Fulltrúar kvenna sem lýst hafa illri meðferð og ofbeldi á meðferðarheimilinu sem rekið var í Varpholti og síðar Laugalandi í Eyjafirði funduðu í gær með Heiðu Björgu Pálmadóttur, forstjóra Barnaverndarstofu. Konurnar segja að þeim hafi verið vel tekið og Heiða Björg hafi lýst því að hún vildi að mál þeirra yrði rannsakað af opinberum aðilum.
Brynja Skúladóttir fundaði með Heiðu Björgu í gær fyrir hönd kvennanna, ásamt Gígju Skúladóttur systur sinni. Þær voru báðar vistaðar á meðferðarheimilinu á árunum 1999 til 2001 og lýstu í síðasta tölublaði Stundarinnar ofbeldi, bæði andlegu og líkamlegu, af hálfu Ingjalds Arnþórssonar forstöðumanns heimilisins. „Eitthvað sem ég sagði gerði það að verkum að Ingjaldi fannst ég vanþakklát. Hann varð skyndilega ævareiður og dró mig eina út úr hópnum eftir mölinni á bílastæðinu þannig að ég rispaðist og marðist. Hann tók mig kverkataki og svo öskraði hann yfir mig svívirðingar alla leiðina heim. Þegar þangað var komið hélt niðurlægingin áfram þar sem hann stóð yfir mér í rúminu mínu og öskraði,“ sagði Gígja í viðtali við Stundina.
„Hann tók mig kverkataki og svo öskraði hann yfir mig svívirðingar alla leiðina heim“
Brynja segir í samtali við Stundina að starfsmenn Barnaverndarstofu hafi augljóslega verið búin að kynna sér málið þegar þær systur komu til fundar við þau í gær. „Þau tóku okkur mjög vel og mér fannst ljóst að þau taka þetta mjög alvarlega. Þau eru víst að fara yfir öll gögn sem eru til hjá Barnaverndarstofu og kalla eftir þeim gögnum sem til eru annars staðar í kerfinu. Hún [Heiða Björg] sagðist vongóð um að Ásmundur [Einar Daðason] vilji rannsaka þetta og hún sagðist sjálf vilja að það yrði gert, helst að skipuð yrði óháð nefnd sem rannsakaði málið.“
Í viðtali við Stundina 29. janúar síðastliðinn sagði Heiða Björg, aðspurð um viðbrögð við frásögnum kvennanna: „Við munum fagna einhvers konar skoðun á málunum, gögnunum, ég held að það sé alltaf af hinu góða.“
„Það er sjálfsagt að þú hafir það eftir mér aftur að stofan styðji að það fari fram skoðun á málinu“
Stundin sendi fyrirspurn á Heiðu Björgu þar sem hún var beðin að staðfesta að hún hefði lýst því á fundinum í gær að hún teldi rétt að fram færi opinber rannsókn á starfsemi meðferðarheimilisins í Varpholti og Laugalandi, í ljósi vitnisburðar kvennana um ofbeldi og ofríki þar. Heiða Björg sagði í svari sínu að Barnaverndarsofa styddi að fram færi skoðun á málinu, líkt og félags- og barnamálaráðherra hefði upplýst að væri til athuganar að gera.
„Á fundinum í gær endurtók ég ofangreinda afstöðu og það er sjálfsagt að þú hafir það eftir mér aftur að stofan styðji að það fari fram skoðun á málinu. Stofan treystir ráðherra og ráðuneytinu til að meta með hvaða hætti það verður gert og tekur ekki afstöðu til þess hvort skipa eigi sérstaka rannsóknarnefnd eða setja málið í annan farveg,“ segir í svari Heiðu Bjargar.
Ráðherra tjáir sig ekki fyrr en að afloknum fundi
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sagði í viðtali í síðasta tölublaði Stundarinnar að hann hefði á þeirri stundu ekki efnisleg gögn til að taka afstöðu til hvort skipuð yrði rannsóknarnefnd til að fara ogan í saumana á starfseminni í Varpholti og á Laugalandi á árunum 1997 til 2007, undir forstöðu Ingjalds. Ellefu nafngreindar konur sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu rituðu Ásmundi bréf 1. febrúar síðastliðinn þar sem þær fóru fram á að slík rannsóknarnefnd yrði skipuð. Ásmundur á fund með fulltrúum kvennana á morgun og ekki er ólíklegt að mál skýrist í framhaldinu. Samkvæmt svari frá félagsmálaráðuneytinu við fyrirspurn Stundarinnar er málið í skoðun innan ráðuneytisins og mun Ásmundur bíða með að tjá sig um um málið fyrr en eftir fund hans með konunum.
„Ég hef látið vita af því í ráðuneytinu að ég vil mjög gjarnan taka þátt í rannsókn á þessu máli en ég vil ekki tala við blaðamenn"
Stundin hefur að undanförnu rætt við ýmsa sem komu að starfsemi meðferðarheimilisins. Hafa fæstir viljað láta hafa neitt eftir sér. Þar á meðal er Bryndís Símonardóttir, fjölskyldufræðingur sem veitti fostöðuhjónunum, Ingjaldi og konu hans, Áslaugu Brynjarsdóttur, handleiðslu einu sinni í viku frá árinu 2002 og síðan stúlkunum og fjölskyldum þeirra frá árinu 2005. „Ég hef látið vita af því í ráðuneytinu að ég vil mjög gjarnan taka þátt í rannsókn á þessu máli en ég vil ekki tala við blaðamenn," sagði Bryndís.
Athugasemdir