Sænsk stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um að banna fyrirtækjum sem nýta sér hlutabótaleiðina þar í landi að greiða út arð til hluthafa. „Það verður að vera kýrskýrt í hugum allra að maður getur ekki notfært sér hlutabótaleiðina og greitt út arð samtímis,“ segir fjármálaráðherra Svíþjóðar, Magdalena Anderson, við sænska ríkisútvarpið.
Gerð verður sérstök lagabreyting á hlutabótalögunum þar sem bannið kemur fram.
Stofnunin sem sér um umsóknir um hlutabætur í Svíþjóð, sem og eftirlit með úrræðinu, mun neita fyrirtækjum sem hafa greitt út arð nýlega að fara hlutabótaleiðina. Stofnunin mun jafnvel krefja fyrirtæki sem nú þegar hafa greitt arð samtímis og þau hafa nýtt sér úrræðið að greiða peningana til baka. „Við munum segja við fyrirtæki sem greiða út arð og við munum gera kröfu um endurgreiðslur frá fyrirtækjum sem hafa borgað út arð,“ segir forstjóri stofnunarinnar, Gunilla Nordlöf, við sænska ríkisútvarpið.
Í grein Dagens Nyheter um málið er haft eftir Magdalenu Anderson. „Ef maður fær peninga frá skattgreiðendum þá á maður ekki að geta tekið þá og troðið þeim í vasa hluthafanna.“
Ísland og Svíþjóð
Sams konar umræða hefur átt sér stað í Svíþjóð og á Íslandi um arðgreiðslur fyrirtækja sem nýtt hafa ríkisaðstoðina hlutabótaleiðina. Fréttir um arðgreiðslur Össurar og Skeljungs í miðjum COVID-faraldrinum samhliða notkun á hlutabótaleiðinni hafa vakið hörð viðbrögð á Íslandi.
Í Svíþjóð hafa tugmilljarða króna arðgreiðslur fyrirtækja á hlutabótaleiðinni vakið reiði, meðal annars ætluð arðgreiðsla bílaframleiðandans Volvo upp á annan tug milljarða.
Sænsk stjórnvöld hafa nú tekið ákvörðun í málinu og bannað arðgreiðslur fyrirtækja sem nota hlutabótaleiðina. Þverpólitísk samstaða er um ákvörðunina hjá stjórnmálaflokkum á sænska þinginu, allt frá hægri flokknum Moderaterna til vinstri flokksins Vensterpartiet.
„Maður mun ekki geta fengið fjárhagsaðstoð ef maður greiðir arð á sama tíma.“
Politísk pressa
Niðurstaða stofnunarinnar, sem er ígildi Vinnumálastofnunar á Íslandi og heitir Tillväxtverket, er tekin eftir að stjórnmálamenn settu pressu á stofnunina. Stofnunin hefur hingað til sagt að ekki sé hægt að banna arðgreiðslurnar miðað við gildandi lög. Þar af leiðandi þarf að breyta lögunum til að pólitískur vilji meirihlutans á sænska þinginu endurspeglist í þeim.
Efnahags- og viðskiptanefnd sænska þingsins bað um fund með forstjóra stofnunarinnar um málið þar sem stofnunin hafði haldið því fram að ekki væri heimild í lögum fyrir því að meina fyrirtækjum sem greiða út arð að fara hlutabótaleiðina. Nú er þetta breytt og bannið mun taka gildi. Frumkvæðið í málinu er því pólitískt.
„Maður mun ekki geta fengið fjárhagsaðstoð ef maður greiðir arð á sama tíma. Þetta liggur nú ljóst fyrir,“ segir fulltrúi Moderatarna í efnahags- og viðskiptanefnd, Edward Riedl.
Athugasemdir