ein vinsæl ummæli hljóðuðu undir viðtali við Evu Björk Benediktsdóttur, sem sagðist fá innilokunarkennd og geta átt bærilegri aflokun með heimild til stuttrar gönguferðar:
„Ég get samt lofað henni að þetta er illskárra en að fara í öndunarvél í 5-15 daga, liggja svo á gjörgæslu í svo viðbjóðslegum martröðum sem eru svo raunverulegar að jafnvel mörgum mánuðum seinna ertu á báðum áttum hvort það gerðist eða ekki. Þetta er það sem nokkrir einstaklingar munu lenda í ef við sleppum veirunni aftur útí samfélagið!“ segir annar.
Með öðrum orðum: Ætlar þú að fara út úr herberginu og láta fólk kafna í martröð?
„Vaknið. Þetta er stríðsástand gegn ósýnilegri vá en munið að í Sýrlandi, Jemen er fólk sprengt í tætlur fyrir olíudollarann og græðgi þið sitjið á hóteli til að verja okkur hin,“ sagði ein sem sagðist hafa lokað sig af í eitt ár af ótta við veiruna.
Niðurstaðan varð á endanum að fólk í sóttkví fengi heimild til að fara undir bert loft í að hámarki klukkustund tvo daga af fimm. Barnafólk fær daglega heimild til að fara út. Undarþáguheimildir voru síðan fyrir því að taka heimasóttkví ef smit í brottfararlandi eru færri en 0,7% mannfjöldans.
Útrýming veirunnar
Enginn hefur látist vegna Covid-19 á Íslandi á þessu ári og bólusetning viðkvæmasta hópsins var strax mjög langt komin í byrjun apríl þegar ákveðið var að herða reglur. Fyrsta markmið í baráttunni við covid var að fletja kúrvuna til að koma í veg fyrir yfirfyllingu spítala. Eins og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði fyrr í mánuðinum, þá hafa fyrri aðgerðir virkað vel gegn útbreiðslu veirunnar og þetta er „bara spurning um að vera einbeittur í því að nota þessar aðferðir sem við höfum þegar sýnt að eru nægilega góðar“. Við höfum verið langt frá þeim mörkum. Nánast allir yfir sjötugu hafa verið bólusettir og meirihluti yfir sextugu hafa fengið einn skammt. Markmiðið samhliða var að vernda þá viðkvæmustu og það hefur verið gert að miklu leyti. Hins vegar hefur tvennt breyst: Markmiðið varð skyndilega að útrýma veirunni og fjarlægja alla áhættu, en ekki lifa með henni, og það höfðu komið fram ný afbrigði, sérstaklega breska afbrigðið B.1.1.7. sem vísbendingar voru um að væri meira smitandi og skaðlegra ungu fólki. Það hefur ekki reynst vera tilfellið hingað til á Íslandi. Helsta vandamálið undanfarið virðist vera að fólk finnur ekki fyrir einkennum og því er fólk beðið að fara í sýnatöku vegna ógreinilegri einkenna en áður.
100% Covid-frítt
Til þess að markmiðið um 100% tryggingu fyrir Covid-fríu landi náist virðast þrír möguleikar í boði: Að útrýma Covid í öllum heiminum, að loka landamærunum eða herða verulega sóttkví, eða að bólusetja þannig að ríflegt hjarðónæmi náist.
Mörg lönd eru með stranga sóttkví og sum lönd, eins og Nýja-Sjáland, hafa í reynd lokað til að skapa Covid-frítt ríki á þeim forsendum að þau geti það vegna einangrunar. Sama gildir um Ástralíu, sem hefur haft tveggja vikna skyldusóttkví eins og Nýja-Sjáland. Þar hefur verið kvartað undan því að fólk geti ekki opnað glugga á hótelherbergjum, sé rukkað ofurálag fyrir beiðni um herbergi með svalir og að það smitist af Covid vegna ónógrar loftræstingar þegar það er lokað inni með þeim líklegustu til að vera smitaðir. Í Hong Kong hefur verið þriggja vikna skyldusóttkví. Í Taílandi er hins vegar tveggja vikna sóttkví á hóteli að eigin vali og sums staðar, eins og á Sri Lanka, hefur fólk geta farið í sund og líkamsrækt á sóttkvíarhótelinu.
Við á Íslandi búum í einu dreifbýlasta landi heims og gnægð húsnæðis er til staðar sem gæti boðið upp á áhættulausa útiveru samhliða sóttkví vegna tölfræðilegrar áhættu á smitum. Munurinn á því að útrýma áhættu eða lágmarka hana eða stýra henni er ekki stigsmunur heldur eðlismunur.
Hópurinn sem var gerður að vandamáli
Aðstæður á Íslandi eru öðruvísi en á Nýja-Sjálandi. Hér er ferðaþjónusta hærra hlutfall landsframleiðslu og hér er gríðarlega stór hópur innflytjenda sem hefur unnið störf sem Íslendingum þóknast yfirleitt ekki og hefur vanist auðveldum ferðalögum milli landanna.
