Forstjóri almenningshlutafélagsins Festis, Eggert Þór Kristófersson, hefur ekki viljað svara spurningum um viðskipti félagsins með orkufyrirtækið Íslenska orkumiðlun. Festi er í meirihlutaeigu íslenska lífeyrissjóða og þar með iðgjaldagreiðenda þeirra.
Festi, sem meðal annars rekur olíufélagið N1 og verslanakeðjuna Krónuna, keypti orkusölufyrirtækið Íslenska orkumiðlun fyrr á árinu.
Kaupverðið var 850 milljónir króna og er helsti kjarninn í eignasafni fyrirtækisins viðskiptavild, óefnislegar eignir, upp á 601 milljón króna. Viðskiptavildin á bak við kaupin kom fram í árshlutauppgjöri Festar sem kynnt var fyrir helgi. Aðrar eignir Íslenskrar orkumiðlunar eru útistandandi kröfur upp á 200 milljónir króna vegna sölu á rafmagni.
Eggert telur kaupin hafa verið hagstæð
Kaupin á Íslenskri orkumiðlun vekja meðal annars athygli vegna þess að fyrirtækið er aðeins þriggja ára gamalt og hjá því vinna einungis tveir starfsmenn. Félagið á nánast engar efnislegar eignir nema tölvubúnað og tæki fyrir nokkrar milljónir króna auk áðurnefndra viðskiptakrafna. Spurningin er því hvort kaupverð fyrirtækisins, 850 milljónir króna, teljist ekki nokkuð hátt.
Ein af spurningunum sem Eggert þó svarar er um kaupverðið og telur forstjórinn það vera hagstætt fyrir almenningshlutafélagið: „Í kynningunni kemur fram að Festi keypti félagið á 5,2 sinnum hagnað eða EBITDA sem er mjög gott verð fyrir Festi,“ sagði hann í tölvupósti á föstudaginn.
„Mjög gott verð fyrir Festi.“
Ein af spurningunum sem Eggert hefur ekki svarað er af hverju Festi stofnaði ekki frekar sitt eigið orkusölufyrirtæki í stað þess að greiða 850 milljónir fyrir þetta tiltölulega nýstofnaða tveggja manna fyrirtæki.
Æðstu stjórnendur tengdir stærsta hluthafanum
Eins og Stundin hefur greint frá eru tveir æðstu stjórnendur Festis, forstjórinn Eggert Þór og Þórður Már Jóhannesson, stjórnarformaður Festis, tengdir stofnanda og stærsta hluthafa Íslenskrar orkumiðlunar, Bjarna Ármannsyni.
Eggert Þór var framkvæmdastjóri fjárfestingarfélags Bjarna, Sjávarsýnar, á árunum 2008 til 2011 og vann áður með Bjarna þegar hann var forstjóri Glitnis og Eggert var framkvæmdastjóri eignastýringar bankans. Þórður Már og Bjarni eru vinir og unnu saman bæði í Kaupþingi og síðar í fjárfestingarbankanum Straumi og hafa átt saman fjárfestingarfélag sem hét Kría.
Eigendur Íslenskrar orkumiðlunar voru áðurnefndur Bjarni Ármannssons, framkvæmdastjóri félagsins, Magnús Júlíusson, Kaupfélag Skagfirðinga, sem meðal annars á útgerðarfélagið FISK Seafood og Ísfélagið í Vestmannaeyjum, útgerðarfélag Guðbjargar Matthíasdóttur.
Áður en Stundin fjallaði um málið höfðu formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, og bloggarinn Guðmundur Hörður vakið athygli á því.
Viðskiptavildin óskýrð sem og hverjir kúnnarnir eru
Stundin hefur reynt að fá svör við nokkrum spurningum frá Eggerti Þór um eðli þessara viðskipta. Ein af spurningunum er hverjir það eru sem eru helstu viðskiptavinir Íslenskrar orkumiðlunar. Þetta skiptir máli því viðskiptavild félagsins hlýtur að byggja á þeim orkusölusamningum sem félagið hefur gert við viðskiptavini þess til lengri tíma litið þar sem félagið kaupir og selur rafmagn. Þegar tilkynnt var um kaupin í mars síðastliðinn kom fram að stærstu viðskiptavinir félagsins væru í sjávarútvegi. „Viðskiptavinir í sjávarútvegi eru stærstu viðskiptavinir félagsins,“ sagði í fréttum um viðskiptum.
Í ljósi þess hverjir eru í eigendahópi Íslenskrar orkumiðlunar, tvær af stærstu útgerðum landsins, þá er ein af spurningunum sem vaknar hvort eignasafn félagsins, sem að stóru leyti er viðskiptavild, byggi meðal annars á samningum sem félagið hefur gert við sína eigin hluthafa og eða tengda aðila.
Önnur spurning sem Eggert hefur ekki viljað svara er hvort hann telji að það sé eðlilegt að félag sem hann fer fyrir sem forstjóri komi að viðskiptum við félag þar sem Bjarni Ármannsson er svo stór hluthafi. „Þú ert vinur og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjárfestingarfélags Bjarna Ármannssonar, sama fjárfestingarfélags, og Festi kaupir hlutinn í Íslenskri orkumiðlun af. Finnst þér eðlilegt að þú, eða félag sem þú ferð fyrir sem forstjóri, eigir í slíkum viðskiptum við félag sem þú tengist eins sterkum böndum?“
Þessu hefur Eggert ekki svarað.
Athugasemdir