Hópsýkingu Covid-19 kórónaveirunnar sem kom upp á Landakoti í síðasta mánuði er lýst sem alvarlegasta atviki sem komið hefur upp í íslenskri heilbrigðisþjónustu, að mati landlæknis og sóttvarnarlæknis. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra neitaði þrátt fyrir þetta ítrekuðum beiðnum Stundarinnar um viðtal um málið. „Ráðherra mun ekki tjá sig um þetta mál í fjölmiðlum, enda málið ekki á hennar borði,“ sagði í tölvupósti sem aðstoðarmaður Svandísar, Birgir Jakobsson, fyrrverandi landlæknir, sendi Stundinni.
Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40 frá árinu 2007 fer heilbrigðisráðherra með yfirstjórn heilbrigðismála. Í sömu lögum segir einnig að ráðherra skipi forstjóra heilbrigðisstofnana, þar á meðal forstjóra Landspítala, en Landakot er hluti Landspítala. Ráðherra skipar einnig landlækni sem starfar undir yfirstjórn ráðherra, samkvæmt lögum nr. 41 frá 2007 um landlækni og lýðheilsu, en meðal hlutverka landlæknis er að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Samkvæmt lögum um sóttvarnir nr. 19 frá 1997 ber embætti landlæknis ábyrgð á framkvæmd sóttvarna, „undir yfirstjórn [ráðherra].“
„Ráðherra mun ekki tjá sig um þetta mál í fjölmiðlum enda málið ekki á hennar borði“
Engu að síður telur ráðherra málefni Landakots og hópsýkingu kórónaveiru þar „ekki á hennar borði“. Í síðari pósti Birgis til Stundarinnar, eftir að gengið var enn harðar eftir viðbrögðum frá ráðherra, sagði að ekki væri rétt að ráðherra tjáði sig um mál sem hefðu verið tilkynnt sem alvarleg atvik til landlæknis.
Athugasemdir