Allt mitt líf snýst um músík, bæði nú og hefur gert alla tíð. Ég er því sem næst alæta á tónlist, ég fíla held ég bara næstum allar tónlistarstefnur, hvort sem það er klassísk tónlist eða rapp og bara allt þar á milli.
Öll fjölskyldan mín er í tónlist og hefur alltaf verið og ætli megi ekki segja að ég hafi fengið áhugann bara með móðurmjólkinni. Foreldrar mínir syngja báðir í kór, amma mín líka og stórfjölskyldan er meira og minna í músík, alls konar músík, allt frá klassík og yfir í rapp.
Ég er sjálf í Menntaskólanum í tónlist, að læra klassískan söng og klassíska fiðlu. Ég hef æft á fiðlu frá því ég var átta ára gömul og hef verið syngjandi síðan ég var fjögurra ára. Á fiðluna lærði ég fyrst í Tónmenntaskóla Reykjavíkur, áður en ég fór í Menntaskólann í tónlist, þaðan sem ég klára nám í vor. Ég hef svo sungið í stúlknakór Reykjavíkur frá því ég var fjögurra ára.
Ég stefni á að fara út að læra meira. Mig langar til að fara út að læra klassískan söng en ég gæti líka vel hugsað mér að læra söngleikjafræði, ég hef ofsalegan áhuga á þeim. Þeir gleðja og létta lundina, eins og tónlist gerir yfirleitt. Það er nú ekki lítið mikilvægt á tímum sem þessum.
Athugasemdir