Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist ekki telja að verðtryggingarmál muni setja kjarasamningana í uppnám. Frumvarp sem þrengir að verðtryggingunni hefur verið samþykkt af ríkisstjórn, segir hann, en einhverjar athugasemdir hafa verið gerðar við það.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, spurði Bjarna um málið í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Benti hann á að Bjarni hefði sagt á Alþingi í maí að vísitölu til verðtryggingar verði ekki breytt eins og lofað hafði verið í tengslum við lífskjarasamninginn í fyrra. Til stóð að nota vísitölu án húsnæðisverðs til viðmiðunar. Sagði Bjarni að talsmenn launþegahreyfingarinnar telji nú að það þjóni ekki hagsmunum Alþingis og að það sjónarmið hefði komið fram á fundi með þeim.
„Ég vil spyrja hæstvirtan fjármálaráðherra: Voru þetta allir verkalýðsleiðtogar og ef ekki, hverjir voru það?“ sagði Guðmundur. „Hin spurningin er um lífskjarasamningana: Mun hann láta þá falla með því að taka ekki á verðtryggingunni? Er það eitthvað sem stendur til?“
Líkt og Stundin hefur greint frá mun lagafrumvarp um skref til afnáms verðtryggingar ekki taka breytingum eftir samráðsferli frá því síðasta sumar. Rúmt ár er liðið síðan frumvarpið var kynnt í tengslum við kjarasamninga, en það hefur ekki enn verið lagt fram á Alþingi.
„[...] engin ástæða til þess að verðtryggingarmál verði eitthvert aðalatriði“
Bjarni svaraði því til að á fundinum hafi verið fulltrúar ASÍ og einstakra stéttarfélaga innan ASÍ. „Spurt er hvort ég láti mér í léttu rúmi liggja að kjarasamningar fari í uppnám vegna verðtryggingarmála,“ sagði hann. „Ég segi bara: Það er engin ástæða til þess að það verði þannig. Ég held að við höfum haft einhverja jákvæðustu þróun, bæði vaxta og verðbólgu, sem við höfum lengi búið við og er engin ástæða til þess að verðtryggingarmál verði eitthvert aðalatriði.“
Frumvarpið afgreitt úr ríkisstjórn
Þá upplýsti hann um að frumvarpið sem snýr að skrefum til afnáms verðtryggingar hafi verið samþykkt af ríkisstjórn. Það felur í sér þrjár breytingar á veitingu verðtryggðra jafngreiðslulána. Óheimilt verður að veita þau til lengri tíma en 25 ára, nema ef lántakendur eru ungt eða tekjulágt fólk sem ætti í erfiðleikum með aukna greiðslubyrði sem fylgir styttri lánstíma. Þá er lágmarkstími slíkra lána lengdur úr fimm í tíu ár og þannig komið í veg fyrir að þau séu veitt til annars en kaupa á húsnæði. Loks verður vísitala neysluverðs án húsnæðis lögð til grundvallar nýjum lánum sem verða veitt. Ýmsar athugasemdir bárust frá aðilum vinnumarkaðarins og fræðimönnum í samráðsferli, en ekki var tekið tillit til þeirra.
„Ég veit að það eru einhverjar athugasemdir við það, en þar er ég að fylgja eftir loforði um að þrengja að 40 ára jafngreiðslulánum, verðtryggðum með skilyrðum,“ sagði Bjarni. „Það er síðan alltaf álitamál hversu langt eigi að ganga í þessum skilyrðum.“
Guðmundur sagði þá að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefði lagt mikla áherslu á verðtrygginguna í sambandi við kjarasamninga. „Ég get alveg upplýst hann um það að ég veit að leiðtogi stærstu verkalýðshreyfingarinnar, VR, telur verðtrygginguna vera hluta af lífskjarasamningunum,“ sagði hann. „Og hafi ekki verið tekið á því hefur lífskjarasamningurinn verið brotinn.“
Athugasemdir