Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar hefur enn ekki hafið rannsókn á því hvort börn sem vistuð voru á meðferðarheimilinu Laugalandi í Eyjafirði, sem áður var rekið í Varpholti, hafi sætt þar illri meðferð, andlegu eða líkamlegu ofbeldi. Rúmur mánuður er síðan félagsmálaráðherra fól stofnuninni að hefja umrædda rannsókn.
Átta konur hafa stigið fram í Stundinni og lýst því að þær hafi verið beittar harðræði og ofbeldi þegar þær voru vistaðar á meðferðarheimilinu. Sá sem þær bera að hafi einkum beitt ofbeldinu er Ingjaldur Arnþórsson, sem rak heimilið á árunum 1997 til 2007, með þjónustusamningi við Barnaverndarstofu. Konurnar hafa meðal annars lýst því að Ingjaldur hafi sparkað í þær, hent þeim niður stiga, dregið þær á hárinu og slegið þær utan undir. Þá lýsa þær því að Ingjaldur hafi stjórnað heimilinu með óttastjórnun, beitt andlegu ofbeldi, öskrað á þær, gert lítið úr þeim og foreldrum þeirra og ítrekað rofið trúnað við þær.
Í samskiptum sem ein kvennanna sem stigið hafa fram í Stundinni í síðustu viku átti við Gæða- og eftirlitsstofnunina kom fram að rannsóknin væri ekki hafin. Þetta staðfesti settur framkvæmdastjóri stofnunarinna, Guðrún Björk Reykdal, í tölvupóstsamskiptum við Stundina. Síðastliðinn fimmtudag, 18. Mars. „Könnun þessa máls er komin til Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar. Í dag erum við að hefja undirbúning hennar. Yfirferð gagna, undirbúningur viðtala og síðan viðtöl við alla hlutaðeigandi aðila er stórt verkefni sem mun taka talsverðan tíma.“
„Í dag erum við að hefja undirbúning hennar“
Blaðamaður óskaði eftir að fá viðtal við Guðrúnu vegna málsins en við því var ekki orðið. Sama dag, 18. mars, sendi blaðamaður eftirfarandi spurningar til Guðrúnar í tölvupósti:
Hvers vegna hefur umrædd rannsókn ekki farið fyrr af stað?
Hefur stofnunin kallað eftir gögnum er málinu tengjast? Ef svo er, hvaða gögnum og hvaðan?
Hefur stofnunin fengið gögn í hendur er málinu tengjast?
Við hvaða aðila á að taka viðtöl?
Hvaða tímaramma er stofnunin að vinna með? Hvenær má eiga von á að rannsókn verði lokið?
Guðrún hefur enn sem komið er ekki svarað spurningum Stundarinnar vegna málsins.
Barnaverndarstofa hefur viðurkennt mistök
Samkvæmt upplýsingum frá Barnaverndarstofu hefur Gæða- og eftirlitsstofnunin kallað eftir gögnum þaðan um meðferðarheimilið. Það var þó ekki búið að afhenda þau gögn í síðustu viku og samkvæmt Barnaverndasstofu á að afhenda þau í dag eða á morgun. Stundin óskaði eftir því við Barnaverndarstofu að fá öll gögn er lúta að starfsemi Laugalands og Varpholts á árabilinu 1997 til 2007 afhent. Stofnunin afhenti umbeðin gögn í tveimur hlutum, 26. febrúar og 5. mars. Gögnin eru því tiltæk hjá Barnaverndarstofu en ekki fengust skýringar á því hvers vegna þeim hefur ekki þegar verið skilað til Gæða- og eftirlitsstofnunar.
„Þessum vísbendingum hefði verið hægt að fylgja eftir og bregðast við með markvissari hætti en gert var“
Barnaverndarstofa hefur viðurkennt að ekki hafi verði brugðist við athugasemdum og vísbendingar hafi komið fram óeðlilegar starfsaðferðir á Laugalandi á árunum 1997 til 2007. „Þessum vísbendingum hefði verið hægt að fylgja eftir og bregðast við með markvissari hætti en gert var,“ segir í frétt á vef Barnaverndarstofu þar sem konurnar sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu eru beðnar afsökunar á að hafa ekki brugðist við þeim upplýsingum sem stofnuninni bárust varðandi starfsemi heimilisins. Þá kemur einnig fram í afsökunarbeiðni Barnaverndarstofu að gögn sýni að á Laugalandi hafi verið unnið út frá hugmyndafræði „sem þótti góð og gild á sínum tíma en samstaða er á meðal sérfræðinga í dag að sé úrelt og eigi alls ekki við þegar unnið er með börnum sem glíma við margþættan vanda og þurfa umfram allt stuðning og aðstoð.“ Óljóst er hvaða hugmyndafræði verið er að tala um hér.
Í samtölum sem blaðamaður hefur átt við konurnar sem um ræðir kemur fram megn óánægja með umrædda afsökunarbeiðni. Einkum er það vegna þess að Barnaverndarstofa skyldi ekki hafa samband við þær beint, en sem fyrr segir hafa átta konur stigið fram opinberlega, undir nafni. Það hefði því átt að vera tiltölulega einfalt að ná sambandi við þær. Þá var ekki send út fréttatilkynning um afsökunarbeiðnina heldur hún aðeins birt á heimasíðu Barnaverndarstofu.
Stundin óskaði eftir því að fá viðtal við Heiðu Björg Pálmadóttur, forstjóra Barnaverndarstofu, meðal annars til að fá frekari skýringar á því sem nefnt er í afsökunarbeiðninni. Heiða Björg vildi hins vegar ekki veita Stundinni viðtal, að sinni.
Athugasemdir