Flokkur fólksins vill að Reykjavíkurborg ráðist í átak gegn hættulegu húsnæði í borginni með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði.
Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi lagði tillöguna fram á fundi skipulags- og samgönguráðs á miðvikudag. Lagt er til að slökkviliðsstjóri og byggingarfulltrúi skipuleggi og sjái um framkvæmd aðgerða. „Harmleikurinn sem átti sér stað þegar kviknaði í illa búnu húsnæði á Bræðraborgarstíg átti sér aðdraganda,“ segir í tillögunni. „Aðbúnaður í húsinu hafði áður komið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Í þessu tilviki var um að ræða húsnæði sem nýtt var til útleigu umfram það sem eðlilegt getur talist þrátt fyrir að aðeins væri einn brunaútgangur á húsinu.“
Kolbrún bendir á að breytingar hafi verið gerðar á húsinu án tilskilinna leyfa. Í slíkum tilvikum fari ekki fram skoðun eftirlitsmanna á fyrirhuguðum teikningum og öryggismat. „Það skiptir máli að eftirlit með aðbúnaði og brunavörnum sé ekki aðeins virkt á framkvæmdarstiginu. Það þarf að efla frumkvæðiseftirlit slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa. Lagt er jafnframt til að fagaðilar greini hvað þarf að efla í eftirliti með brunavörnum og aðbúnaði mannvirkja og hvort þörf sé á frekari eftirlitsheimildum eða auknum mannafla eða fjármagni í verkefnið.“
Flokkur fólksins kallar eftir vitundarvakningu meðal almennings, sérstaklega fólks á leigumarkaði, um brunavarnir og aðbúnað. „Þá er mikið um það að fólk á leigumarkaði neyðist vegna fátæktar að leigja íbúðir í ósamþykktu húsnæði,“ segir í tillögunni. „Þessar íbúðir þarf að athuga sérstaklega. Það er nauðsynlegt að auka fræðslu til almennings um hvaða kröfur íbúðir þurfi að uppfylla til að þær teljist öruggar og að leigutakar eigi rétt á því að krefjast þess að leigusali ráðist í þessar úrbætur. Stór hluti þeirra sem leigja ósamþykktar íbúðir eru af erlendu bergi brotnir og þekkja ekki sín réttindi í þessum efnum eða hræðast það að missa húsnæði sitt ef þeir gera yfirvöldum viðvart. Það þarf að ná til þessa fólks og fræða þau um réttindi sín og hve alvarlegt það getur verið ef aðbúnaði og brunavörnum er ábótavant.“
Tillögunni var vísað til borgarráðs til meðferðar.
Athugasemdir