Eitt af því sem kannað verður í athugun landlæknisembættisins, vegna hópsýkingar sem varð á Landakoti, er hvort Landakot uppfylli lágmarkskröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu. Þá verður kannað hvort hópsýking sem varð á Landakoti í vor hafi verið tilkynningarskyld sem óvænt atvik samkvæmt lögum um landlækni. Þetta kemur fram í svari Ölmu D. Möller landlæknis við fyrirspurn Stundarinnar um hópsýkingarnar tvær á Landakoti.
Hópsýkingin sem kom upp á Landakoti undir lok októbermánaðar er að sögn landlæknis og sóttvarnalæknis, alvarlegasta atvik sem komið hefur upp í íslenskri heilbrigðisþjónstu. Þréttán manns hafa dáið af völdum hennar og á annað hundrað manns smitast, þar af starfsmenn og sjúklingar á Landakoti, Reykjalundi og hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka auk annarra.
Samkvæmt innri skoðun Landspítalans á hópsýkingunni sýktust allir sjúklingar á einni deild Landakots af COVID-19. Meðal þeirra voru sjúklingar sem höfðu útskrifast og verið sendir á aðrar stofnanir. Skoðunin leiddi í ljós að ástand húsnæðis, loftskipta og aðbúnaðar á Landakoti væri ófullnægjandi og að líklegt sé að þeir þættir hafi valdið því hversu mikil dreifing varð á smiti innan stofnunarinnar.
„Getur ráðherra þá tekið ákvörðun um að stöðva rekstur tímabundið, þar til bætt hefur verið úr annmörkum, eða stöðva rekstur að fullu.“
Þá kemur einnig fram að mannekla hafi komið í veg fyrir að hægt væri að hólfaskipta starfseminni eftir deildum til að verjast dreifingu á smitum. Einnig var ljóst að tækjakostur á Landakoti var ekki nægjanlegur svo flytja þurfti tæki á milli deilda með tilheyrandi áhættu.
Tilkynningarskylt atvik
Stundin sendi formlega fyrirspurn í níu liðum á landlækni þann 20.nóvember síðastliðinn og bárust svör við henni í dag.
Landlæknir var spurður hvort að hópsmitið sem kom upp á Landakoti í vor hefði átt að vera tilkynnt sem óvænt eða alvarlegt atvik. Landlæknir segir erfitt að svara þeirri spurningu þar sem embættið hafi ekki fengið upplýsingar um smitin sem komu upp á Landakoti í mars síðastliðnum.
Í yfirstandandi rannsókn sem embættið vinnur nú um hópsýkingu á Landakoti verður einnig aflað upplýsinga um atvikið sem átti sér stað í mars og vitnar landlæknir í því samhengi í 10. grein laga um landlækni og lýðheilsu en í þeim segir að „heilbrigðisstofnunum, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum sem veita heilbrigðisþjónustu bera að tilkynna landlækni án tafar um óvænt atvik sem valdið hefur eða hefði getað valdið sjúklingi alvarlegu tjóni, svo sem dauða eða varanlegum örkumlum.“
Í sömu grein segir að „verði óvænt dauðsfall á heilbrigðisstofnun eða annars staðar þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt, sem ætla má að rekja megi til mistaka, vanrækslu eða óhappatilviks við meðferð eða forvarnir vegna sjúkdóms, skal auk tilkynningar til landlæknis tilkynna það til lögreglu í samræmi við ákvæði til laga um dánarvottorð, krufningar og fleira.“
Tilkynningarskylda tilkynningaskyldra sjúkdóma
Landlæknir segir COVID-19 vera tilkynningarskyldan sjúkdóm og því beri að tilkynna sóttvarnalækni þegar veiran greinist í fólki og það hafi verið gert í mars. „Þetta þýðir þó ekki að gefa eigi afslátt á þeirri lögbundnu kröfu að tilkynna um alvarleg atvik þegar þau eiga sér stað, jafnvel þó svo að atvikið varði tilkynningarskyldan sjúkdóm og hafi þegar verið tilkynnt til sóttvarnarlæknis,“ segir landlæknir og heldur svo áfram:
„Þess ber þó að geta að í mars var þekking á faraldrinum og ýmsu honum tengdum minni en núna og reikna mátti með að upp kæmu smit inni á heilbrigðisstofnunum þrátt fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir.“
„Þetta þýðir þó ekki að gefa eigi afslátt á þeirri lögbundnu kröfu að tilkynna um alvarleg atvik.“
Komið hefur í ljós að einn sjúklingur hafi látið lífið vegna hópsýkingar á Landakoti í mars.
