Þorbjörn Þórðarson, fyrrverandi fréttamaður Stöðvar 2, kom að gerð myndbands Samherja þar sem því var haldið fram að Helgi Seljan, fréttamaður RÚV, hefði falsað gögn sem leitt hefðu til húsleitar hjá Samherja og áralangs málareksturs vegna gruns um gjaldeyrisbrot fyrirtækisins. Þetta staðfesta heimildir Stundarinnar.
Í myndbandinu er því haldið fram að Helgi hafi árið 2012 byggt umfjöllun sína um meint brot Samherja á gjaldeyrislögum í Kastljósi á gögnum sem hafi verið röng, hann hafi ýmist breytt umræddum gögnum eða falsað þau. Í myndbandinu komu fram tveir aðilar sem starfa fyrir Samherja, en voru ekki kynntir sem slíkir, auk viðskiptafélaga forstjóra fyrirtækisins.
Verðlagsstofa skiptaverðs staðfesti hins vegar í gær að gögnin sem Helgi studdist við væru til og hefðu verið unnin af starfsmanni. Þá hafa fleiri aðilar staðfest opinberlega að hafa fengið gögnin í hendurnar, en þau voru merkt sem trúnaðarmál.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagði í þessu samhengi að Helgi hefði sagt þjóðinni ósatt og brotið lög. „Það er nauðsynlegt að almenningur viti hvernig trúnaðarmaður fólksins, fréttamaður á Ríkisútvarpinu, fer með heimildir, breytir þeim og hagræðir og lagar fréttaflutning að eigin geðþótta, þvert á lög,“ sagði hann í forsíðufrétt Fréttablaðsins um myndband Samherja.
Þorsteinn Már er einn af tuttugu stærstu hluthöfum Sýnar, félagsins sem rekur Stöð 2, Vísi og fleiri miðla.
Réðu fólk í krísustjórnun vegna uppljóstrana
Þorbjörn var fenginn til ráðgjafar Samherja síðasta haust í kjölfar uppljóstrana Stundarinnar, Kveiks, Wikileaks og Al Jazeera um mútugreiðslur fyrirtækisins til þess að komast yfir hestamakrílskvóta í Namibíu. Helgi Seljan var meðal þeirra sem unnu þá umfjöllun fyrir Kveik, en hann hafði áður fjallað um meint gjaldeyrisbrot Samherja fyrir Kastljós.
Þorbjörn er lögfræðimenntaður og hlaut réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi í fyrra. Hann var fréttamaður á Stöð 2 í um áratug og var tilnefndur til blaðamannaverðlauna fyrir störf sín, en hætti hjá fjölmiðlinum í júlí í fyrra. Í kjölfarið stofnaði hann LPR lögmannsstofu, ásamt Halldóri Reyni Halldórssyni, sem samkvæmt heimasíðu sinnir lögmennsku og almannatengslum. Á Þorbjörn 99 prósenta hlut í félaginu.
Samherji hefur leitað fanga víða til að sinna fjölmiðlaumfjöllun, krísustjórnun og innri rannsókn vegna Namibíustarfseminnar. Í Noregi fékk fyrirtækið Håkon Borud, meðeiganda og ráðgjafa hjá First House ráðgjafarfyrirtækinu, til starfa. Hann er fyrrverandi fréttastjóri Aftenposten með 25 ára reynslu sem blaðamaður og ritstjóri í norskum fjölmiðlum. Árið 2016 gekk hann til liðs við First House og er nú meðeigandi. Þá leitaði Samherji til norsku lögfræðistofunnar Wikborg Rein til að sinna innri rannsókn fyrirtækisins á starfseminni í Namibíu, sem kynnt var með tilkynningu daginn áður en umfjöllunin fór í loftið. Stofan er stærsta lögfræðistofa Noregs, með skrifstofur í Osló og Bergen og erlendis í London, Singapúr og Sjanghæ. Rannsókninni lauk í sumar, en Samherji hefur ekki viljað birta niðurstöðurnar opinberlega.
Ekki náðist í Þorbjörn við vinnslu fréttarinnar.
Athugasemdir