Rannsókn á því hvort stúlkur sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu Lauglandi, áður Varpholti, hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi er ekki í forgangi hjá Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnvaverndar (GEF), sem á að annast verkefnið. Er rannsóknin enn á undirbúningsstigi, rúmum mánuði eftir að stofnuninni var falið að framkvæma hana. Langt er í niðurstöðu samkvæmt svörum frá stofnuninni.
Átta konur hafa stigið fram í Stundinni og lýst því hvernig þær voru beittar líkamlegu og andlegu ofbeldi á meðan þær voru vistaðar á meðferðarheimilinu. Sá sem konurnar segja að hafi einkum beitt ofbeldinu var forstöðumaður heimilisins, Ingjaldur Arnþórsson. Hafa þær lýst því að Ingjaldur hafi meðal annars sparkað í þær, hent þeim niður stiga, dregið þær á hárinu og slegið þær. Hann hafi rofið trúnað við þær, öskrað á þær, lítillækkað og kúgað til hlýðni. Fleiri konur hafa lýst því að þær hafi verið beittar ofbeldi á meðferðarheimilinu, á þriðja tug kvenna, þó þær hafi ekki allar stigið fram opinberlega.
Ríkisstjórnin samþykkti rannsókn fyrir mánuði
Ellefu nafngreindar konur sendu Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, erindi 1. febrúar síðastliðinn þar sem þær fóru fram á að skipuð yrði rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á starfsemi Laugalands á árabilinu 1997 til 2007, undir stjórn Ingjalds. Ásmundur Einar fundaði í tvígang með fulltrúum kvennanna í febrúar og á þeim fundum fullvissaði hann þær um að starfsemin yrði rannsökuð til þrautar. 19. febrúar samþykkti ríkisstjórn Íslands, að tillögu Ásmundar Einars, að Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar yrði falið að framkvæma slíka könnun.
Stofnuninni var falið að kanna starfsemi Lauglands, með bréfi 23. febrúar síðastliðinn. Nú, rúmum mánuði síðar, er sú könnun ekki hafin. Stundin sendi settum framkvæmdastjóra GEF, Guðrúnu Björk Reykdal, tölvupóst 18. mars síðastliðinn með eftirfarandi spurningum um gang rannsóknarinnar:
Hvers vegna hefur umrædd rannsókn ekki farið fyrr af stað?
Hefur stofnunin kallað eftir gögnum er málinu tengjast? Ef svo er, hvaða gögnum og hvaðan?
Hefur stofnunin fengið gögn í hendur er málinu tengjast?
Við hvaða aðila á að taka viðtöl?
Hvaða tímaramma er stofnunin að vinna með? Hvenær má eiga von á að rannsókn verði lokið?
Guðrún svaraði tölvupóstinum í gær, 23. mars, eftir ítrekanir blaðamanns. Í svarinu er tiltekið að Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar annist ýmis verkefni og daglegt eftirlit með félagsþjónustu sem veitt er af hinu opinbera, sveitarfélögum og á grundvelli þjónustusamninga, auk eftirlits með meðferðarheimilum Barnaverndarstofu. „Undirbúningur könnunar á starfsemi meðferðarheimilisins Varpholts/Laugalands á árunum 1997 til 2007 sem stofnuninni var falið að framkvæma, með bréfi dags. 23. febrúar sl., fer fram samhliða þessum verkefnum. Framkvæmd könnunarinnar og úrvinnsla mun taka tíma og því ljóst að niðurstaðna er ekki að vænta á næstunni,“ segir í svari Guðrúnar. Þá segir ennfremur að ekki sé hægt að upplýsa fjölmiðla um einstaka þætti sem snúi að framkvæmd könnunarinnar meðan hún sé í vinnslu.
Stundin óskaði eftir viðtali við Ásmund Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, vegna málsins og hugðist inna hann eftir því hvort hann teldi réttlætanlegt að rannsókn á starfsemi Laugalands fengi ekki hraðari afgreiðslu en raun bæri vitni. Ekki náðist í ráðherra við vinnslu fréttarinnar.
Athugasemdir