Novator, félag auðmannsins Björgólfs Thors Björgólfssonar, var eini lánveitandi og helsti bakhjarl DV frá árinu 2017. Þetta kemur fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þar sem kaup Torgs ehf., félagsins sem á Fréttablaðið, á Frjálsi fjölmiðlun, félagsins sem á DV, eru samþykkt.
Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að félagið hafi glímt við mikla rekstarörðugleika og rekstur þess hafi ekki verið sjálfbær. Með þessu fæst staðfest að Björgólfur Thor greiddi fyrir taprekstur DV í gegnum félagið Dalsdal ehf., sem er í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns. Samkvæmt ársreikningum 2017 lánaði svo Dalsdalur Frjálsri fjölmiðlun 425 milljónir króna, sem átti að greiðast til baka með árlegum 85 milljóna króna afborgunum 2018 til 2022. Stórum hluta lánsins hefur þegar verið breytt í hlutafé.
Frjáls fjölmiðlun keypti DV haustið 2017 af fjölmiðlaveldi Björns Inga Hrafnssonar og með því vefmiðlana Pressuna, Eyjuna, 433.is, Bleikt auk fleiri miðla.
„Það er bara á milli þeirra sem taka lán og veita lán“
„Í samræmi við upplýsingar í samrunaskrá og ársreikningum hefur rekstur Frjálsrar fjölmiðlunar verið erfiður og móðurfélag þess Dalsdalur ehf. þurft að fjármagna reksturinn að mestu leyti með lánsfé,“ segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. „Af þeim sökum óskaði Samkeppniseftirlitið upplýsinga um lánveitendur félaganna. Þann 14. janúar 2020 bárust Samkeppniseftirlitinu samningar frá samrunaaðilum. Þar kom fram að félagið Novator ehf. hefur verið eini lánveitandi Dalsdals og Frjálsrar fjölmiðlunar og helsti bakhjarl fjölmiðilsins frá eigendaskiptum árið 2017.“
Sigurður vildi ekki veita upplýsingar
Haustið 2018 vildi Sigurður ekki greina frá því í samtali við Stundina hver veitti félaginu lánið. „Það er bara á milli þeirra sem taka lán og veita lán,“ sagði Sigurður. „Hverju breytir það hvort það er fjölmiðill eða ekki?“
Aðspurður hvort það skipti ekki máli að gera upplýsingar um endanlega eign á fjölmiðlum og hagsmunatengsl opinberar sagði Sigurður að hann teldi svo ekki vera. „Akkúrat engu máli,“ sagði hann. „Ég held ég hafi bara ekkert við þig að tala um ársreikninga þeirra fjölmiðlafyrirtækja sem ég stjórna.“
Talskona Björgólfs neitaði
Talskona Björgólfs Thors og Novators, Ragnhildur Sverrisdóttir, neitaði því í svari til Stundarinnar í ársloks 2017 að Björgólfur kæmi að fjármögnun DV og Frjálsrar fjölmiðlunar.
„Það er lítið um skjalfestar heimildir fyrir því sem ekki er“
Stundin spurði: „Geturðu sent mér staðfestingu þess efnis að Björgólfur Thor, eða félög honum tengd, hafi ekki með nokkrum hætti komið að fjármögnun á viðskiptum Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. með eignir sem voru í eigu Pressunnar ehf. fyrr á þessu ári? Ég tek fram að einnig er átt við lánveitingu til Frjálsrar fjölmiðlunar eða aðila tengdum félaginu, eða hvers kyns aðra fjárhagslega aðkomu að viðskiptunum. Þú hefur áður sagt þetta en ég myndi vilja fá þetta skýrlega orðað frá ykkur og on record.“
Í svari til Stundarinnar sagði Ragnhildur: „Ekki veit ég nú hvernig ég get sent þér frekari staðfestingu á að Björgólfur Thor eða félög honum tengd séu EKKI í einhverjum tilteknum bisniss. Það er lítið um skjalfestar heimildir fyrir því sem ekki er.“
Nú hefur komið í ljós að fjárfestingarfélag Björgólfs Thors var sannarlega lánveitandinn í viðskiptunum.
Athugasemdir