Þótt við höfum mörg hver ekki brýnar ástæður til að ferðast úr landi eiga innflytjendur ættingja erlendis, og eins eru margir Íslendingar fluttir úr landi. Þetta snýst því að um framkomu okkar gagnvart minnihluta fólks, eins og konan sem fór til Austur-Evrópu í jarðarför móður sinnar með dóttur sinni.
„Ekki hleypa svona fólki inn í landið,“ sagði einn í kommentunum um hana.
Á sama tíma var fólk, eins og þingmaðurinn Brynjar Níelsson, úthrópað fyrir það eitt að heimsækja veika aðstandendur í útlöndum, þótt hann færi í viðeigandi sóttkví. Það varð siðfár á Íslandi, þar sem fjölmiðlar/samfélagsmiðlar, almenningur, aðilar stjórnkerfisins og þrýstihópar knúðu á um að bregðast þyrfti nánar við ógninni, og: „Tiltekinn hópur einstaklinga er tekinn út og skilgreindur sem ógn við samfélagið. Hegðun hans er talin valda óöryggi og grafa undan ríkjandi gildum og viðmiðum.“
Þannig sagðist ein kona hafa orðið fyrir því að gripið var í hana í verslun og gargað á hana að hún ætti að vera í sóttkví. Ástæðan var að hún var sólbrún. „Djöfulsins lið sem getur ekki verið bara kjurrt á Íslandi þegar að heimurinn er í klessu,“ hafði hún eftir manninum.
Þegar markmiðið verður að útrýma veirunni, en ekki halda aftur af henni, snareykst valdbeitingarþörfin og viðkvæmir hópar fara illa út úr kvíða. Nýlega kom upp krafa frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni um að fólk ferðaðist ekki til útlanda „að nauðsynjalausu“. „Það er leiðinlegt að sjá hvern sem er fara ekki eftir tilmælunum og það er svo sem ekki mikið meira um það að segja,“ sagði Þórólfur um utanlandsferð Brynjars Níelssonar.
Auðvitað gerum við auknar kröfur til kjörinna fulltrúa, en það var ekki búið að ákveða að Íslendingur mætti ekki heimsækja veikan bróður sinn og mágkonu erlendis. Ef búið er að banna í reynd ferðalög Íslendinga til útlanda, til viðbótar við sóttkvíarúrræði og sýnatökuskyldu, er um að ræða verulega skerðingu á frelsi og mannréttindum, þegar viðkemur möguleika fólks til að njóta nærveru nánustu aðstandenda. Félagsleg tengsl eru mikilvægasti áhrifaþátturinn í hamingju fólks, samkvæmt rannsóknum, og því erfitt að álykta um nauðsyn eða lífsnauðsyn þess að eiga einhverjar samverustundir án þess að ávarpa spurninguna um hvað gerir þess virði að lifa lífinu. Og nei, það er ekki sambærilegt að yfirvöld læsi fólk inni eða banni því að ferðast, og að tiltekið fólk ákveði fyrir sig sjálft að lágmarka áhættu að fá smitsjúkdóm sem veldur tölfræðilegri áhættu - sem það er flest bólusett fyrir að hluta og er hægt að lágmarka hættuna á - með því að umgangast sem fæsta.
Frelsismenning og kvíðamenning
Að læsa fólk inni getur aldrei orðið svo léttvægt að það þurfi hvorki að hafa lagaheimild til þess né að tryggja manneskjulegar aðstæður, einhverja lágmarksheimild til útiveru. Samhliða slíkri stefnumótun er samfélagið þannig stemmt að ganga megi lengra gegn fólki en áður. Af- og innilokun er andlegur og líkamlegur skaðvaldur fyrir manneskjur. Valdbeiting getur að sama skapi grafið undan tilfinningu fólks um forræði á sjálfu sér, til dæmis framkallað óöryggi og lært hjálparleysi. Félagslegi skaðinn er svo að espa upp valdbeitingarkröfu hjá almenningi, sem byggir á ótta og væntingum um að útrýma megi veirunni. Áður en yfir lýkur beinist þörfin til að lágmarka áhættu að því að valdbeita eða úthrópa valda þjóðfélagshópa á tölfræðilegum forsendum.
Það var þegar við byrjuðum að koma illa fram við fólk og beita það meira valdi en þurfti, til að sefa eigin kvíða, að við byrjuðum fyrst að tapa baráttunni.
Íslendingar hafa náð að viðhalda ákveðinni frelsismenningu. Vonandi kemst menningin okkar ósködduð frá kvíðanum, einangrunarhyggjunni og útlendingaóttanum. Við þurfum líka að ástunda persónulegar kvíðavarnir og dreifa honum ekki um samfélagið. Fólk bregst við kvíðanum með mismunandi hætti. Sumir sýna engin einkenni, aðrir loka sig af og enn aðrir ráðast gegn sólbrúnum, útlendingum og fleirum og dreifa vírusnum um samfélagsmiðla.
Ein helsta hættan af Covid-sjúkdómnum er að hann magnar upp varnarviðbrögð líkamans og snýr honum gegn sjálfum sér. Það er líka hætta á samfélagslegum skala, sem þarf að ræða um þótt það geti kallað fram enn sterkari varnarviðbrögð.
Athugasemdir