Bernhard Esau og Tamson Hatuikulipi munu ekki verða látnir lausir úr gæsluvarðhaldi sem þeir sitja í, grunaðir um að hafa tekið við mútugreiðslum frá Samherja auk fleiri brota. Þetta er niðurstaða dómstóls í höfuðborg Namibíu, Windhoek, frá því fyrr í dag. Beiðni þeirra um að vera látnir lausir gegn tryggingu var þá vísað frá dómi. Frá þessu er greint í namibískum fjölmiðlum.
Réttarhöldin hefjast í apríl
Esau, sem er fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, og Hatuikulipi, hafa setið í gæsluvarðhaldi frá því í lok árs 2019, skömmu eftir að Samherjamálið í Namibíu kom upp. Réttarhöld yfir þeim í tveimur aðskildum en þó tengdum málum munu hefjast í apríl. Komið hefur fram að í málunum verði þeir ákærðir fyrir að hafa þegið mútur frá Samherja, fyrir að hafa misnotað opinbert embætti sem og fyrir peningaþvætti.
Þrír íslenskir núverandi og fyrrverandi starfsmenn Samherja verða einnig ákærðir í Namibíu auk félaga Samherja þar í landi.
„Ég hafði ekki vitneskju um neinar óeðlilegar greiðslur ef þær áttu sér stað á annað borð.“
Kannast ekkert við „óeðlilegar greiðslur“
Samtímis og að þetta á sér stað í Namibíu - nú er ljóst að þeim Esau og Hatuikulipi verður ekki sleppt gegn tryggingu áður en réttarhöldin í Samherjamálinu hefjast - staðhæfir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, að samkvæmt því sem hann best viti hafi engar „óeðliegar greiðslur“ átt sér stað í Namibíu og að ef að þær hafi átt sér stað þá hafi hann ekki vitað um þær. Þetta kom fram í viðtali við Þorstein Má í Fréttablaðinu fyrr í vikunni: „Við teljum að þessar ásakanir séu ekki á rökum reistar og ég hafði ekki vitneskju um neinar óeðlilegar greiðslur ef þær áttu sér stað á annað borð.“
Sagði Þorsteinn Már að ef ólögmætar greiðslur hafi átt sér stað þá væru þær á ábyrgð Jóhannesar Stefánssonar: „Hafi greiðslur átt sér stað sem eru ólögmætar þá voru þær á ábyrgð Jóhannesar Stefánssonar.“ Jóhannes Stefánsson er hins vegar ekki einn þeirra starfsmanna Samherja sem ákæruvaldið í Namibíu hyggst ákæra í málinu.
Ef Þorsteinn Már hefur rétt fyrir sér um mútugreiðslurnar þá skilur ansi mikið á milli hans og ákæruvaldsins í Namibíu hvað varðar ábyrgðina á mútugreiðslunum. Þá er einnig ljóst, ef Þorsteinn Már hefur rétt fyrir sér, að Bernhard Esau og aðrir namibískir sakborningar í málinu hafa setið allan þennan tíma í gæsluvarðhaldi að ósekju. Þá er einnig ljóst að ef þetta er rétt þá eru ásakanir ákæruvaldsins í Namibíu gegn Samherja byggðar á sandi.
Athugasemdir