Samherji hefur aldrei greitt Swapo-flokknum neina fjármuni, segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri fyrirtækisins, í svari við fyrirspurn Stundarinnar.
The Namibian greindi frá því í dag að blaðið hefði heimildir fyrir því að Swapo flokkurinn, sem hefur verið ráðandi í stjórnmálum Namibíu um áratuga skeið, hafi fengið greiðslur frá útgerðarfélaginu Samherja. „Milljónir voru greiddar inn á reiknings sem Swapo stjórnar,“ að því er fram kemur í blaðinu. Munu þær hafa átt sér stað árið 2017, skömmu fyrir landsþing flokksins, og farið fram í gegnum lögmannsstofu.
„Samherji hefur aldrei greitt Swapo-flokknum neina fjármuni, hvorki beint né í gegnum millilið,“ segir Björgólfur í svari við fyrirspurn Stundarinnar. „Þessi frétt The Namibian er því röng. Við væntum þess að rangfærslurnar verði ekki endurfluttar.“
Eins og Stundin, Kveikur, Al Jazeera og Wikileaks greindu frá í fyrra sýna gögn hvernig Samherji greiddi skipulega hundruð milljóna króna í mútur til stjórnmálamanna og tengdra aðila í Namibíu, til að fá hestamakrílkvóta sem lagði grunn að stórum hluta af hagnaði félagsins undanfarin ár. Hagnaðurinn og mútugreiðslurnar runnu í gegnum net skattaskjóla.
Björgólfur tók við af Þorsteini Má Baldvinssyni, sem steig til hliðar sem forstjóri eftir að upplýst var um málið í nóvember í fyrra. Þorsteinn Már snéri aftur í mars og hafa þeir starfað saman síðan.
Athugasemdir