Ég vinn í Máli og menningu. Mér hefur alltaf þótt vænt um þessa verslun og þetta hús. Ég get þó ekki sagt að ég sé áhugamaður um klassískar bókmenntir, Laxness eða slíkt, í rauninni ekki. Ég er hins vegar gríðarlegur áhugamaður um fantasíubókmenntir. Ég er búinn að sækja þrisvar sinnum um í Nexus! Þeir eru með ferilskrána mína í þríriti, og kannski ég geti litið á núverandi vinnuna mína sem starfsreynslu til að komast þangað.
Ég hef haft áhuga á fantasíubókmenntum frá því ég var krakki. Það fer reyndar fyrir brjóstið á mér hvernig litið er á þennan bókmenntageira, hann er stimplaður sem svo að hann sé fyrir börn en ævisögur, stríðssögur eða „ó, ég var nærri dáinn úr neyslu“-sögur sem bækur fyrir fullorðna. Það eru fyrir mér bara ofsalega langar fréttir, þungar, sem draga úr mér orku ef ég reyni að lesa þær. Að lesa fantasíubókmenntir þykir mér hins vegar skemmtilegt, þar fær ímyndunaraflið að ráða.
Ég elskaði til dæmis Harry Potter-bækurnar, og geri í raun enn. Ég hef barist fyrir því að aðskilja höfundinn J.K. Rowling frá bókunum sjálfum, hún hefur engan yfirráðarétt yfir upplifun okkar og fantasíum. Ég hins vegar mun ekki kaupa neinn varning sem hún getur hagnast á því ég get ekki stutt manneskju sem heldur á lofti transfóbískum skoðunum eins og hún gerir.
Athugasemdir