Eigendur íslenska lénafyrirtækisins Internet á Íslandi ehf. (ISNIC) hafa greitt sér út tæplega 770 milljóna króna arð á síðustu tíu árum. Um er að ræða fyrirtæki sem hefur einkarétt á skráningu internetléna með endingunni .is. Sú þjónusta sem fyrirtækið veitir er umtalsvert dýrari á Íslandi en í öðrum sambærilegum löndum erlendis. Fyrirtækið ákvað í lok febrúar að hækka árgjald léna með .is-endingunni um rúm 5 prósent, 310 krónur, og verður það hér eftir 6.293 krónur með virðisaukaskatti.
Félagið er í meirihlutaeigu einkaaðila, stærsti hluthafinn er framkvæmdastjórinn, Jens Pétur Jensen, með 29,5 prósenta hlut, en opinberir aðilar eins og Íslandspóstur ohf. eru einnig í hluthafahópnum með tæplega 19 prósenta eignarhlut. Alls 77 prósent af hlutafé félagsins er í eigu einkaaðila og restin er í eigu opinberra. Fyrirtækið byggir í grunninn á einokun ríkisfyrirtækis á þessari þjónustu en það var einkavætt árið 2000 þegar opinberir aðilar seldu fyrirtækið til einkaaðila.
Athugasemdir