Tobba Marínósdóttir, ritstjóri DV, segir Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómara, hafa valdið því að maður sem var dæmdur fyrir að nauðga henni slapp úr landi og þurfti ekki að sitja inni fyrir brot sitt. Gagnrýnir hún að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hafi samið við Jón Steinar um aðstoð við vinnu við úrbætur í réttarkerfinu.
Tobba skrifar um málið í grein á Vísi og tekur dómgreind Jóns Steinars og Áslaugar Örnu til umfjöllunar. „Í máttlausum tilraunum sínum til að klóra í bakkann hefur Áslaug Arna gefið það út að ráðningarsamningur Jóns snúist ekki beint um kynferðisbrotamál – þvert á móti sé lögð áhersla á efnahagsbrotamál,“ skrifar Tobba. „Það kemur ekki fram í samningi dómsmálaráðuneytisins við Jón Steinar, né kannast Jón sjálfur við það. Í viðtali á Bylgjunni í gær sagðist Jón Steinar ekkert kannast við það að hann ætti að huga að efnahagsbrotum frekar en öðrum málaflokkum.
„Ég get ekki annað séð en að Jóni Steinari hafi verið falið þetta starf í stórkostlegri meðvirkni með einhverju afar undarlegu afli“
Með því að velja svo umdeildan mann til starfa fer öll athygli á manninn ekki málefnið og verða tillögur hans aldrei annað en harðlega gagnrýndar. Ég get ekki annað séð en að Jóni Steinari hafi verið falið þetta starf í stórkostlegri meðvirkni með einhverju afar undarlegu afli. Nú er rétti tíminn til að staldra við og læra af mistökunum.“
Nauðgarinn fór úr landi og aftur til starfa í hernum
Í greininni fer Tobba yfir mál sitt fyrir dómstólum þegar maður var dæmdur fyrir brot gegn henni. „Fyrir rúmum 11 árum varð ég fyrir kynferðisofbeldi,“ skrifar Tobba. „Gerandinn var Bandaríkjamaður og hefði átt að fara úr landi innan við sólarhring eftir að hann var handtekinn. Ég safnaði saman öllum mínum andlega styrk og með hjálp míns góða fólks stóð ég með sjálfri mér og kærði manninn. Hann var í kjölfarið úrskurðaður í gæsluvarðhald og svo síðar, þegar honum var sleppt úr því, í farbann.“
Enginn framsalssamningur er í gildi á milli Íslands og Bandaríkjanna og segir Tobba að ljóst hafi verið að hann mundi aldrei sitja af sér dóminn ef því yrði aflétt. Þremur dögum fyrir dómsuppkvaðningu var farbannið kært og það fellt úr gildi.
„Jón Steinar Gunnlaugsson, þáverandi hæstaréttardómari, fær málið á borð til sín en aðrir dómarar voru Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson,“ skrifar hún. „Tekið skal fram að Jón Steinar hafði enga aðra aðkomu að málinu og var ekki dómari í aðalmeðferð málsins sem átti að ljúka þremur dögum síðar. Jón Steinar hnoðar þá saman í eitt af sínum frægu sératkvæðum þar sem hann segir að ekki sjái hann að rökstuddur grunur sé fyrir hendi að sakborningur hafi gerst sekur um þá háttsemi sem um ræðir.“
Jón Steinar og Ólafur Börkur felldu farbannið úr gildi í óþökk viðars. Skipan þeirra tveggja við Hæstarétt var umdeild á sínum tíma þar sem báðir voru metnir síður hæfir en aðrir umsækjendur og höfðu sterk tengsl við ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Skilaði Ólafur Börkur séráliti við skipan Jóns Steinars gegn átta hæstaréttardómurum sem töldu aðra umsækjendur hæfari og sagði Ólafur Börkur að Jón Steinar væri „afburðamaður“.
Segir Jón Steinar ítrekað hafa sýnt dómgreindarbrest
„Ofbeldismaðurinn er þarna orðinn þreyttur á því að hanga á einu dýrasta hóteli landsins og í líkamsræktarstöð á víxl og er fljótur að láta sig hverfa, enda aðeins þrír dagar í að aðalmeðferð ljúki og átta dagar í dómsuppkvaðningu. Átta dögum seinna er hann sakfelldur – en er þá á bak og burt og engin von um að fá hann framseldan,“ skrifar Tobba.
„Því gat þessi dæmdi kynferðisafbrotamaður haldið aftur til starfa sinna í bandaríska hernum. Áfram gakk.“
Tobba segist ekki vekja athygli á máli sínu í biturð eða reiði heldur til að benda á að kerfið hafi virkað framan af „alveg þangað til að Jón ákvað að kippa því úr sambandi með því að bjóða manninum út bakdyrameginn korteri fyrir dómsuppkvaðningu.“
Gerandinn áfrýjaði málinu í kjölfarið. „Málið endaði þó á þann veg að dómurinn var fjórfaldaður og hann dæmdur í tveggja ára fangelsi. Sem hann hefur aldrei þurft að afplána,“ skrifar Tobba.
„Þetta er ekki fyrsta né síðasta dæmið um vinnubrögð Jóns Steinars“
„Þetta er ekki fyrsta né síðasta dæmið um vinnubrögð Jóns Steinars og af hverju hann er ekki undir neinum kringumstæðum maðurinn sem ætti að kalla til til þess að lagfæra réttarkerfið. Hann hefur ítrekað sýnt dómgreindarbrest sem er engum sæmandi, hvorki lögfræðingi né fyrrum hæstaréttardómara.“
Athugasemdir