Aðspurð hvort tilkynning um óvænt eða alvarlegt atvik, eins og hópsýkingin nú í október, hefur verið tilkynnt sem, feli ekki í sér að um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða segir landlæknir að hvergi segi í 10. grein laganna um að tilkynning um alvarlegt atvik feli í sér viðurkenningu eða vitnisburð um mistök eða vanrækslu. „Enda geta orsök slíkra atvika verið af margvíslegum toga. Ástæðurnar geta líka verið óhappatilvik.“
Lágmarkskröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu
Í 6.grein laga um landlækni og lýðheilsu segir að „ráðherra skal, að fengnum tillögum landlæknis og að höfðu samráði við viðkomandi heilbrigðisstéttir, kveða í reglugerð á um faglegar lágmarkskröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu á einstökum sviðum. Reglugerðin skal byggjast á þekkingu og aðstæðum á hverjum tíma og skal hún endurskoðuð reglulega. Í reglugerðinni skal meðal annars kveða á um lágmarkskröfur um mönnun, húsnæði, aðstöðu, tæki og búnað til reksturs heilbrigðisþjónustu.“
Samkvæmt lögunum skal tilkynna landlækni ef meiri háttar breytingar verða á mönnun, búnaði, starfsemi og þjónustu rekstraraðila. Landlæknir þarf þá að staðfesta hvort reksturinn uppfylli faglegar kröfur og önnur skilyrði í heilbrigðislöggjöf. Þá er landlækni heimilt að gera frekari kröfur á starfsemi sé það talið nauðsynlegt vegna eðlis þeirrar starfsemi sem um er að ræða.
Þá segir í 7. grein laganna að „Landlæknir skal hafa reglubundið eftirlit með því að heilbrigðisþjónusta sem veitt er hér á landi uppfylli faglegar kröfur og ákvæði heilbrigðislöggjafar á hverjum tíma. Landlæknir hefur heimild til að krefja heilbrigðisstarfsmenn, heilbrigðisstofnanir og aðra sem veita heilbrigðisþjónustu um upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg til að sinna eftirlitshlutverki sínu og er þeim skylt að verða við slíkri kröfu. Landlæknir skal eiga greiðan aðgang að heilbrigðisstofnunum og starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna til eftirlits samkvæmt lögum þessum.“
Enn fremur segir í 7.grein að „Telji landlæknir að heilbrigðisþjónusta uppfylli ekki faglegar kröfur skv. 6. gr. eða önnur skilyrði í heilbrigðislöggjöf skal hann beina tilmælum um úrbætur til rekstraraðila. Verði rekstraraðili ekki við slíkum tilmælum ber landlækni að skýra ráðherra frá málinu og gera tillögur um hvað gera skuli. Getur ráðherra þá tekið ákvörðun um að stöðva rekstur tímabundið, þar til bætt hefur verið úr annmörkum, eða stöðva rekstur að fullu.“
Landlæknir staðfestir í svörum við fyrirspurn Stundarinnar að hluti af þeirri rannsókn sem nú fer fram hjá embættinu sé að skoða hvort Landakot uppfylli lágmarkskröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu. Aðspurð hvort landlæknir hafi beint tilmælum um úrbætur til rekstraraðila Landakots segir hún að embættið hafi ekki til þessa gert úttekt á Landakoti og þar með hafi tilmælum ekki verið beint um úrbætur. „Hins vegar hefur embættið marg oft og ítrekað vakið athygli á þeim skorti sem almennt er á heilbrigðisstarfsfólki hér á landi, þá sérstaklega hjúkrunarfræðingum,“ segir í svari frá embættinu.
Athugasemdir