Sex konur sem á unglingsárum voru vistaðar á meðferðarheimilum sem Ingjaldur Arnþórsson stýrði frá árinu 1997 til 2007 segja að þær hafi verið beittar alvarlegu og kerfisbundnu andlegu og líkamlegu ofbeldi. Þær segjast stíga fram í nýju tölublaði Stundarinnar, sem kom út í dag, því þær vilji að barnaverndaryfirvöld gangist við að hafa brugðist þeim og að þau biðjist afsökunar. Ingjaldur sjálfur hafnar því alfarið að hafa nokkurn tíma beitt nokkra stúlku sem dvaldi á meðferðarheimilunum ofbeldi, hvorki andlegu né líkamlegu.
Þegar árið 2000 komu fram ábendingar og tilkynningar um illa meðferð stúlkna sem voru vistaðar á meðferðarheimilinu Varpholti, síðar að Laugalandi í Eyjafirði. Tilkynningum þess efnis var beint bæði til Barnaverndarstofu og umboðsmanns barna. Tilkynningarnar voru frá stúlkum sem höfðu dvalist á meðferðarheimilunum og frá foreldrum þeirra.
Konurnar sem nú stíga fram í Stundinni vilja að fram fari opinber rannsókn á tímabilinu sem Ingjaldur var forstöðumaður meðferðarheimilanna. Ingjaldur tók við rekstri meðferðarheimilis fyrir unglingsstúlkur í Varpholti í Eyjafirði árið 1997. Þremur árum síðar var starfsemin flutt að Laugalandi í Eyjafirði. Ingjaldur var forstöðumaður þess til ársins 2007. Barnaverndarstofa hafði umsjón með meðferðarheimilinu. Rétt er að geta þess að konurnar bera eftirmanni Ingjalds, Pétri G. Broddasyni mjög vel söguna og telja að það starf sem hann hefur unnið eftir að hann tók við sem forstöðumaður sé ómetanlegt.
„Hann skrifaði ekkert niður og ekkert gerðist í kjölfarið“
Ein kvennanna sem segir sögu sína í Stundinni segist hafa sagt Braga Guðbrandssyni, forstjóra Barnaverndarstofu, frá ofbeldinu árið 2001. „Ég fór til Braga þegar ég var 17 ára og nýbyrjuð í Iðnskólanum. Það var árið 2001. Ég sat inni á skrifstofunni hans og sagði honum frá því sem hafði komið fyrir mig, sagði honum frá ofbeldinu í Varpholti og Laugalandi. Hann var rólegur og hlustaði á mig og sagði bara „já“ og svo var fundinum lokið og hann kvaddi mig. Hann skrifaði ekkert niður og ekkert gerðist í kjölfarið,“ segir Kolbrún Þorsteinsdóttir sem lýsir því í viðtali í Stundinni að hún hafi verið skelfingu lostin frá fyrsta degi þegar hún kom í Varpholt. Ástæðan var andlegt og líkamlegt ofbeldi Ingjaldar í hennar garð og hinna stúlknanna.
Bragi segir í viðtali í Stundinni að hann reki ekki minni til þess að hafa átt slíkan fund, þótt hann útiloki það ekki. Sama ár bárust umboðsmanni barna ábendingar um að stúlkurnar væru beittar ofbeldi. Þrjár stúlkur sem höfðu verið vistaðar á meðferðarheimilunum fóru á fund umboðsmanns barna og lýstu illri meðferð og ofbeldi. Í gögnum frá umboðsmanni barna segir að ábendingarnar séu teknar alvarlega og að um fjölmörg mannréttindabrot gagnvart stúlkunum væri að ræða ef satt reyndist. Úttekt Barnaverndarstofu á heimilinu í kjölfarið leiddi ekkert misjafnt í ljós og málið var látið niður falla.
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra staðfestir í samtali við Stundina að hann hafi fengið vitneskju um reynslu stúlknanna fyrir nokkrum dögum og segir að hann og ráðuneytið muni kynna sér málið nánar strax í næstu viku.
Stundin mun á næstunni birta frásagnir kvennanna og frekari gögn málsins.
Athugasemdir