Meðferð Samherjamálsins hjá embætti héraðssakóknara mun tefjast vegna COVID-faraldursins, rétt eins og meðferð annarra mála sem eru til meðferðar hjá embættinu, segir Ólafur Þór Hauksson, forstjóri þess. „Það er alveg óhætt að segja það að það tefjast öll mál hjá okkur út af COVID,“ segir Ólafur Þór. Hluti starfsmanna embættisins hefur unnið heiman frá sér síðustu vikurnar, rétt eins og starfsmenn annarra stofnana. „Við erum auðvitað með hluta af starfsmönnunum heima og hluta á skrifstofunni.“
Samherjamálið snýst um rannsókn á mútugreiðslum upp á vel á annan milljarð króna sem fyrirtækið greiddi til stjórnmála- og embættismanna í Namibíu á árunum 2012 til 2019 í skiptum fyrir hestmakrílskvóta, líkt og Stundin, Kveikur og Al Jazeera sögðu frá í nóvember síðastliðnum á grundvelli gagna frá Wikileaks. Málið hefur verið til meðferðar hjá embætti héraðssaksóknara frá þeim tíma sem greint var frá því opinberlega.
„Það er alveg óhætt að segja það að það tefjast öll mál hjá okkur út af COVID“
Ólafur segir að auk þess þá bætist við þetta að erfitt sé að boða sakborninga og aðila mála í skýrslutökur hjá embættinu vegna smithættu á COVID-19. Hvorki sakborningar né lögmenn þeirra séu áfram um að koma á skrifstofu embættisins til að gefa skýrslur í einstaka málum. „Þá liggur starfsemi dómstóla líka niðri. Þannig að þetta er allt límkennt og hefur áhrif hvert á annað,“ segir Ólafur um stöðuna á rannsóknum embættisins.
Fyrst þarf að ná utan um málið
Ekki hefur spurst til þess að einhverjir starfsmenn eða fyrrverandi starfsmenn Samherja hafi verið boðaðir í skýrslutökur hjá embætti héraðssaksóknara vegna meðferðar málsins. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og stærsti hluthafi, Samherja hefur því ekki verið yfirheyrður vegna rannsóknar málsins.
Þorsteinn Már tók aftur við starfi sínu sem forstjóri Samherja í lok mars eftir að hafa farið í leyfi frá störfum í nóvember síðastliðnum.
Í slíkum málum, þar sem fyrir liggur mikið magn gagna um málið sem til meðferðar er, byrjar ákæruvaldið á því að reyna að ná utan um málið með því að skoða gögnin áður en boðað er í skýrslutökur. Í Samherjamálinu er ekki að finna sams konar óvissuþátt og í málum sem ekki hefur verið sagt frá opinberlega áður og vita starfsmenn og eigendur Samherja að málið er til meðferðar hjá ákæruvaldinu þar sem þetta hefur komið margsinnis fram síðastliðna mánuði. Því liggur kannski ekki á að taka skýrslur af forsvarsmönnum Samherja þar sem staðreyndir málsins liggja fyrir opinberlega og stjórnendur Samherja vita að málið er til meðferðar.
Innanhúsrannsókn Samherja dregst á langinn
RÚV sagði frá því fyrr í vikunni að innanhúsrannsókn norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein á mútugreiðslum Samherja myndi dragast á langinn vegna COVID-faraldursins.
„ Við áætlum að ljúka rannsókninni síðar í vor“
Í svari til RÚV sagði talsmaður Wikborg Rein, Geir Swiggum, um þetta: „Vinna okkar stendur yfir og miðar vel. Það hafa orðið tafir vegna kórónuveirufaraldursins, ferðabanns og annarra takmarkana. Þær eru þó ekki mjög miklar. Rannsóknin heldur áfram þangað til bæði stjórn Samherja og við erum fullviss um að atriði málsins hafi verið kortlögð. Við áætlum að ljúka rannsókninni síðar í vor,“ segir í svari Sviggum.
Þá hefur einnig komið fram að rannsókn yfirvalda í Namibíu muni dragast á langinn út af COVID-faraldrinum. Sexmenningarnir sem sitja í gæsluvarðhaldi í Namibíu fyrir að hafa þegið mútugreiðslurnar frá félögum Samherja munu þurfa að sitja í fangelsi að minnsta kosti þar til 29. maí þegar til stendur að taka mál þeirra fyrir þar í landi næst.
Athugasemdir