Kynnisferðir, eða Reykjavík Excursions, fyrirtækið sem rekur Flybus rútuferðirnar til og frá Keflavíkurflugvelli, telja sig ekki falla undir skilgreiningu embættis landlæknis á þeim aðilum sem óheimilt er að flytja komufarþega á leið í sóttkví. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra stefnir að því að heimila Kynnisferðum að keyra áfram samkvæmt upplýsingum frá embættinu.
Kynnisferðir hafa haldið áfram að flytja komufarþega frá vellinum til höfuðborgarsvæðisins miðvikudag og fimmtudag, eftir að nýjar reglur um sóttvarnir tóku gildi. Samkvæmt þeim er óheimilt fyrir komufarþega að taka strætisvagn eða rútu frá Leifsstöð. Komufarþegar geta nú valið um 14 daga sóttkví eða tvær sýnatökur. Sú fyrri er við landamærin, en sú síðari eftir 5 til 6 daga sóttkví.
Samkeppnisaðilar Kynnisferða hafa ekki flutt komufarþega frá því að reglurnar tóku gildi. Airport Direct hefur stöðvað rútuferðir frá flugvellinum samkvæmt þjónustuveri og Strætó birti tilkynningu þess efnis að komufarþegum væri óheimilt að nota almenningssamgöngur á leið sinni á sóttkvíarstað. Hvorugur aðilinn hefur sent erindi vegna málsins.
Í upplýsingum embættis landlæknis kemur skýrt fram að komufarþegum sé einungis heimilt að ferðast frá flugvellinum á sóttkvíarstað með einkabíl, bílaleigubíl eða leigubíl. Frá því að farið er frá landamærastöð gilda reglur um sóttkví og einstaklingur „má ekki nota almenningssamgöngur (innanlandsflug, strætisvagna, hópferðabíla) eingöngu leigubíla, bílaleigubíla eða einkabíl“, eins og segir í upplýsingunum.
Erindi Kynnisferða er nú til meðferðar hjá Samgöngustofu, sem mun leggja fram drög að reglum sem almannavarnadeild vinnur áfram með þeim. Uppfylla þarf ákveðin skilyrði fyrir akstrinum.
Kynnisferðir eru í meirihlutaeigu fjölskyldu Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra, sem oftast er kölluð Engeyjarættin. Félagið Alfa hf. á 65 prósent hlut í fyrirtækinu og eru stærstu hluthafar þess Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna, Guðríður Jónsdóttir, móðir Bjarna, Jón Benediktsson, bróðir Bjarna, Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna, og börn Einars.
Athugasemdir