Fjögur börn Kristjáns Vilhelmssonar keyptu nærri 30 milljarða króna eignarhlut í Samherja af föður sínum í gegnum eignarhaldsfélagið Anders ehf. fyrr á þessu ári. Kristján hefur í gegnum árin haldið utan um stærstan hluta af hlutabréfaeign sinni í Samherja, langstærsta útgerðarfélagi landsins með tilliti til starfsemi innan og utan Íslands, á sinni eigin kennitölu en ekki í gegnum eignarhaldsfélag eins og til dæmis Þorsteinn Már Baldvinsson hefur gert. Börn hans fjögur munu hins vegar halda utan um hlutabréfaeign sína til framtíðar í umræddu eignarhaldsfélagi.
Um er að ræða stærstu viðskipti, í peningum talið, með hlutabréf í íslensku útgerðarfélagi í Íslandssögunni enda er Samherji langstærsta útgerðarfélag sem verið hefur til hér á landi. Samtals var um að ræða viðskipti með 86,5 prósenta hlut í Samherja. Kaupverðið í viðskiptunum, bæði hlutir barna Kristjáns og Þorsteins Más, er rúmlega 60 milljarðar króna, ef það er sannarlega þannig að öll hlutabréfin í viðskiptunum hafi verið seld til barnanna og enginn hluti þeirra verið arfur.
Börn Þorsteins komu inn í fyrra
Anders ehf. skilaði ársreikningi fyrir árið 2019 til ársreikningaskrár Ríkisskattstjóra í lok september síðastliðin og er minnst á kaup félagsins á hlutabréfunum í Samherja í honum. Orðrétt segir þar: „Á árinu 2020 keypti félagið eignarhlut í Samherja hf.“
„Á árinu 2020 keypti félagið eignarhlut í Samherja hf“
Eigendur félagsins eru Kristján Bjarni Kristjánsson, Katrín Kristjánsdóttir, Halldór Örn Kristjánsson og Dagný Linda Kristjánsdóttir. Um er að ræða 41,5 prósenta hlut í Samherja sem börn Kristjáns eignast.
Þetta er frábrugðið viðskiptum barna Þorsteins Más með hlutabréf í Samherja en þau keyptu bréf föður síns og móður í fyrra. Óljóst er af hverju börn Þorsteins eignuðust bréfin í Samherja í fyrra en börn Kristjáns í ár.
Fram að þessum viðskiptum hafði Anders ekki verið mjög umsvifamikið félag. Anders hefur verið fjármagnað með rúmlega 100 milljóna króna láni frá hluthöfum félagsins og hefur helsta eign félagsins verið hlutur í fasteignafélaginu Heimavöllum sem bókfærður var á 90 milljónir í ársloks 2019. Eigið fé félagsins - eignir mínus skuldir - var neikvætt um rúmlega 11 milljónir króna í lok ársins.
Ljóst er því að félagið hefur sjálft ekki haft bolmagn til að taka þátt í milljarða fjárfestingum með bréf í Samherja, að öllu óbreyttu.
Óljóst með fjármögnun en börn Þorsteins fá lán
Þegar greint var því að börn þeirra Þorsteins og Kristjáns væru að eignast nær öll hlutabréf þeirra í Samherja síðastlið vor þá var ekki sagt frá því hvernig viðskiptin væru fjármögnuð, hversu mikið af bréfunum hefðu skipt um hendur með kaupum á þeim eða hvort, og þá hversu mikið, af þeim hefðu skipt um hendur sem arfur.
Stundin greindi frá því í gær að eignarhaldsfélag barna Þorsteins Más Baldvinssonar, Baldvins og Kötlu Þorsteinsbarna, hefði fengið seljendalán frá eignarhaldsfélagi föður síns og móður, Helgu S. Guðmundsdóttur, til að kaupa hlutabréfin af þeim. Um var að ræða 29 milljarða króna langtímalán sem greiðist til baka á 25 árum með ríflega eins milljarðs króna afborgun á ári. Félag Baldvins og Kötlu heitir K&B ehf.
Með því að selja bréfin með þessum hætti, sem er fullkomlega lögmætt og stenst skoðun skattalega samkvæmt sérfræðingi sem Stundin ræddi við, myndast ekki skylda til að greiða erfðafjárskatt upp á 10 prósent af eignunum líkt og gerst hefði ef börnin hefðu fengið eignirnar í arf.
Ekki liggur fyrir að eignarhaldsfélag barna Kristjáns hafi gert sambærilegan samning um fjármögnun viðskiptanna við föður þeirra. Munurinn á Kristjáni og Þorsteini Má er hins vegar sá, líklegt og áður verið tæpt á, að Kristján hefur alltaf haldið persónulega á hlutabréfum sínum í Samherja, á sinni eigin kennitölu, á meðan Þorsteinn Már hefur notast við eignarhaldsfélag. Því er það svo í tilfelli Þorsteins Más að það er eignarhaldsfélag hans sem lánar félagi barna hans fyrir bréfunum í Samherja á meðan það hlýtur að vera Kristján sjálfur sem er lánveitandi barna sinna í viðskiptunum ef hann hefur lánað þeim fyrir Samherjabréfunum með sams konar hætti og Þorsteinn Már hefur gert.
Athugasemdir